fbpx
Fimmtudagur 29.október 2020
Fréttir

Voru allir stjórnendur í Íslandsbankasveitinni

Bankastjóri og formaður bankaráðs Landsbankans unnu báðir í áratug hjá Íslandsbanka með forstjóra Borgunar – „Ekki haldið neinu sambandi“

Ritstjórn DV
Föstudaginn 12. febrúar 2016 10:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Tveir æðstu stjórnendur Landsbankans, Steinþór Pálsson bankastjóri og Tryggvi Pálsson, formaður bankaráðs, voru samstarfsmenn Hauks Oddssonar, forstjóra Borgunar, í stjórnendateymi Íslandsbanka á tíunda áratug síðustu aldar. Þeir störfuðu saman hjá bankanum í áratug og sátu um tíma allir í framkvæmdastjórn Íslandsbankasveitarinnar svokölluðu. Haukur og æðstu stjórnendur Borgunar keyptu hlut í greiðslukortafyrirtækinu í nóvember 2014 þegar Landsbankinn seldi tæpan þriðjungshlut sinn í því til stjórnendahópsins og meðfjárfesta þeirra í lokuðu söluferli þar sem öðrum fjárfestum var ekki gefinn kostur á að bjóða í eignina.

Stýrðu þremur sviðum

Þann 24. september 1998 birti Morgunblaðið frétt um breytingar á stjórnskipulagi Íslandsbanka. Var þar vísað í fréttatilkynningu fyrirtækisins um að Íslandsbankasveitinni, það er bankanum og dótturfélögum hans, yrði stýrt af ellefu manna stjórnendateymi. Upplýsingatækni yrði gerð að sérstöku stoðsviði og Haukur Oddsson, sem hafði stýrt upplýsingatæknideild bankans frá stofnun hans árið 1990, yrði framkvæmdastjóri þess. Tryggvi Pálsson, bankastjóri Íslandsbanka á árunum 1990–1993, yrði framkvæmdastjóri fyrirtækjasviðs bankans. Steinþór Pálsson, sem hafði áður gegnt starfi forstöðumanns áhættustýringar og verið hluti af stjórnendateymi bankans frá 1990, tæki við starfi forstöðumanns fyrirtækjaþjónustu.

„Ekki haldið neinu sambandi“

Haukur Oddsson, forstjóri Borgunar.

Haukur Oddsson, forstjóri Borgunar.

DV óskaði eftir viðtali við Steinþór Pálsson, bankastjóra Landsbankans, en fékk þau svör að hann væri upptekinn í allan gærdag, fimmtudag, við að svara bréfi Bankasýslu ríkisins, sem fer með eignarhluti ríkisins í fjármálafyrirtækjum. Ekki náðist í Tryggva Pálsson, formann bankaráðs Landsbankans, þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir. Haukur Oddsson, forstjóri Borgunar, segir í samtali við DV það af og frá að samstarf hans, Steinþórs og Tryggva hafi haft áhrif á söluferli greiðslukortafyrirtækisins.

„Ég hef ekki haft nein samskipti við þá Steinþór og Tryggva, hvorki fyrir, á meðan né eftir söluna á Borgun. Þegar Steinþór hringdi í mig í síðustu viku voru það okkar fyrstu samskipti í 16-20 ár, eða síðan þeir Tryggvi hættu hjá Íslandsbanka hinum eldri. Við höfum því ekki haldið neinu sambandi,“ segir Haukur.

Steinþór og Tryggvi voru einnig samstarfsmenn í Verslunarbanka Íslands á níunda áratugnum. Tryggvi var ráðinn bankastjóri 1988 og gegndi lykilhlutverki í samruna þeirra fjögurra banka sem síðar mynduðu Íslandsbanka árið 1990. Steinþór var um tíma framkvæmdastjóri lánasviðs Verslunarbankans. Haukur Oddsson var aftur á móti forstöðumaður rafreiknisviðs Iðnaðarbankans sem rann inn í nýja bankann. Hann starfaði hjá Íslandsbanka, síðar Glitni, til 2007 eða þangað til hann var ráðinn forstjóri Borgunar hf. Steinþór og Tryggvi hættu báðir hjá Íslandsbanka aldamótaárið 2000. Tryggvi var kjörinn formaður bankaráðs Landsbankans í apríl 2013 þegar Steinþór hafði gegnt stöðu bankastjóra í þrjú ár.

Seldi bréf í Borgun

Landsbanki Íslands átti 20% hlut í Borgun í árslok 2007 en Glitnir var þá stærsti hluthafinn með 55%. Haustið 2010 keypti Landsbankinn hluti í Borgun af Íslandsbanka þegar bankarnir tveir skiptu á hlutabréfum í því og fyrirtækinu Kreditkort. Vorið 2011 rann SpKef inn í Landsbankann og fylgdu þá með hlutabréf í Borgun. Á endanum átti Landsbankinn 31,2% í fyrirtækinu.

Steinþór Pálsson
Bankastjóri Landsbankans Steinþór Pálsson

Þann 13. mars 2014 gerði fjárfestahópur sem nú myndar Eignarhaldsfélagið Borgun slf. tilboð í alla hluti Landsbankans í Borgun. Haukur Oddsson er hluthafi í félaginu, sem keypti á endanum 24,96% í Borgun af Landsbankanum í nóvember 2014, og félag í eigu eiginkonu hans er skráð fyrir öðrum hlut í fyrirtækinu sem einkahlutafélagið BPS, sem er í eigu tólf æðstu stjórnenda Borgunar, eignaðist í sama söluferli.

Tryggvi Pálsson
Formaður bankaráðsins Tryggvi Pálsson

Bankaráð Landsbankans fjallaði um tilboðið í apríl 2014 eða tveimur vikum eftir að starfsmenn Landsbankans höfðu fundað með fjárfestahópnum. Ráðið ræddi söluna á hlutnum í Borgun aftur í júní sama ár. Mánuði síðar gerði hópurinn tilboð í hlut Landsbankans eingöngu en hann hafði áður einnig gert tilboð í 62,2% hlut Íslandsbanka í Borgun. Tilboðið nam 2.184 milljónum króna og í lok júlí 2014 var undirrituð viljayfirlýsing milli Landsbankans og fjárfestahópsins um samningaviðræður. Þá óskuðu tilboðsgjafar og Landsbankinn sameiginlega eftir því við Borgun að stjórnendur félagsins kynntu félagið fyrir þeim í því skyni að gera þeim kleift að taka afstöðu til verðmætis hlutafjár Borgunar. Þær kynningar, sem helstu stjórnendur Borgunar stóðu fyrir, fóru fram þann 22. og 26. ágúst 2014. Í október kynnti Steinþór fyrirhugaða sölu á hlut bankans í Borgun á fundi bankaráðsins. Engar athugasemdir voru þar gerðar við að haldið yrði áfram með söluna en kauptilboðið var síðan samþykkt af Landsbankanum í lok október með fyrirvara um samþykki ráðsins. Það fékkst 6. nóvember 2014.

Harðlega gagnrýndir

Salan var gerð opinber með fréttatilkynningu Landsbankans þann 25. nóvember 2014. Eignarhaldsfélagið Borgun, sem er meðal annars í eigu Stálskipa og fjárfestisins Einars Sveinssonar, föðurbróður Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsráðherra, hafði þá greitt 1.751 milljón króna fyrir rétt tæp 25% í fyrirtækinu og BPS 433 milljónir fyrir 6,2%. Tveimur dögum síðar greindi vefmiðillinn Kjarninn frá hluta fjárfestahópsins og að kaupin hefðu farið fram á bak við luktar dyr. Stjórnendur bankans, sem íslenska ríkið á 98% í, voru í kjölfarið harðlega gagnrýndir fyrir að hafa ekki boðið eignina út í opnu og gegnsæju söluferli. Um það leyti buðu æðstu stjórnendur Borgunar öllu sínu starfsfólki að kaupa hluta af eign BPS í fyrirtækinu. Á endanum ákváðu 33 að taka boðinu og á aðalfundi Borgunar í febrúar 2015 var ákveðið að greiða 800 milljónir króna í arð til hluthafa félagsins.

Tryggvi Pálsson, formaður bankaráðs Landsbankans, sagði í ræðu á aðalfundi fyrirtækisins þann 18. mars 2015, að Landsbankinn hefði betur selt hluti sína í Borgun og samkeppnisaðilanum Valitor í opnu söluferli „formsins og ásýndarinnar vegna“. Bankanum hefði verið vandi á höndum við söluna þar sem aðkoma hans að fyrirtækjunum tveimur hefði verið takmörkuð og helstu keppinautar hans eigendur þeirra.

„Bankinn gat ekki tryggt að upplýsingagjöf til hugsanlegra kaupenda yrði nægjanleg og taldi því óhjákvæmilegt að selja hlutina til aðila sem höfðu mikla innsýn í starfsemi fyrirtækjanna,“ sagði Tryggvi í ræðunni.

Milljarðagreiðslan

Borgun mun eins og komið hefur fram fá um 6,5 milljarða króna auk afkomutengdrar greiðslu árið 2020 vegna yfirtöku Visa Inc. á Visa Europe. Ástæðan er hlutdeild Borgunar í valréttarsamningi á milli Visa Inc og Visa Europe sem tryggir félaginu rétt til greiðslna vegna sölunnar á síðarnefnda fyrirtækinu. Stjórnendum og eigendum Borgunar var tilkynnt um upphæðirnar sem um ræðir þann 21. desember síðastliðinn. Stjórn Borgunar hafði tveimur mánuðum áður fengið KPMG til að verðmeta fyrirtækið og var niðurstaðan 19 til 26 milljarðar króna. Hluturinn sem Landsbankinn seldi í nóvember 2014 hafði þá rúmlega þrefaldast að virði. Eins og áður segir tók virðismat KPMG ekki tillit til milljarðanna sem koma til með að renna til Borgunar vegna Visa Europe.

Borgun greindi frá upphæð valréttargreiðslnanna í yfirlýsingu síðasta þriðjudag. Landsbankinn hafði þá beint spurningum til fyrirtækisins í kjölfar þeirrar miklu gagnrýni sem upp kom eftir að í ljós kom að Borgun ætti von á greiðslum vegna Visa Europe og að Landsbankinn hefði ekki gert neina fyrirvara um hlutdeild. Í svari Borgunar segir að fyrirtækið hafi aldrei haft ástæðu til að ætla að Landsbankinn væri grandalaus um valréttarsamninginn enda hafi bankaráðið rætt hann á fundi sínum 7. mars 2013.

Landsbankinn hefur ítrekað fullyrt að stjórnendur fyrirtækisins hafi enga vitneskju haft um að Borgun ætti rétt til greiðslna vegna Visa Europe. Bankaráðið hafnar alfarið ásökunum um að það eða starfsmenn Landsbankans hafi unnið að sölunni í Borgun af óheilindum. Þess vegna hafi bankinn birt ítarlegar upplýsingar um söluferlið þar enda hafi hann ekkert að fela. Steinþór Pálsson, bankastjóri Landsbankans, hefur sagt að bankinn muni leita réttar síns komi í ljós að stjórnendur Borgunar hafi búið yfir vitneskju um að kortafyrirtækið ætti rétt á greiðslum vegna valréttarins.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Kom frá Frankfurt með 15 kíló af grasi – Örlögin ákveðin innan skamms í héraðsdómi

Kom frá Frankfurt með 15 kíló af grasi – Örlögin ákveðin innan skamms í héraðsdómi
Fréttir
Í gær

Ákært vegna líkamsárásar á goslokahátíð

Ákært vegna líkamsárásar á goslokahátíð
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Martröð Þórarins á sveitabæ – Segist hafa verið látinn vinna launalaust og lögreglu sigað á hann – „Þetta var algjör niðurlæging“

Martröð Þórarins á sveitabæ – Segist hafa verið látinn vinna launalaust og lögreglu sigað á hann – „Þetta var algjör niðurlæging“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Dæmd fyrir skattsvik eftir að hafa rekið fyrirtækið Snyrtilegur klæðnaður í þrot

Dæmd fyrir skattsvik eftir að hafa rekið fyrirtækið Snyrtilegur klæðnaður í þrot
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Silfurskeiðin bregst hart við eineltinu gegn Ólíver – „Ég er með sting í hjartanu“

Silfurskeiðin bregst hart við eineltinu gegn Ólíver – „Ég er með sting í hjartanu“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Viðbrögð stjórnenda HG við Covid-smitum rannsakað sem sakamál – Forvarnarverðlaun útgerðarinnar höfð að háði á netinu

Viðbrögð stjórnenda HG við Covid-smitum rannsakað sem sakamál – Forvarnarverðlaun útgerðarinnar höfð að háði á netinu