fbpx
Föstudagur 19.apríl 2024
Fréttir

Íslensk kristni og kirkjur

Og heimsóknir í þær

Ritstjórn DV
Fimmtudaginn 22. desember 2016 14:35

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Það hefur verið dálítið merkilegt að fylgjast með mikilli hneykslun margra að undanförnu yfir kirkjuheimsóknum barna. Það er að segja því hversu fáheyrt sumum virðist finnast að krakkar heimsæki kirkjur; tónninn er stundum eins og ólögráða unglingar séu tældir inn á vafasamar búllur, spilavíti eða sellufundi öfgahreyfinga og aðra slíka staði sem þeim eru ekki ætlaðir.

En í sannleika sagt þá væri dálítið undarlegt ef íslensk börn kæmu ekki í kirkjur. Til dæmis þegar tekið er tillit til þess að það eru mörg hundruð kirkjur hér á landi. Og það sem meira er þá eru þær í öllum byggðarlögum, sveitum, kaupstöðum; það eru kirkjur í hverju íbúðahverfi, þær eru yfirleitt miðlægar og áberandi; þær eru margar af fegurstu og merkustu byggingum landsins, bæði hið ytra og hið innra; bæði stóru kirkjumusterin og þær litlu og gömlu til sveita – með mikla sál og sögu. Hverslags uppeldi væri það að leyfa barni ekki að koma inn í þannig hús?

Trúarbrögð og trú

Þegar menn tala um kirkjur og kristni sem einhverja sérvisku hér á landi, sem einhvern einn trúarhóp á við alla hina, smáa og stóra, þá gleyma menn kannski því að kristni og kirkjan hafa leikið lykilhlutverk í sögu okkar þjóðar í meira en þúsund ár. Saga okkar er á sinn hátt kristin og menning okkar er það í ríkum mæli; okkar helstu höfundar að fornu og nýju hafa verið mótaðir af hugmyndaheimi kristninnar, ekki bara Hallgrímur Pétursson og öll hin sálmaskáldin, heldur líka höfundar okkar dýrustu bókmennta bæði til forna og á síðari tímum.

Ég sagðist eitt sinn sjálfur líta á mig sem kristinn mann þótt ég væri að mestu trúlaus, og mörgum hefur þótt það heldur undarleg staðhæfing, en í heildina gildir að kristni Íslendinga snýst um miklu meira en trú. Margar mikilvægustu hugmyndir okkar um samfélagið og náungann eru líka mjög smitaðar af kristnum boðskap, og trúlega er það engin tilviljun að samfélög hinna kristnu Vesturlanda hafi orðið mannúðlegri og lýðræðislegri en mörg önnur. Vissulega er erfitt að staðhæfa hvað kom hvaðan, við vitum auðvitað ekkert hvernig þjóðir Evrópu hefðu þróast við önnur ríkjandi trúarbrögð, og sömuleiðis er ekki heldur verið að horfa framhjá því að margt illt og grimmt hefur verið unnið í nafni nefndra trúarbragða; við erum ekkert að gleyma krossferðunum eða rannsóknarréttinum, en hinu er ekki að neita að allt er þetta hluti af okkar sögu.

Með öðrum orðum: það er ekkert fáheyrt við íslenskar kirkjur, ekkert öfgakennt eða framandi; þær eru hluti af okkar umhverfi, menningu og hugsun. Og það langt út fyrir trú og boðun nefndra stofnana.

Kraftaverk og eilíft líf

Ég sagði áðan að mér fyndist alveg mögulegt að vera kristinn án þess að trúa endilega á kraftaverk eins og upprisu holdsins og eilíft líf. Og einhvern veginn held ég að það hafi verið útbreidd samsetning á Íslandi mestalla tíð; menn hér virðast yfirhöfuð ekki hafa tekið trúarbrögð sérstaklega alvarlega. Til dæmis þurfti ekki að heyja trúarbragðastríð til forna þegar skipt var um sið: það var einfaldlega ákveðið á alþingi. Trúarbrögð virðast hafa miklu meiri þýðingu meðal sumra þeirra þjóða sem okkur eru skyldastar, það á til dæmis við í Færeyjum og á vesturströnd Noregs, og hægt að lesa um það í skáldsögum frá þeim slóðum, eins og eftir höfundana William Heinesen og Alexander Kielland. Sjálfur dvaldist ég tvö sumur í Klakksvík norðarlega í Færeyjum og þar var meirihluti íbúa í heittrúarfélögum – þar hitti ég fólk sem krossaði sig þegar ég sagðist vera nýkominn frá Þórshöfn; þetta fólk notaði ekki það heiti, sagði bara „Havnin“ um höfuðstaðinn; Þór er auðvitað heiðinn vættur sem sanntrúaðir taka sér ekki í munn. Ég man að einhver á þeim slóðum sagði við mig að meirihluti fólks væri trúaður og þar með í svonefndum sértrúarsöfnuðum. En minnihlutinn hins vegar að mestu trúlaus, og léti sér þess vegna nægja að vera í þjóðkirkjunni. Og það held ég að hafi lengst af verið íslenska aðferðin: að vera í þjóðkirkjunni en finna ekki mikinn trúarhita í brjósti sér. Ég er alinn upp af ákaflega góðu fólki, foreldrum mínum, og okkur systkinunum voru innrættar ýmsar grundvallarlífsreglur, eins og að að vera góð við dýr og minni máttar og aldrei hrekkja þá sem standa höllum fæti. En það var ekki talað við okkur um trúna og okkur voru ekki kenndar bænir; faðirvorið heyrði ég ekki fyrr en ég kom í sex ára bekk í Ísaksskóla, og þótti það reyndar hið áhugaverðasta kvæði. Samt vorum við systkinin hvött til að sækja sunnudagaskóla, prestar skírðu okkur og við vorum fermd og það hefði aldrei hvarflað að neinum í mínum frændgarði að gera útför sinna nánustu annars staðar en úr kirkju og láta svo jarða í vígða mold í kirkjugarði.

Biblían

Halldór Laxness talar um það í einni af endurminningabókum sínum að „biflían sé bók sem Íslendíngar nenni ekki að lesa“ en hvað sem því líður þá fór ég ekki að kynnast „bókinni einu“ að gagni fyrr en ég sótti kúrs í Háskólanum um fornaldarbókmenntir, og þar hafði Kristján Árnason á pensúminu merk rit úr Biblíunni, bæði Nýja testamentinu og hinu ókristilega Gamla testamenti. Og ekki er hægt annað en að hrífast mjög af fögrum orðum Mattheusarguðspjalls, eins og þessum sem reyndar eru höfð eftir Kristi sjálfum: „Lítið til fugla himinsins, þeir sá ekki né uppskera og þeir safna ekki heldur í hlöður, og yðar himneski faðir fæðir þá; eruð þér ekki miklu fremri en þeir? En hver af yður getur með áhyggjum aukið einni alin við hæð sína? Og hví eruð þér áhyggjufull um klæðnað? Gefið gaum að liljum vallarins, hversu þær vaxa; þær vinna ekki og þær spinna ekki heldur, en ég segi yður, að jafnvel Salómon í allri sinni dýrð var ekki svo búinn sem ein þeirra.“

 Það er varla til stærri og lýrískari allegóría en byrjun fyrstu Mósebókar; Opinberunarbókin getur orðið mönnum eilíf ráðgáta, og ekki er annað hægt en að verða heillaður af svona línum úr Ljóðaljóðunum:

„Fögur ertu, vina mín, eins og Tirza,
yndisleg eins og Jerúsalem,
ægileg sem herflokkar.
Snú frá mér augum þínum,
því að þau hræða mig.
Hár þitt er eins og geitahjörð,
sem rennur niður Gíleað-fjall.
Tennur þínar eru eins og hópur af ám,
sem koma af sundi,
sem allar eru tvílembdar
og engin lamblaus meðal þeirra.“

Jobsbók og Prédikarinn

Kennari vor í Háskólanum, Kristján Árnason fornfræðingur, skáld og þýðandi, lagði áherslu á að við stúderuðum Jobsbók, um manninn sem bregst aldrei í sínum trúarhita þótt allt sé frá honum tekið og allar heimsins píslir á hann lagðar. Sjálfur hreifst ég mest af Prédikaranum með alla sína yndislegu fánýtisheimspeki:

„Aumasti hégómi, segir prédikarinn; aumasti hégómi; allt er hégómi! Hvaða ávinning hefir maðurinn af öllu striti sínu, er hann streitist við undir sólinni? Ein kynslóð fer og önnur kemur, en jörðin stendur að eilífu. Og sólin rennur upp og sólin gengur undir og hraðar sér til samastaðar síns, þar sem hún rennur upp. Vindurinn gengur til suðurs og snýr sér til norðurs, hann snýr sér og snýr sér, og fer aftur að hringsnúast á nýjan leik. Allar ár renna í sjóinn, en sjórinn verður aldrei fullur; þangað sem árna renna, þangað halda þær ávallt áfram að renna. Allt er sístritandi, enginn maður fær því með orðum lýst; augað verður aldrei satt af að sjá og eyrað verður aldrei mett af að heyra. Það sem hefir verið, það mun verða, og það sem gjörst hefir, það mun gjörast, og ekkert er nýtt undir sólinni.“

Ég held að við værum að vanrækja okkar unga fólk ef því væru ekki kynntar kirkjur, og allir hafa gott af því að lesa snilldarperlur Biblíunnar. Gleðileg jól gott fólk!

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 21 klukkutímum

Búið að tryggja Úkraínumönnum 500 þúsund sprengjuskot – Íslendingar gáfu 300 milljónir króna

Búið að tryggja Úkraínumönnum 500 þúsund sprengjuskot – Íslendingar gáfu 300 milljónir króna
Fréttir
Fyrir 22 klukkutímum

Ósátt við myndatöku af hnúajárni og „neyslupokum“ en fær hvorki bætur né afslátt af húsaleigunni

Ósátt við myndatöku af hnúajárni og „neyslupokum“ en fær hvorki bætur né afslátt af húsaleigunni