fbpx
Mánudagur 07.júlí 2025
Fréttir

Margir minnast Pálu: „Hún var ein hugaðasta kona Íslands“

Ritstjórn DV
Miðvikudaginn 3. apríl 2019 09:45

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Sigrún Pálína Ingvarsdóttir, þroskaþjálfi og brautryðjandi í baráttunni gegn kynferðisofbeldi á Íslandi, lést í gær. Hún var 63 ára og andaðist á sjúkrahúsi í Danmörku eftir erfið veikindi. Á samfélagsmiðlum minnast margir hennar, ekki síst baráttu hennar fyrir réttlæti. Pála lauk námi frá Þroskaþjálfaskóla Íslands árið 1977 og starfaði við sitt fag fram til 1996 er hún flutti búferlum til Danmerkur þar sem hún starfaði lengst af sem þroska- og markþjálfi og meðferðarráðgjafi.

Biskupsmálið henni að þakka

Ingibjörg Dögg Kjartansdóttir, ritstjóri Stundarinnar, minnist Pálu á Facebook og segir að án hennar hefði Biskupsmálið aldrei verið gert upp. „Var að fá þær fregnir að Sigrún Pálína Ingvarsdóttir væri látin. Hún var hugrökk og sterk kona sem hafði mikil áhrif á íslenskt samfélag. Um leið og ég finn fyrir sorg þá finn ég fyrir þakklæti yfir því að hafa fengið að kynnast henni og baráttu hennar fyrir réttlæti. Ég er þakklát fyrir að hún hafi treyst mér fyrir sér á sínum tíma og kennt mér að það dugar aldrei að gefast upp,“ segir Ingibjörg.

Hún segir að íslenskt samfélag eigi henni mikið að þakka. „Án hennar hefði Biskupsmálið aldrei verið gert upp, en ég er sannfærð um að það hafi ollið straumhvörfum í því hvernig tekið var á kynferðisbrotamálum í íslensku samfélagi. Hún hafði styrkinn og réttlætiskenndina til að halda baráttunni áfram um árabil þar til það var loksins hlustað á hana – og þær allar. Við eigum henni öll mikið að þakka. Aðstandendum hennar votta ég mína dýpstu samúð og kærleika. Megi ljósið fylgja ykkur,“ segir Ingibjörg.

Lagði grunninn

Femíníska vefritið Knúz minnist Pálu og segir hana hafa átt stóran hlut í leggja grunninn að #metoo baráttunni. „Saga Sigrúnar Pálínu og barátta hennar fyrir réttlátri málsmeðferð, á sínu erfiða máli gegn einni helstu valdastofnun landsins á tímum þegar slíkt var algerlega óþekkt, lætur engan ósnortinn. Ung stúlka varð hún fyrir kynferðislegri áreitni af höndum eins virtasta prests landsins, sem síðar varð biskup. Á þessum tíma var slíkt óþekkt en óbilandi réttlætiskennd Sigrúnar Pálínu og stuðningur fjölskyldu hennar knúði hana áfram. Þannig ruddi hún veginn fyrir aðrar konur til að koma fram með álíka mál og átti stóran þátt í að leggja grunninn að #metoo baráttunni. Barátta hennar í kjölfar umrædds áreitis tók áratugi og markaði hana fyrir lífstíð. Varð málið allt til þess að hún flutti úr landi með fjölskyldu sína og sneri ekki heim aftur. Knúz sendir fjölskyldu Sigrúnar Pálínu og vinum innilegar samúðarkveðjur. Megi minning um sterka konu lifa,“ segir í stöðufærslu Knúz.

Alltaf þakklát

Hildur Lilliendahl deilir á Facebook-síðu sinni upptöku úr Kastljósi árið 2010 þar sem Pála ræðir mál Ólafs Skúlasonar. „Ég ætla að trúa því að Sigrún hafi vitað hversu mikilvægt þetta risastóra skref var. Ég ætla að halda í þá trú að hún hafi vitað hvað hún gerði mikið fyrir þolendur kynferðisofbeldis og hvað hún gerði mikið fyrir konur. Það var miklum mun erfiðara að segja frá árið 2010 en það er í dag, og er það þó enn ólýsanlega erfitt. Ég treysti því að hún hvíli í friði og hafi dáið stolt af sínu. Ég verð henni alltaf þakklát,“ segir Hildur.

Braut þagnarmúr

Heiða B. Heiðars, fyrrverandi auglýsingastjóri Stundarinnar, segir að Pála hafi verið ein hugaðasta kona Íslands. „Pála er dáin og það þarf að tala um afrek hennar og hvað þau kostuðu hana. Hún var ein hugaðasta kona Íslands. Hún braut ísinn. Steig fram og sagði okkur að biskupinn væri kynferðisbrotamaður og hún hafi reynt það á eigin skinni. Hún var kjörkuð. Það var ekkert auðvelt fyrir hana að stíga fram og brjóta þennan þagnarmúr. Pála var fyrsta #mettoo konan. Pála þurfti að flýja land af því að henni var ekki rótt á Íslandi eftir að hafa ruggað bátnum,“ segir Heiða.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Ymur Art sakfelldur fyrir morð á móður sinni en honum ekki gerð refsing

Ymur Art sakfelldur fyrir morð á móður sinni en honum ekki gerð refsing
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Ísraelar fagna eftir lokaðan fund Eurovision – Íslendingum og Slóvenum tókst ekki að reka þá úr keppninni

Ísraelar fagna eftir lokaðan fund Eurovision – Íslendingum og Slóvenum tókst ekki að reka þá úr keppninni
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Harmleikurinn á Edition-hótelinu – Gæsluvarðhald framlengt um fjórar vikur

Harmleikurinn á Edition-hótelinu – Gæsluvarðhald framlengt um fjórar vikur
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Hart tekist á um Fannborgarreitinn í Kópavogi – Bílastæði séu einhliða tekin af íbúum

Hart tekist á um Fannborgarreitinn í Kópavogi – Bílastæði séu einhliða tekin af íbúum