fbpx
Laugardagur 18.maí 2024
Fréttir

Nýr bústaður rís á tanga Engeyinga

Reykjavík keypti landið við Þingvallavatn en fjölskyldan hélt fullum leigulausum afnotum til 50 ára – Keypt fyrir fúlgur fjár árið 1985 til að afla jarðhitaréttinda sem enn hafa ekki verið nýtt

Ritstjórn DV
Föstudaginn 8. apríl 2016 11:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Framkvæmdir standa nú yfir við byggingu sumarbústaðar á jörðinni Ölfusvatni í Árnessýslu. Um er að ræða tanga sem kenndur er við Lambhaga og teygir sig út í Þingvallavatn. Orkuveita Reykjavíkur á landið en þar standa fyrir nokkur sumarhús sem öll eiga það sameiginlegt, líkt og nýbyggingin, að vera í eigu sömu fjölskyldunnar; Engeyinganna svokölluðu, Benedikts, Guðrúnar, Einars og Ingimundar Sveinsbarna.

Hitaveita Reykjavíkur keypti Ölfusvatnslandið fyrir rétt rúmum þrjátíu árum til að afla jarðhitaréttinda og er óhætt að segja að þau kaup hafi verið afar umdeild á þeim tíma. Gríðarhátt verð var greitt fyrir jörðina og héldu fyrri eigendur áframhaldandi notum af henni fyrir sumarbústaði sína. Jarðhitanýtingin er hins vegar ekki enn hafin. Nýjasta húsið sem nú er að rísa er á lóð sem skráð er á Ingimund Sveinsson.

Keypt vegna jarðhita

Það var árið 1985 sem Hitaveita Reykjavíkur, sem síðar varð Orkuveita Reykjavíkur, keypti jörðina Ölfusvatn af Helgu Ingimundardóttur, ekkju Sveins Benediktssonar útgerðarmanns, og börnum hennar fjórum, þeim Guðrúnu, Einari, Ingimundi og Benedikt. Sá síðastnefndi er sem kunnugt er faðir Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra. Samkvæmt upplýsingum sem DV fékk frá Orkuveitu Reykjavíkur (OR) var tilgangur kaupanna að afla jarðhitaréttinda norðan til á Hengilssvæðinu. Deilt hefur verið um hvort það hafi verið raunveruleg ástæða kaupanna.

Samkvæmt fréttum af kaupunum frá þessum tíma var kaupverðið 60 milljónir króna, sem í júlí 1985 þótti umtalsverð upphæð, en að núvirði gera þetta ríflega 450 milljónir króna.

Leigulaus afnot í hálfa öld

Athygli vakti, og vekur enn, að við söluna hélt fjölskyldan eftir, til leigulausra afnota í 50 ár, lóðum sem tvö sumarhús stóðu þá á, í svokölluðum Lambhaga, nyrst á jörðinni. Að auki héldu Engeyingarnir eftir rétti til að byggja á þremur lóðum til viðbótar á Lambhagatanganum. Þar var fyrir eitt hús að auki í eigu annarra en fjölskyldan keypti það eftir sölu jarðarinnar til Hitaveitunnar. Engeyingarnir seldu því jörðina til Reykjavíkurborgar, þar sem Sjálfstæðisflokkurinn fór með meirihluta, en héldu eftir fullum afnotum og byggingarrétti á öllum lóðunum sex auk veiðiréttinda. endurgjaldslaust til 50 ára. Þar að auki kom fram í fjölmiðlum þess tíma að eftir árið 2036, þegar samningstíminn rennur út, hafi fjölskyldan forleigurétt.

Hér má sjá lóðaskiptingu systkinanna og bústaði þeirra á tanganum sem teygir sig út í Þingvallavatn.
Einkatangi Engeyinga Hér má sjá lóðaskiptingu systkinanna og bústaði þeirra á tanganum sem teygir sig út í Þingvallavatn.

Mynd: DV

Gagnrýnt sem spilling

Vinstrimenn í borginni og víðar á þessum tíma gagnrýndu þessi viðskipti Sjálfstæðisflokksins í borginni harðlega. Bent var á að fasteignamat Ölfusvatnsjarðar, með veiðiréttindum, hafi verið um 400 þúsund krónur. En kaupverðið nam 60 milljónum króna. Ljóst var þá og þegar að borgin hefði greitt yfirverð fyrir jörðina og rúmlega það.

Í grein Össurar Skarphéðinssonar, núverandi þingmanns Samfylkingarinnar, í Þjóðviljanum í maí 1986 er þetta enda sagt „óheyrilegt kaupverð“ í fyrirsögn og er bent á í greininni að jörðin hafi verið tífalt dýrari en t.d. Nesjavellir á sínum tíma.

„Gömlu eigendurnir fá því 60 milljónir á silfurfati úr sameiginlegum sjóðum Reykvíkinga, án þess að þurfa í rauninni að láta landið af höndum. Orsökin er ein og aðeins ein: eigendurnir eru erfingjar gamalgróins áhrifamanns úr Sjálfstæðisflokknum. Þeir tilheyra Engeyjarættinni svokölluðu. Og þess má geta í viðbót, að hitaveitustjóri vann að samningagerðinni fyrir hönd Reykjavíkurborgar. En svo vill til að hann er líka nátengdur gömlu eigendunum. Hvað er spilling, ef þetta er ekki spilling?“ spurði blaðamaðurinn Össur árið 1986.

Fleiri harðorðar greinar af sama toga má finna frá þessum tíma á vefnum timarit.is. Meðal annars heilsíðuauglýsingu frá Alþýðuflokksfélögunum í Reykjavík í Morgunblaðinu þar sem Reykvíkingum er boðið, í augljósum uppreisnartón, í skoðunarferð um „landareign sína.“

Fundarstaður Bjarna og Sigmundar

Þessi mynd af Sigmundi og Bjarna birtist í stjórnarmyndunarviðræðunum í maí 2013. Þarna sitja þeir í bústað Benedikts, föður Bjarna.
Saman í bústað Þessi mynd af Sigmundi og Bjarna birtist í stjórnarmyndunarviðræðunum í maí 2013. Þarna sitja þeir í bústað Benedikts, föður Bjarna.

Í september 2014 var kynnt nýtt deiliskipulag fyrir frístundabyggðina á vef Grímsness og Grafningshrepps þar sem skipulagðar höfðu verið tvær lóðir til viðbótar þeim fjórum sem þegar hafði verið reist sumarhús á. Samkvæmt skipulaginu eru allar sex lóðirnar jafnstórar. Gert er ráð fyrir 64 þúsund fermetra lóðum undir frístundahús, auk þess eru þrjár litlar spildur þar sem reist hafa verið bátaskýli. Sumarhúsin skulu samkvæmt skipulagi ekki vera minni en 50 fermetrar og ekki stærri en 200.

Á Ölfusvatni 4, stendur bústaður í eigu Benedikts Sveinssonar, föður Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra. Sá bústaður komst í fréttirnar árið 2013 þegar Bjarni og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, funduðu þar leynilega í stjórnarmyndunarviðræðunum eftir síðustu þingkosningar.

Ölfusvatn 5 er skráð í eigu Guðrúnar Sveinsdóttur og Ölfusvatn 6 er í eigu Einars Sveinssonar. Ingimundur Sveinsson á síðan lóðir númer 7 og 8, en á síðarnefndu lóðinni er nú að rísa nýtt sumarhús sem fyrr segir. Lóðin að Ölfusvatni 9 hefur verið skipulögð, en ekkert hús hefur enn risið þar. Hún er skráð í eigu Benedikts, Guðrúnar og Einars.

Sumarbústaðaland Engeyinga við Þingvallavatn er í eigu Orkuveitu Reykjavíkur en engu að síður lokað utanaðkomandi.
Hingað og ekki lengra Sumarbústaðaland Engeyinga við Þingvallavatn er í eigu Orkuveitu Reykjavíkur en engu að síður lokað utanaðkomandi.

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Sterkefnaður arkitekt

Ingimundur sem nú reisir sumarhúsið, er arkitekt og hannaði meðal annars Perluna upphaflega. Hann er, líkt og fleiri í Engeyjarættinni, sterkefnaður og var til að mynda meðal tíu helstu skattakónga landsins árin 2013 og 2014.
Samkvæmt upplýsingum frá OR voru gerðir leigusamningar um hverja lóð árið 2010 þegar deiliskipulag lá fyrir og lóðirnar höfðu verið formlega stofnaðar. Fjölskyldan hélt fríðindum sínum.

„Þeir [samningar] eru í samræmi við upphaflega kaupsamninginn frá 1985. Þar er gert ráð fyrir að leigjendur greiði skatta og skyldur af lóðum og húsum. Gildistíminn er sá sami og kaupsamningurinn kvað á um,“ segir í svari OR við fyrirspurn DV.

Þrátt fyrir að jörðin sem um ræðir sé enn í eigu OR þá hefur almenningur ekki aðgang að sumarbústaðalandi Engeyinga á Ölfusvatni. Vegfarendur koma að rækilega læstu hliði við veginn sem liggur út tangann. Á skilti er vegfarendum tilkynnt að við taki einkavegur, óviðkomandi umferð sé bönnuð og bent á að svæðið sé vaktað af Securitas.

Nýting ekki enn hafin

Á sínum tíma höfðu menn efasemdir um að jarðhiti í Ölfusvatnslandi yrði nýttur og það aðeins yfirvarp. Hugsanlega var eitthvað til í því. DV fékk staðfest að þrátt fyrir að innan jarðarinnar Ölfusvatns sé meðal annars orkukosturinn Þverárdalur, sem er í nýtingarflokki í fyrirliggjandi skýrsludrögum verkefnisstjórnar Rammaáætlunar, þá er jarðhitanýting ekki enn hafin – rúmlega 30 árum eftir að jörðin var keypt í því skyni. Hugsanlega gæti þetta þó breyst því OR bendir á að Kolviðarhóll hafi verið keyptur 1955 og hófst jarðhitanýting í Hellisheiðarvirkjun 2006. Þá voru Nesjavellir keyptir 1965 en nýtingin hófst ekki fyrr en 1990.

Kvaðir stoppuðu áform um sölu

Í Planinu, aðgerðaáætlun vegna fjárhagsvanda OR, árið 2012 var Ölfusvatn meðal þeirra eigna sem fyrirhugað var að selja. Það er þann hluta jarðarinnar sem ekki nýttist til jarðhitanýtingar, enda óheimilt fyrir fyrirtæki í almannaeigu að selja frá sér auðlindir nema til annarra opinberra aðila. Ekkert varð þó úr þeim áformum. Samkvæmt svari OR við fyrirspurn DV kom í ljós að kvaðir á þeim hluta jarðarinnar sem gat komið til greina að selja, meðal annars skógræktarkvaðir og leigusamningarnir við Engeyingana, þóttu gefa til kynna að „söluverð myndi ekki hafa afgerandi áhrif á það hvort markmiði um bætta sjóðstöðu OR næðust. Í ljósi þessa mats okkar var eignin tekin af lista yfir hugsanlegar eignir til sölu. OR á því jörðina enn.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 18 klukkutímum

Rúnar Hroði gefst ekki upp: „Ég ætla að fara með þetta alla leið“

Rúnar Hroði gefst ekki upp: „Ég ætla að fara með þetta alla leið“
Fréttir
Fyrir 20 klukkutímum

Kristín nefnir algeng mistök við fasteignakaup og hvernig hægt er að forðast þau

Kristín nefnir algeng mistök við fasteignakaup og hvernig hægt er að forðast þau
Fréttir
Í gær

Allir efstu sex forsetaframbjóðendurnir hafa djammað

Allir efstu sex forsetaframbjóðendurnir hafa djammað
Fréttir
Í gær

Málfræðingur ver viðtengingarhátt – „Hvar er sómakennd ykkar?“

Málfræðingur ver viðtengingarhátt – „Hvar er sómakennd ykkar?“