fbpx
Mánudagur 07.júlí 2025
Fréttir

Skapa menningarmiðstöð með samfélagslegri áherslu

Iðnó hefur opnað dyr sínar á ný eftir að nýir rekstraraðilar tóku við húsinu

Kristján Guðjónsson
Sunnudaginn 12. nóvember 2017 18:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Nýir rekstraraðilar hafa tekið við hinu fornfræga menningarhúsi Iðnó og er markmið þeirra að búa til listrænt og samfélagslegt rými sem er opið öllum Reykvíkingum og vegfarendum. „Húsið er í eigu borgarinnar og borgarbúar ættu að upplifa þetta sem sitt rými,“ segir René Boonekamp, nýr framkvæmdastjóri Iðnó. Fjölbreytt dagskrá viðburða verður í Iðnó auk veitingahúss og vinnurýmis fyrir fólk í skapandi greinum.

Lifandi staður

Frá því að Iðnó var byggt af Iðnaðarmannafélagi Reykjavíkur árið 1896 hefur það sinnt mikilvægi hlutverki í reykvísku menningar- og samkvæmislífi. Það var lengi vel eitt helsta samkomuhús borgarinnar, auk þess sem Leikfélag Reykjavíkur hafði aðsetur í húsinu til ársins 1989. Frá því að Reykjavík eignaðist húsið hefur rekstur hússins verið boðinn út á fjögurra ára fresti, en í útboði borgarinnar fyrr á þessu ári voru René og Þórir Bergsson veitingamaður hlutskarpastir. Þórir hefur rekið veitingastaði undir merkjum Bergsson undanfarin ár en René hefur staðið fyrir fjölda menningar- og samfélagsverkefna bæði í heimalandi sínu, Hollandi, og á Íslandi. Má þar nefna eftirtektarvert verkefni þar sem niðurnítt verksmiðjuhverfi í Keilewerf í Rotterdam var breytt í lifandi vettvang fyrir skapandi fólk, vinnustofur, markaði og viðburðarými.

René segir að helsta markmið nýrra rekstraraðila sé að gera Iðnó að lifandi húsi þar sem almenningur upplifi sig ávallt velkominn. „Við ætlum að reyna að gera Iðnó að opnara húsi en það hefur verið, meðal annars með því að reka kaffihús á jarðhæðinni. Við höfum fært barinn í anddyrið þannig að hann taki betur á móti fólki. Þar getur fólk fengið sér morgunmat, hádegismat eða kaffi, bara vafrað inn án erindis og forvitnast um hvað sé að gerast þann daginn,“ segir René.

„Við munum nota bæði aðalsalinn og efri hæðina sem viðburðarými. Við munum ennþá leigja rýmin út fyrir einkasamkvæmi, en viljum ekki að þau verði of fyrirferðarmikil. Utanaðkomandi aðilar geta einnig sótt um að fá að nýta salina fyrir viðburði, og svo munum við einnig skipuleggja okkar eigin viðburði. Þannig ættu rýmin að vera fullnýtt og alltaf eitthvað um að vera í húsinu.

Hugmyndin er svo að á efstu hæðinni, á háaloftinu, verði miðstöð fyrir skapandi fólk. Annars vegar verða þar vinnurými sem hægt verður að leigja til skemmri eða lengri tíma og hins vegar eru uppi hugmyndir um að koma þar upp hljóðupptökuveri. Hér getur skapandi Reykjavík því komið saman og vonandi mun afraksturinn svo seytla niður eftir húsinu.“

Mynd: Brynja

Ráðgjafanefnd stýrir dagskránni

Tilboð þeirra René og Þóris hljóðaði upp á 600 þúsund króna leigu til borgarinnar á mánuði, en það er næstum tvöfalt meira en síðasti leigjandi bauðst til að greiða fyrir áframhaldandi rekstur hússins. René segist þó vera viss um að reksturinn muni standa vel undir þessari hækkuðu leigu án þess að listamenn og skipuleggjendur opinna viðburða þurfi að greiða meira en áður fyrir notkun á húsinu.

„Við viljum að megininnkoman verði áfram frá einkaviðburðum og því verður verðlistinn mjög skýr og ósveigjanlegur – en sanngjarn. Þegar kemur að opnum viðburðum sem eru skipulagðir fyrir almenning erum við hins vegar til í að skoða ýmiss konar samstarf eða samninga, enda vitum við að slíkir viðburðir standa misvel undir sér fjárhagslega. Þetta tökum við inn í myndina þegar við skipuleggjum dagskrána, sem við viljum að sé sem fjölbreyttust,“ segir René.

Hann segir að til að tryggja metnaðarfulla og fjölbreytta dagskrá þar sem ólíkar raddir fá að heyrast sé stefnt á að koma upp síbreytilegri ráðgjafanefnd sem muni fara yfir umsóknir þeirra sem vilja nýta húsið undir opna viðburði. Listrænt og samfélagslegt gildi þeirra verður metið og hvernig þeir passi inn í dagskrá hússins: „Við erum ennþá að skoða réttu útfærsluna á þessu, en við stefnum á að koma slíkri nefnd á koppinn á næstunni.“

Saga og andrými

Aðeins mánuði eftir að nýju rekstraraðilarnir tóku við húsinu var fyrsti viðburðurinn haldinn og líf er óðum að færst í húsið á ný. René segir ekki hafa gefist mikill tími í miklar breytingar innanhúss, en þó hafi veggir verið málaðir og skipt um gólf í hátíðarsalnum. Gólfefnið hafi svo verið endurnýtt í húsgögn í anddyrið. „Á þennan hátt viljum við halda í sögu hússins en setja hana í nýtt samhengi. Sagan er merkileg en það verður að viðurkennast að hún gerir okkur einnig svolítið erfitt fyrir. Það má varla breyta neinu – ekki einu sinni litunum á veggjunum.“

Frá því að Iðnó var opnað á ný í byrjun nóvember hafa farið fram fjölbreyttir viðburðir á borð við kosningakaffi, Iceland Airwaves, fyrirlestra og Hönnunarverðlaun Íslands. Á döfinni eru svo uppistand Guðna Ágústssonar, Reykjavík Dance Festival, barnaleiksýningar, tónleikar og fleira. Nokkra daga í viku fyrstu mánuðina mun svo Andrými vera starfrækt á efri hæðinni, en það er róttækt félagsrými sem hvetur til þátttöku ýmiss konar minnihluta- og jaðarsettra hópa. „Þetta rímar mjög vel við markmið okkar, svo við erum mjög opin fyrir frumkvæði þess konar hópa,“ segir René.

„Við finnum strax fyrir miklum áhuga frá fólki og spennu fyrir því að nýta húsið. Við erum mjög áhugasöm að heyra frá fólki hvernig það getur hugsað sér að nota þetta rými og erum opin fyrir ýmiss konar samstarfi.“

Mynd: Brynja

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Ymur Art sakfelldur fyrir morð á móður sinni en honum ekki gerð refsing

Ymur Art sakfelldur fyrir morð á móður sinni en honum ekki gerð refsing
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Ísraelar fagna eftir lokaðan fund Eurovision – Íslendingum og Slóvenum tókst ekki að reka þá úr keppninni

Ísraelar fagna eftir lokaðan fund Eurovision – Íslendingum og Slóvenum tókst ekki að reka þá úr keppninni
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Harmleikurinn á Edition-hótelinu – Gæsluvarðhald framlengt um fjórar vikur

Harmleikurinn á Edition-hótelinu – Gæsluvarðhald framlengt um fjórar vikur
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Hart tekist á um Fannborgarreitinn í Kópavogi – Bílastæði séu einhliða tekin af íbúum

Hart tekist á um Fannborgarreitinn í Kópavogi – Bílastæði séu einhliða tekin af íbúum