fbpx
Miðvikudagur 24.apríl 2024
Fréttir

Svona fóru bankastarfsmennirnir að því að gera lítið sem ekkert í vinnunni og komast upp með það

Ágúst Borgþór Sverrisson
Föstudaginn 8. nóvember 2019 11:50

Þórlindur Kjartansson

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þórlindur Kjartansson, hagfræðingur og pistlahöfundur á Fréttablaðinu, gerir því skóna í nýrri grein í blaðinu að fimm tíma vinnudagur sé nægilegur fyrir skrifstofufólk til að afkasta því sem þarf. Segir Þórlindur að eitt verst geymda leyndarmál nútímavinnu sé að fólk geri afskaplega lítið stóran hluta vinnutímans. Þórlindur skrifar:

„Hafið þið heyrt yfirmanninn í opinberu stofnuninni sem fékk fyrirspurn um hversu margir störfuðu hjá honum? „Um það bil helmingurinn,“ var svarið sem flestum þótti fyndið í fyrsta skiptið sem þeir heyrðu brandarann.

Það er líklega eitt verst geymda leyndarmálið í nútímavinnu að mjög stóran hluta þess tíma sem fólk situr við vinnu er afskaplega lítið að gerast. Sumt af þeirri tímasóun er sakleysislegt. Það er til dæmis ekki mjög skaðlegt að starfsmaður sitji og leggi kapal í tölvunni sinni nokkra klukkutíma á dag, uppfæri fantasíuliðið fyrir næstu helgi, lesi tilgangslausar fréttir af ástalífi áhrifavalda á samfélagsmiðlum eða stari einfaldlega út í loftið. Mun skaðlegri eru starfsmenn sem reyna að fylla upp í tómarúm tilgangsleysisins með því að búa til tímafrek verkefni fyrir aðra starfsmenn, til dæmis með stöðugu flóði fyrirspurna í tölvupóstum, ádrepum á Slack-rásum eða sífelldum fundahöldum um hvernig tryggja megi að fundarmenning fyrirtækisins stuðli að hámarksnýtingu á mannauðinum.“

Þórlindur lýsir síðan ísmeygilegum aðferðum starfsmanna í lögfræðideild eins bankans fyrir hrun til að láta líta út fyrir að þeir væru ávallt önnum kafnir en gera þó sem minnst. Lýsti þetta sér til dæmis í sérstakri meðferð á tölvupóstum og fundarboðum:

„Regla númer eitt var að vera alltaf síðastur til þess að svara öllum tölvupósti, en aldrei að ljúka neinum málum eða svara erindum afdráttarlaust. Ef þeim bárust langar og flóknar spurningar með hinum og þessum fylgiskjölum þá höfðu þeir þann háttinn á að svara einfaldlega með beiðni um nánari upplýsingar án frekari útskýringa. Ef beðið var um útlistun á fyrirspurn lögfræðideildarinnar þá höfðu þeir þann sið að setja yfirmann fyrirspyrjandans í „cc“ í næsta tölvupósti og bera því við að þeir bæru ábyrgð á lagalegri áhættu bankans og þeir yrðu að fá fyllri og betri skýringar til þess að geta tekið afstöðu til álitaefnisins. Svona mátti láta mál dingla áfram í kerfinu vikum og jafnvel mánuðum saman. Oftar en ekki urðu spurningarnar óþarfar í millitíðinni þannig að enginn skaði var í raun skeður þótt lögfræðingarnir hafi ekki ómakað sig með að reyna að svara fyrirspurninni.

Regla númer tvö var að láta alltaf eins og þeir væru mjög uppteknir og það mætti alls ekki trufla þá. Ef óskað var eftir fundi þá var iðulega gefinn kostur á mjög óþægilegri tímasetningu eftir langan tíma („gæti verið laus í kortér kl. 8.30 þann 24. desember nk. Láttu mig vita ef það hentar“). Best af öllu var ef hægt var að láta ritara eða laganema bera þau skilaboð að lögfræðingurinn væri á kafi í mikilvægu og háleynilegu verkefni fyrir bankastjórnina og það væri mjög erfitt að ná í hann. Þetta dugði yfirleitt stórvel og aldrei lét nokkur maður sér detta í hug að trufla lögfræðingana með því að fara óboðinn inn á vinnusvæði þeirra. Þannig fengu þeir að hafa í fullkomnum friði sitt hugvitsamlega fyrirkomulag og engan grunaði neitt. Í ljósi þess sem gerðist þá má jafnvel segja að hin mikla þjálfun lögfræðinganna í golfinu hafi verið með því gagnlegra sem þeir gerðu í vinnunni.“

Þórlindur segir að umræddir lögfræðingar hefðu uppgötvað þann sannleika að vinnan sjálf taki ekki svo mikinn tíma ef fólk hafi tíma til að sinna henni í friði.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Bongóblíða á landinu í dag og sumarið handan við hornið

Bongóblíða á landinu í dag og sumarið handan við hornið
Fréttir
Í gær

Úkraínumenn skutu rússneska sprengjuflugvél niður – Getur þvingað Rússa til breytinga

Úkraínumenn skutu rússneska sprengjuflugvél niður – Getur þvingað Rússa til breytinga