Steindór J. Erlingsson, vísindasagnfræðingur og Pétur Hauksson, geðlæknir, skrifa pistil í Fréttablaðið í dag þar sem þeir koma starfsfólki geðdeildar Landspítalans til varnar. Deildin hefur verið mikið í umræðunni undanfarnar vikur eftir að tveir karlmenn sem leituðu þangað sviptu sig lífi á meðan aðhlynningu stóð.
Þeir segja: „Undirritaðir eiga það sameiginlegt að hafa bent á ýmislegt sem betur mætti fara á geðdeild Landspítala. Okkur blöskrar hins vegar sú neikvæða umræða um deildina sem nú á sér stað. Okkar vel meintu athugasemdir á árum áður eru léttvægar í samanburði við núverandi holskeflu óvæginnar gagnrýni“.
Benda þeir á það að inni á deildinni komi starfsfólk í veg fyrir mörg sjálfsvíg og annan skaða sem sjúklingar hyggist gera sér. Þeir tala um „hetjulækningar og mannbjörg sem ekki rati í fjölmiðla“. En jafn framt beri að draga lærdóm af atburðum undanfarinna vikna.
„Hvernig fer starfsfólk geðdeildar að? Árangurinn næst með umfangsmiklu, faglegu og óeigingjörnu starfi. Þetta er erfiðisvinna. Starfsfólk er jafnvel í hættu þegar sjúklingar koma undir áhrifum og í ójafnvægi. Starfsfólk geðdeildar kveinkar sér hins vegar ekki og heldur áfram að gera sitt besta. Komið er fram við sjúka af nærgætni og virðingu. Það skiptir mestu máli og gerir meira gagn en nauðung og hroki“.
Ef strangara eftirlit yrði tekið upp á deildinni myndi ásýnd hennar breytast og nauðung sjúklinganna aukast. „Það myndi breyta sjúkrahúsinu í fangelsi“.
Steindór og Pétur fullyrða að aðgengi að bráðageðheilbrigðisþjónustu sé mjög gott hér á landi, betra en í nágrannalöndunum. „Hér getur hver sem er gengið inn og fengið faglega aðstoð sérhæfðs starfsmanns geðdeildar, á hvaða tíma dags sem er, án milligöngu eða síunar. Geri aðrir betur“.
Hér sé öllum sinnt þó að ekki séu allir lagðir inn og starfsfólk leggi metnað sinn í að finna viðeigandi úrræði fyrir þá sem þangað leita. Starfsfólkið veitir ráðgjöf og vísar sjúklingum í vissum tilfellum á heilsugæsluna, Hlutverkasetur, Hugarafl, Geðhjálp og fleiri staði.
„Reynsla greinarhöfunda er að þeir sem þurfa innlögn eru lagðir inn, m.a. þeir sem eru í sjálfsvígshættu og eru með geðsjúkdóm. Starfsfólkið er lífsbjörg þeirra. Vanlíðan er að vonum mikil og fáir tjá sig um hana og hjálpina sem þeim er veitt. Og ekki fer starfsfólk geðdeildar að hrósa sjálfu sér. Hjálpin fer ekki hátt og því er þetta ritað“.