fbpx
Fimmtudagur 13.ágúst 2020
Fréttir

„Af hverju hoppar fræðasamfélagið ekki bara um borð með svona öflugri ungri konu?“

Ari Brynjólfsson
Miðvikudaginn 16. janúar 2019 14:00

Alda Karen Hjaltalín og Hulda Björnsdóttir. Samsett mynd/DV/Skjáskot af vef K100

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Hulda Bjarnadóttir, útvarpskona á K100, kemur Öldu Karen Hjaltalín til varnar og segir engan geta alltaf sagt allt rétt í beinni útsendingu, þar að auki spyr hún hvort fræðasamfélagið og sérfræðingar ættu ekki að hoppa um borð með Öldu Karen. Alda Karen hefur verið harðlega gagnrýnd fyrir skilaboð sín, talar hún um lífslykla, möntruna „ég er nóg“ og fólk fái það sem það finnst það eiga skilið. Málið var til umræðu í Kastljósi þar sem Hafrún Kristjánsdóttir sálfræðingur gagnrýndi skilaboðin sem Alda Karen er að senda og sagði þau skaðleg og einfalda mjög flókin mál.

Hulda, sem er fyrrverandi framkvæmdastjóri Alþjóðasviðs Viðskiptaráðs og á sæti í ýmsum stjórnum ásamt því að eiga langan feril í fjölmiðlum, skrifar harðorða færslu á Facebook í tengslum við umræðuna um Öldu Karen: „Af hverju hoppar fræðasamfélagið og allir sérfræðingar ekki bara um borð með svona öflugri ungri konu á borð við Öldu Karen? Og talar til ungs fólks frekar en að skamma hana fyrir að segja eitthvað „vitlaust“ eða klaufalega? Og mótar skilaboð til næstu ára og fer að vinna með henni í gegnum hennar öfluga unga tengslanet og samfélagsmiðla? Við rekum okkur öll á og ENGIN ENGIN ENGIN getur alltaf sagt allt rétt alltaf í beinni í fjölmiðlum. Ekki ég og ekki þú.“

Hulda segir aðferðir Öldu Karenar virka, vitnar hún í ungan einstaklinga sem hafi verið leiður, hitt hana og farið að elta markmið, allt í einu hafi viðkomandi fundið gleðina:

„Hún er ekki einhver húmbúkk sölumaður með loft í pokanum að reyna að plata fólk. En jú vissulega er Alda að byggja upp fyrirtæki og gæti grætt á þessu og sjálfsagt tilgangurinn líka að búa til pening til að byggja upp áfram eitthvað sem þú elskar að gera og ert góður í. Sem hún er og hefur sannað með fyrirlestrum í stærstu sölum landsins.“

Varðandi Hafrúnu Kristjánsdóttur sálfræðing segir Hulda þær vera vinkonur og Hafrún hafi komið fram með ýmsa áhugaverða punkta:

„Mér finnst fræðasamfélagið oft með rangan fókus, þegar við erum í dauðafæri að ná til ákveðins hóps að fara að skamma fyrir að þekkja ekki fræði sem það sjálft hefur legið yfir í mörg ár. Dragið frekar í vinnuhópa og fræðið í gegnum þá sem eru að vinna hlutina öðruvísi og skipuleggið herferðirnar fókuserað. Eða fáið bara líka að fara á sviðið og setja fyrirvarana á það sem þið heyrið þar.“

Hulda bendir á að Alda hafi haft frumkvæði að því að vinna með samtökum: „En hún skilur vanda ungs fólks sem er alltaf í samanburði við aðra á samfélagsmiðlum og þá verðum við að minna okkur sjálf á að við erum nóg og maður á nóg með sjálfan sig. Skilaboðin eru bara helvíti góð fyrir allt og alla. Og þurfa kannski ekki að gerast í gegnum meðvirknisamtök eða stofnanir.“

Hún tekur fram að hún starfi ekki með Öldu Karen, hún sé að verða fyrir árásum:

„Og því finnst mér vegið að á ósanngjarnan máta og ég hefði verið niðurbrotin sjálf 25 ára hefði ég fengið svona árás á mig fyrir að vilja bara vel og vera einlæg og tilbúin að gefa af mér. Ég hef breiðara bak í dag og því tek ég upp hanskann fyrir Öldu sem vissulega hefur meiri reynslu en margir jafnaldrar og getur alveg staðið í eldlínunni – en það er bara erfiðara þá daga sem stormurinn gengur yfir.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Í vikunni