fbpx
Laugardagur 20.apríl 2024
Fréttir

Þórdís segir Steinunni fara með rangt mál: „Ég skil vel þá tilhneigingu að vilja afneita sárum sannleika“

Máni Snær Þorláksson
Þriðjudaginn 5. nóvember 2019 17:13

Steinunn og Þórdís.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Miklar umræður hafa farið í gang í kjölfar dómsins í máli Atla Rafns.

Þær Steinunn Ólína og Þórdís Elva Þorvaldsdóttir hafa án efa verið hvað mest áberandi í umræðunni en Þórdís birti nýjan pistill í dag þar sem hún fer yfir meintar rangfærslur Steinunnar Ólínu.

„Þér er ég greinilega mjög hugleikin, Steinunn Ólína, og þá sérstaklega nauðgun sem ég varð fyrir þegar ég var á barnsaldri, eða 16 ára gömul. Gerandi minn, sem þá var átján ára, hefur játað þann verknað fyrir alþjóð. Þú vilt hlífa honum við því að vera kallaður nauðgari og berð hann saman við „þjófóttan smákrakka“, eins og gróft kynferðisofbeldi sé á einhvern hátt sambærilegt við að stela tyggjói úr sjoppu. Þetta er svo fjarstæðukennt að það dæmir sig sjálft. Þá heldur þú því fram að aðalatvinna mín síðastliðin ár hafi verið við „markaðssetningu á vitundarvakningum um kynferðisofbeldi“, en hið rétta er að ég hef mest starfað við fræðslu, t.d. með gerð forvarnar- og fræðsluefnis fyrir yfirvöld, auk þess að sinna menntun barna um kynfrelsi þeirra og sjálfsákvörðunarrétt.“

Þórdís segir alvarlegustu rangfærsluna í skrifum Steinunnar vega gróflega að starfsheiðri sínum, „en það er þegar þú heldur því fram að í þeirri vinnu hafi ég kennt börnum óljósar skilgreiningar á ofbeldi sem „mun í lengdina mynda gjá á milli kynja, auka hatursorðræðu og sundra fólki,“ að þínu mati. Sem betur fer er auðvelt að hrekja þessa fullyrðingu þína því í öllu mínu fræðsluefni eru orðskýringar, þar sem skilgreiningar á ofbeldi eru byggðar á lögum og/eða nýjustu útgáfu íslensku orðabókarinnar.“

Hún segir að þetta megi sjá í fræðslumyndinni Fáðu já, fræðslumyndinni Stattu með þér og í stuttmyndinni Myndin af mér. „Það „heilmikla ógagn“ sem þú vilt því eigna mér að hafa valdið á sér því engar stoðir í raunveruleikanum, enda er allt mitt fræðsluefni unnið með það að markmiði að fræða en ekki hræða,“ segir Þórdís.

„Það er löng hefð fyrir því að skjóta sendiboðann“

Þórdís setti bæturnar, sem Atla Rafni voru dæmdar fyrir uppsögnina, í samhengi við þær bætur sem kynferðisbrotaþolum er almennt úthlutað af hálfu dómstóla. „Sjálf hef ég hvergi staðhæft um sekt eða sakleysi Atla Rafns varðandi þær ásakanir sem lágu til grundvallar brottreksturs hans úr Borgarleikhúsinu. Til þess hef ég hvorki forsendur né leyfi. Mál hans vakti hins vegar þarfa umræðu um vinnurétt, og rifjaði ég af þeim sökum upp nokkrar metoo-frásagnir frá leikkonum sem höfðu líka orðið fyrir því að réttur þeirra var vanvirtur.“ Þórdís segist ennþá muna eftir þessum frásögnum en hún segir Steinunni hafa gert lítið úr sumum þeirra með því að kalla þær „þjóðsögur og ævintýri“.

„Ég skil vel þá tilhneigingu að vilja afneita sárum sannleika, eða reyna að flokka hann sem uppspuna. Ef það er ekki hægt að afneita honum skil ég líka að næsta skref sé að ráðast að trúverðugleika þess sem færir hann í orð. Það er löng hefð fyrir því að skjóta sendiboðann, en sú aðferð hefur þó aldrei upprætt nokkurn vanda.“

„Sjálf ertu brotaþoli kynferðisofbeldis“

Steinunn vakti mikla athyglli í haust þegar hún hvatti konurnar sem ásökuðu Atla Rafnum kynferðislega áreitni til að stíga fram. Þá sagði Steinunn að ef það yrði ekki gert þá væri það ólíðandi og metoo-byltingunni til háðungar. Þórdís gagnrýnir þetta í pistlinum og segir Steinunni að vera sjálfri sér samkvæm.

„Þú greinir frá því í pistli þínum að sjálf sértu brotaþoli kynferðisofbeldis, en mér þykir leitt að við skulum deila jafn erfiðri lífsreynslu. Teljir þú að það sé auðsótt mál að nefna geranda sinn á nafn opinberlega er þér frjálst að gera slíkt um þinn eigin geranda, og vera þannig sjálfri þér samkvæm.“

Það vakti mikla athygli á sínum tíma þegar Þórdís kom fram með fyrirlestur ásamt Tom Stranger, sem nauðgaði henni. Þórdís segist hafa þannig borið hann sjálf til ábyrgðar með opinberum hætti. Steinunn gagnrýndi þetta harðlega í skrifum sínum en Þórdís svarar því í þessum pistli.

„Það kallar þú hins vegar „sjálfsupphafinn“, „niðurlægjandi“, „drottnunargjarnan“ og „hefndarfýsinn“ gjörning af minni hálfu sem lýsi „ótrúlegri grimmd“. Þannig fordæmir þú bæði brotaþola sem kjósa nafnleynd, auk þeirra sem rjúfa þögnina. Í fljótu bragðist virðist ekki vera hægt að gera rétt í þínum bókum, hvort sem sagt er frá eða þagað. Í ofanálag eru þau hatrömmu lýsingarorð sem þú lætur frá þér um reynslu mína af kynferðisofbeldi ekki eignuð gerandanum fyrir að hafa nauðgað – heldur þolandanum fyrir að hafa greint frá því. Málflutningur þinn afhjúpar þannig, svart á hvítu, hvar þú leggur ábyrgðina á kynferðisofbeldi og hvern þú telur að fordæma beri þegar slíkt á sér stað. Það er einmitt svona þolendaskömmun sem veldur því að þolendur veigra sér við að segja frá. Sé þér alvara með hvatningu þinni til brotaþola um að stíga fram og rjúfa þögn sína mæli ég með að þú leggir þessa orðræðu niður hið snarasta.“

Þórdís botnar pistilinn með því að taka það fram að hún sé sammála Steinunni með hluta af skrifum hennar. Steinunn tók það fram að Þórdís þurfi ekki á velþóknun hennar að halda.

„Þar erum við sammála. Ég hef fengið alla þá viðurkenningu sem ég þarf í gegnum mælingar á árangri míns starfs. Í könnun sem Gallup framkvæmdi kom fram að 70% allra tíundu bekkinga á landinu sögðust skilja betur hvað kynferðislegt samþykki þýðir eftir að hafa horft á fræðslumynd mína Fáðu já. Upplýst ungmenni eru líklegri til að virða mörk annarra og þannig komum við í veg fyrir ofbeldi, sem er fyrsta skrefið í átt til betra samfélags. Að því markmiði mun ég halda áfram að vinna af sömu gleði og heilindum og ég hef gert hingað til.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Stöð 2 lækkar verð
Fréttir
Í gær

Segist enga tengingu hafa við heimalandið en verður samt að sitja í fangelsi þar

Segist enga tengingu hafa við heimalandið en verður samt að sitja í fangelsi þar
Fréttir
Í gær

Kíghósti greinist hjá nokkrum ótengdum einstaklingum á höfuðborgarsvæðinu

Kíghósti greinist hjá nokkrum ótengdum einstaklingum á höfuðborgarsvæðinu