fbpx
Sunnudagur 02.apríl 2023
Fréttir

Rottumítlar á Laugavegi: „Veskið mitt er þarna inni, skartgripirnir mínir. Ég fæ þetta líklegast aldrei aftur“

Inga Rós: „Þetta er algjör viðbjóður“

Kristín Clausen
Laugardaginn 1. apríl 2017 21:05

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Ég er bara skjálfandi á beinunum. Mér líður hræðilega. Þetta er algjör viðbjóður,“ segir Inga Rós Sigurðardóttir sem er nú á götunni ásamt, kærasta sínum, Sæmundi Heiðari Emilssyni. Ástæðan er sú að rottumítlar hafa lagt undir sig heimili þeirra, á Laugaveginum í miðborg Reykjavíkur. Íbúðin er nú talin heilsuspillandi og óíbúðarhæf. Fjölskyldan er öll útbitin eftir rottumítlana sem geta fylgt rottum og nærast á blóði. Tilfellið er litið mjög alvarlegum augum en síðast greindist rottumítill á Íslandi árið 2001.

Óttast um heilsuna

Rottumítlar, stundum kallaðir rottulús, geta smitað fólk af sjúkdómum og áttu þátt í því að milljónir manna létust úr svarta dauða fyrir margt löngu. Þó ber að geta þess að árið 2013 lést táningsstrákur úr svarta dauða í Kirgistan en talið var að rottumítill hefði smitað hann af sjúkdómnum. Tekið skal fram að fólk þarf ekki að hafa áhyggjur af slíku hér á landi.

Inga Rós óttast um heilsu fjölskyldunnar. Þá eru litlar líkur á að þau fái búslóðina sína sem og aðra persónulega muni, sem enn eru inni í íbúðinni, aftur. Ástæðan er sú að rottumítlarnir eru svo agnarsmáir að erfitt getur verið að greina hvort þeir séu í dótinu þeirra. Meindýraeyðirinn vill, að sögn Ingu Rósu, ekki taka neina áhættu á því að faraldur breiðist út. Því telur hann skynsamlegra að öllu sem er inni í íbúðinni verði eytt. Fjölskyldan hefur því tapað öllum veraldlegum eigum sínum auk þess að vera heimilislaus.

Lifir eingöngu á blóði

Rottumítill er ekki landlægur á Íslandi

Ornithonyssus bacoti eða rottumítill er blóðsjúgandi sníkjudýr sem lifir oftast á nagdýrum en leitar einnig á fólk. Erlendis gengur O. bacoti iðulega undir nafninu „hitabeltis-rottumaurinn“.

Þegar maurinn sýgur blóð úr mönnum myndast oftast kláðabólur á stungustaðnum.

Kjöraðstæður virðast vera fyrir maurinn til að fjölga sér í húsum hér á landi því tegundin þrífst best við 24–26°C hita og 47% raka.

Maurinn lifir eingöngu á blóði. Hann heldur lengstan tíma ævinnar kyrru fyrir í bæli eða hreiðri hýsilsins en leitar á hann til að sjúga blóð. Sýnt hefur verið fram á að hver maur þarf að sjúga blóð að minnsta kosti fjórum sinnum til að ná fullum þroska

Kvenmaurarnir verpa um 100 eggjum á ævinni og er eggjunum orpið í hreiður nagdýrs. Lirfan sem skríður úr eggi er sexfætt. Hún nærist ekki en þroskast þegar í áttfætta, blóðsjúgandi gyðlu (protonympf). Sú þroskast í sveltandi gyðlustig (deutonympf), forvera fullorðnu blóðþyrstu mauranna. Við hagstæð skilyrði tekur það maurana einungis 11 til 16 daga að ná kynþroska eftir að eggjunum sem þeir skriðu úr var verpt.

Fullorðnir maurar geta lifað í 62–70 daga. Þeir verða um 1 mm langir og sjást auðveldlega með berum augum, sérstaklega á ljósum feldi eða á ljósu undirlagi.

Maurarnir eru ágætlega hreyfanlegir og geta flakkað alllangt frá uppvaxtarstað í leit að blóði. Velþekkt er að þeir leggist á fólk þar sem rottur hafa haldið til en ef ekki geta þeir lifað á mönnum að staðaldri.

Fyrir tæpum þremur áratugum varð þess vart að O. bacoti angraði fólk hér á landi. Sjö tilfelli voru skráð í Hafnarfirði og eitt í Reykjavík. Í öllum tilvikum var talið að óværan hefði borist frá hreiðrum brúnrotta (Rattus norvegicus) sem oftast héldu til undir gisnum gólfum sem maurarnir komust upp í gegnum. Svo virðist sem þessi faraldur hafi gengið yfir því engar upplýsingar eða vísbendingar bárust næsta aldarfjórðunginn að Tilraunastöðinni á Keldum um að O. bacoti væri að plaga fólk hérlendis.

Eitt tilfelli kom svo upp sumarið 2001. Þá barst óværan inn á heimili með stökkmúsum sem keyptar höfðu verið nokkrum mánuðum áður í gæludýraverslun.

Heimild: Læknablaðið

„Veskið mitt er þarna inni, skartgripirnir mínir. Ég fæ þetta líklegast aldrei aftur,“ segir Inga Rós og bætir við: „Við þurftum að fara út úr húsinu og megum ekki, undir neinum kringumstæðum, fara þangað inn aftur.“ Inga Rós og Sæmundur leigja íbúðina sem um ræðir en þrjár aðrar leiguíbúðir eru í húsinu sem og skúr í garðinum sem er einnig í útleigu.

Héldu að bitin væru bólur

Sex vikur eru nú síðan Inga Rós og kærastinn hennar fengu fyrstu bitin. Þau gerðu sér þó enga grein fyrir því að litlu bólurnar, sem þau voru farin að fá í andlitið og víðar um líkamann, væru bit. „Við skildum ekkert í þessu. Héldum kannski að það væri eitthvað að loftinu í íbúðinni þar sem húðin var orðin svo skítug.“

Fyrir tveimur vikum, eða um miðjan mars, ágerðust bitin á líkömunum þeirra. Þá fór Ingu Rós að gruna að bólurnar, sem hafði fjölgað umtalsvert, gætu mögulega verið bit.

„Ég hafði keypt túlípanabúnt. Við héldum að þetta væri blaðlús úr blómunum svo við hentum þeim og þrifum allt hátt og lágt. Nokkrum dögum síðar, þegar við vorum enn að fá ný bit, sá kærastinn minn, þegar hann leit í spegil, þar sem hann klæjaði í andlitið, tvær pöddur skríða yfir andlitið á sér. Þú getur rétt ímyndað þér sjokkið. Þetta er algjör viðbjóður.“

Eftir að hafa séð rottumítlana með eigin augum fengu þau fyrst staðfestingu á að eitthvað í íbúðinni væri að bíta þau. Inga Rósa segir ástæðuna að baki því að þau efuðust í fyrstu um að um bit væri að ræða þá að bit rottumítla sé mjög sérstakt miðað við bit annarra skordýra.

Erfið staða

Fyrir viku fór fjölskyldan svo alfarin út úr íbúðinni og hefur verið á götunni síðan. „Við höfum verið hjá vinafólki okkar og foreldrum til skiptist. Þetta er ömurlegt og ég er enn í sömu fötunum og fyrir viku,“ segir Inga Rós.

Erling Ólafsson, skordýrafræðingur hjá Náttúrufræðistofnun, staðfesti svo fyrr í vikunni, eftir að hann fékk sýni sem tekið var af vegg í eldhúsi íbúðarinnar, að um væri að ræða rottumítil.

Ekki landlægur á Íslandi. Atvikið er því litið mjög alvarlegum augum.
Rottumítill Ekki landlægur á Íslandi. Atvikið er því litið mjög alvarlegum augum.

Mynd: rottumítill

„Við erum búin að gangast undir læknisskoðun og bíðum eftir því að heyra frá landlækni hvort heilsa okkar hefur beðið skaða. Þetta er gríðarlega erfið staða en við vonum það besta.“

Gunnar Kristinsson, hjá meindýravörnum Reykjavíkurborgar, segir í skýrslu um ástand hússins að við eftirlit hafi komið í ljós mikið magn af maurum á veggjum. Um var að ræða rottumítla.

Ekki var hægt að staðfesta rottugang inni í veggjum en meindýraeyðir telur að lagnir séu skemmdar og rottuhreiður sé einhvers staðar inni í veggjum hússins eða í nágrenni þess. Búið er að eitra í íbúðinni. Næsta skref í málinu er að ráðast að rótum vandans og gera úrbætur á húsnæðinu svo rottur komist ekki inn í það.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Búið að bola síðasta þolanda séra Gunnars úr Digraneskirkju

Búið að bola síðasta þolanda séra Gunnars úr Digraneskirkju
Fréttir
Í gær

Segir að hvorki Kópavogsbær né tryggingar vilji axla ábyrgð eftir að skólp flæddi inn á heimili fjölskyldunnar – „Ég er á kafi í skít í orðsins fyllstu“

Segir að hvorki Kópavogsbær né tryggingar vilji axla ábyrgð eftir að skólp flæddi inn á heimili fjölskyldunnar – „Ég er á kafi í skít í orðsins fyllstu“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Tugir íslenskra barna fá offitulyf

Tugir íslenskra barna fá offitulyf
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Varar konur við öfugugga í Öskjuhlíð – „Var á fullu að athafna sig“

Varar konur við öfugugga í Öskjuhlíð – „Var á fullu að athafna sig“
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Rannsóknarlögregla og starfsmenn tæknideildar lýstu aðkomunni í Barðavogi

Rannsóknarlögregla og starfsmenn tæknideildar lýstu aðkomunni í Barðavogi
Fréttir
Fyrir 3 dögum

„Þessi börn eru að fá að hitta ömmu sína og afa einu sinni á ári í kannski klukkutíma“

„Þessi börn eru að fá að hitta ömmu sína og afa einu sinni á ári í kannski klukkutíma“
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Díana bjó á götunni 11 ára í daglegri neyslu – „Segi stundum að ég hafi búið meðal róna og dóna“

Díana bjó á götunni 11 ára í daglegri neyslu – „Segi stundum að ég hafi búið meðal róna og dóna“
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Ferðafólki komið til aðstoðar við Pétursey og á Fjarðarheiði

Ferðafólki komið til aðstoðar við Pétursey og á Fjarðarheiði