fbpx
Föstudagur 19.apríl 2024
Fréttir

Íslendingur tengdur dularfullu mannshvarfsmáli á Spáni: „Stenst ekki að bróðir minn hafi horfið af yfirborði jarðar“

Auður Ösp
Föstudaginn 22. mars 2019 12:29

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Íslendingar koma við sögu í dularfullu mannshvarfsmáli sem upp kom á Spáni í byrjun ársins. Uppi eru getgátur um að málið tengist andláti ungs Íslendings. Ítrekað hefur verið fjallað um málið í spænskum fjölmiðlum undanfarnar vikur.

Henry Alejandro Marín, tvítugur menntaskólanemi af kólumbískum ættum yfirgaf heimili sitt í La Florida í Torrevieja í Alicantehéraði á nýársnótt. Fjölmargir Íslendingar eiga hús eða búa á svæðinu. Ekkert hefur spurst til hans síðan þá.

Henry Alejandro Jiménez

Einn á Spáni

Fram kemur í spænskum miðlum að í lok seinasta árs hafi íslenskur piltur fundist látinn á sófa í íbúð sem er í sama fjölbýlishúsi og þar sem Henry býr. Fram kemur að dánarorsök piltsins hafi verið ofneysla. Umræddur piltur leigði á þeim tíma íbúð með tveimur öðrum Íslendingum. Annar þeirra flutti til Íslands eftir þetta en hinn varð eftir á Spáni. Henry flutti inn til hans eftir þennan hörmungaratburð.

Andrés Jiménez, bróðir Henry, segir bróður sinn hafa viljað vera til staðar fyrir vin sinn, sem var einn á Spáni að takast á við missinn. Andrés segist jafnframt þekkja íslensku piltana þrjá, þar sem þeir hafi stundum hist yfir bjór. Þeir eru að hans sögn „ósköp venjulegir“.

Fram kemur að hinn íslenski meðleigjandi Henry tali litla sem enga spænsku. Segir Andrés að Íslendingurinn og Henry hafi eytt miklum tíma saman og hafi Henry verið túlkur fyrir hann þegar þess þurfti. Hvergi hefur komið fram að þessi tvö atvik, dauðsfall Íslendingsins og hvarf Henry tengist með einhverjum hætti en Andrés telur þetta undarlegt.

„Eitt tilfelli er tilviljun en þegar þau eru orðin tvö þá er þetta mjög skrítið,“ segir Andrés. „Það stenst ekki að bróðir minn hafi horfið af yfirborði jarðar.“

Á gamlárskvöld var partý í íbúð þeirra félaga, Henry og Íslendingsins. Samkvæmt frásögnum spænskra miðla kom til átaka á milli þeirra tveggja seint um kvöldið, sem endaði með því að Íslendingurinn réðst á Henry. Henry yfirgaf íbúðina í kjölfarið.

Orihuela Costa á Spáni.

„Henry con chicas“

Fram kemur að daginn eftir, á nýársdag, hafi móðir Henry orðið áhyggjufull þegar sonur hennar svaraði ekki símanum. Í kjölfarið hafi fjölskyldan spurt um ferðir hans hjá vinum, haft samband við sjúkrahús á svæðinu og að lokum tilkynnt hvarf hans til lögreglunnar.

Þá kemur fram að fjölskylda Henry hafi farið í íbúðina skömmu eftir hvarfið og þar hafi vinir hans afhent þeim farsíma hans og veski, ásamt úri sem Henry ber á sér öllum stundum. Tekur hann það aðeins af sér í sturtu. Þegar móðir Henry spurði íslenska meðleigjandann um ferðir sonar hennar svaraði hann: „Henry con chicas“ („Henry með stelpum“).

Fram kemur að Guardia Civil lögreglan hafi yfirheyrt íslenska meðleigjandann, sem og gestina sem staddir voru í íbúðinni á gamlárskvöld. Hefur Íslendingurinn staðfest að til átaka hafi komið á milli þeirra tveggja sem enduðu með því að hann réðst á Henry. Þá kemur fram að samkvæmt vitnisburði Íslendingsins var Henry „ekki í góðu ástandi“ þegar hann yfirgaf íbúðina.

Fram kemur að frásagnir þeirra sem staddir voru í íbúðinni þetta kvöld séu misvísandi. Fjölskylda Henry viti því ekki hverju skal trúa. Þau segja þó fráleitt að Henry skuli hafa látið sig hverfa án þess að ræða við nokkurn mann. Það sé útilokað að hann hafi horfið af sjálfsdáðum þar sem hann var hvorki með síma eða peninga á sér. Þá vill Andrés meina að bróðir hans hafi ekki varið sig gegn ofbeldinu af hálfu meðleigjanda síns. „Bróðir minn er einstaklega rólyndur og hann hefur aldrei lent í slagsmálum.“

Umfangsmikil leit hefur engan árangur borið.

Nokkrar tilgátur

Leitin að Henry hefur nú staðið yfir í rúmlega tíu vikur. Leitin takmarkaðist í fyrstu við Orihuela Costa svæðið en hefur nú teygt anga sína víðar. Veggspjöld af Henry hafa verið hengd upp víða og á samfélagsmiðlum biðja fjölskylda og vinir um hjálp.

Málið er enn til rannsóknar hjá þarlendum yfirvöldum en í yfirlýsingu lögreglu segir að verið sé að rannsaka „þó nokkrar tilgátur“. Enn sem komið er hefur enginn verið handtekinn í tengslum við hvarfið.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Segist enga tengingu hafa við heimalandið en verður samt að sitja í fangelsi þar

Segist enga tengingu hafa við heimalandið en verður samt að sitja í fangelsi þar
Fréttir
Í gær

Kíghósti greinist hjá nokkrum ótengdum einstaklingum á höfuðborgarsvæðinu

Kíghósti greinist hjá nokkrum ótengdum einstaklingum á höfuðborgarsvæðinu