fbpx
Fimmtudagur 18.apríl 2024
Fréttir

Málum frestað til hausts

Ráðherrar hafa þegar frestað þingmálum til haustþings – Fjórir dagar til stefnu

Ritstjórn DV
Þriðjudaginn 28. mars 2017 14:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Ráðherrar ríkisstjórnarinnar munu ekki leggja fram öll þau þingmál sem boðað var að kæmu fram í þingmálaskrá. Þegar hefur verið tekin ákvörðun um að fresta framlagningu nokkurra frumvarpa til haustþings. Ráðherrar hafa út þessa vinnuviku til að leggja fram þingmál en frestur til þess rennur út 1. apríl.

Í þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar, sem lögð var fram 24. janúar síðastliðinn samhliða stefnuræðu forsætisráðherra, var boðað að ráðherrar hygðust leggja fram 101 þingmál. Í frétt DV 17. mars síðastliðinn kom fram að aðeins væri búið að leggja fram 23 þingmál og að fjórir ráðherrar hefðu enn ekkert mál lagt fram.

Mál fara að dælast inn

Frá því hefur staðan batnað lítið eitt. Framkomnum þingmálum hefur fjölgað um níu og eru nú orðin 32 talsins. Samkvæmt samtölum við aðstoðarmenn ráðherra má búast við að fjöldi mála verði lagður fyrir ríkisstjórn á aukafundi hennar í dag, þriðjudag. Nokkur fjöldi þingmála var einnig lagður fram á ríkisstjórnarfundi síðastliðinn föstudag og eru þau nú til kynningar inni í þingflokkum ríkisstjórnarflokkanna. Þá verður haldinn ríkisstjórnarfundur á föstudaginn þar sem einnig gefst tækifæri til að leggja fram mál.

Þegar er ljóst að einhver þeirra mála sem boðað var að yrðu lögð fram frestast, í það minnst fram á haustþing. Meðal þeirra má telja lyfjalög sem heilbrigðisráðherra boðaði frumvarp um, boðað frumvarp menntamálaráðherra til laga um sviðslistir, boðað frumvarp ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra til laga um Ferðamálastofu og boðuð þingsályktunartillaga utanríkisráðherra um alþjóðlega þróunarsamvinnu.

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Óvissa um búvörulög

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, lagði fram tvö frumvörp í síðustu viku en eftir standa fimm þingmál sem boðuð voru. Að sögn aðstoðarmanns ráðherrans, Páls Rafnars Þorsteinssonar, á eftir að koma í ljós hvort þau verði lögð fram eður ei. Þannig er til að mynda ekki ljóst hvort frumvarp til laga um breytingar á búvörulögum verði lagt fram, enda um að ræða umfangsmikið mál. Páll sagði hins vegar aðspurður að hann teldi nokkuð víst að ekki næðist að leggja fram öll umrædd mál. Fyrir því lægju ýmsar ástæður en auðvitað fyrst og fremst sú að ríkisstjórn hefði tekið við í janúar og tíminn því verið naumur. Þau mál sem ekki náist að leggja fram nú verði að öllu jöfnu lögð fram á haustþingi þess í stað.

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Jafnlaunavottun kemur fram

Karl Pétur Jónsson, aðstoðarmaður Þorsteins Víglundssonar, félags- og jafnréttismálaráðherra, sagði í samtali við DV að hluti þeirra mála sem ráðherrann hefði boðað hefði verið til umræðu á ríkisstjórnarfundi síðastliðinn föstudag. Þeim hefði hins vegar verið frestað en reikna megi með einhver þeirra verði lögð fram í dag. Þorsteinn boðaði að hann hygðist leggja fram 13 þingmál en enn hafa engin þeirra litið dagsins ljós. Karl Pétur bendir á, líkt og Páll Rafnar, að stuttur tími sé liðinn frá því að ríkisstjórnin tók við. Það sé mögulegt að einhverjum málum verði frestað. Frumvarp ráðherra um jafnlaunavottun sé hins vegar farið frá ráðherra og sé til umfjöllunar í forsætisráðuneytinu.

Jón Gunnarsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, hefur lagt fram fjögur mál af átta samkvæmt vef Alþingis. Vigdís Ósk Häsler Sveinsdóttir, aðstoðarkona Jóns, segir að tvö mál til viðbótar hafi verið lögð fram í ríkisstjórn síðastliðinn föstudag og séu nú til umræðu inni í þingflokkum. Þeim tveimur málum sem út af standa hafi verið frestað til haustsins.

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Reynt að klára mál

Benedikt Jóhannesson, fjármála- og efnahagsráðherra, hefur lagt fram ellefu þingmál af þeim sautján sem boðuð voru. Unnið er að því að klára þau mál sem út af standa en samkvæmt upplýsingum frá Gylfa Ólafssyni, aðstoðarmanni Benedikts, er ekki ljóst hvort það tekst.

Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra hafði 17. mars lagt fram þrjú þingmál af þeim tíu sem boðuð voru. Síðan þá hefur staðan ekki breyst samkvæmt vef Alþingis, enn vantar sjö þingmál upp á. Ekki fengust upplýsingar úr ráðuneytinu um stöðu þeirra mála.

Utanríkisráðherra, Guðlaugur Þór Þórðarson, hefur lagt fram fimm þingsályktunartillögur en eftir standa sjö önnur þingmál. Borgar Þór Einarsson, aðstoðarmaður Guðlaugs, segir að búið sé að afgreiða fimm þeirra í ríkisstjórn þótt þau séu ekki komin inn á borð Alþingis. Það gerist væntanlega á næstunni. Tveimur málum hafi hins vegar verið frestað til haustþings, frumvarpi til laga um Íslandsstofu og þingsályktunartillögu um alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands. Seinna málinu hafi verið frestað vegna þess að sett hafi verið af stað vinna við endurskoðun á stefnu og markmiðum utanríkisþjónustunnar og því eðlilegt að umrædd þingsályktunartillaga bíði og fylgi þeirri endurskoðun í haust.

Kristján Þór Júlíusson, mennta- og menningarmálaráðherra, boðaði þrjú þingmál. Tvö þeirra frestast. Eftir því sem Inga Hrefna Sveinbjarnardóttir, aðstoðarkona Kristjáns, sagði DV er í öðru tilfellinu um að ræða upptöku á ESB-tilskipun sem ekki hefur verið kláruð af hálfu sambandsins. Í hinu tilfellinu er um að ræða frumvarp til sviðslistalaga. Þriðja málið var kynnt í ríkisstjórn síðasta föstudag.

Lyfjalögum verður frestað

Óttarr Proppé heilbrigðisráðherra boðaði fimm þingmál en einu þeirra verður frestað fram á haust, frumvarpi til lyfjalaga. Stefnt að því að leggja fram önnur mál, en þó er ekkert þeirra fram komið.

Af þeim þingmálum sem Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, boðaði eru þrjú af níu komin fram. Samkvæmt upplýsingum úr ráðuneytinu hefur tveimur málum verið frestað, eitt mál verður lagt fram í dag og stefnt er að því að leggja fram tvö önnur þó tæpt sé á að það muni nást fyrir tilskilinn frest.

Ekki fengust svör um stöðu mála í umhverfisráðuneytinu en samkvæmt Alþingisvefnum hefur Björt Ólafsdóttir, ráðherra málaflokksins, lagt fram þrjú af þeim þrettán þingmálum sem hún boðaði í þingmálaskrá. Þá er langt síðan forsætisráðherra, Bjarni Benediktsson, lagði fram sitt frumvarp.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 19 klukkutímum

Tryggvi segir málið með ólíkindum – „Ég á það, ég má það“

Tryggvi segir málið með ólíkindum – „Ég á það, ég má það“
Fréttir
Fyrir 20 klukkutímum

Ófögur sjón mætti Kristjáni í gærkvöldi: „Maðurinn sem gerði þetta er í haldi lögreglunnar“

Ófögur sjón mætti Kristjáni í gærkvöldi: „Maðurinn sem gerði þetta er í haldi lögreglunnar“
Fréttir
Í gær

Saxenda bætti lífsgleði, lífgæði, liðleika og úthald en SÍ neituðu að halda áfram að niðurgreiða

Saxenda bætti lífsgleði, lífgæði, liðleika og úthald en SÍ neituðu að halda áfram að niðurgreiða
Fréttir
Í gær

Meira en 10.000 kynsjúkdómatilfelli greind á Íslandi síðan 2020 – Sjáðu hvaða kynsjúkdómur er algengastur

Meira en 10.000 kynsjúkdómatilfelli greind á Íslandi síðan 2020 – Sjáðu hvaða kynsjúkdómur er algengastur
Fréttir
Í gær

Bjarkey strax undir miklum þrýstingi: „Það hefur gríðarlegar afleiðingar fyrir ráðherra að fara ekki að lögum“

Bjarkey strax undir miklum þrýstingi: „Það hefur gríðarlegar afleiðingar fyrir ráðherra að fara ekki að lögum“
Fréttir
Í gær

Viðbúnaður vegna vélarvana flutningaskips

Viðbúnaður vegna vélarvana flutningaskips