fbpx
Laugardagur 23.mars 2019

DV - Frjáls og óháður miðill

Fókus

Konungur gömlu dansanna hvarf sporlaust

Kristinn H. Guðnason
Þriðjudaginn 1. janúar 2019 21:00

Gunnlaugur Guðmundsson Kokhraustasti maður landsins.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Sjálfsagt hefur aldrei verið uppi kokhraustari maður á Íslandi en Gunnlaugur Guðmundsson, meistari gömlu dansanna. Gunnlaugur kom frá Vopnafirði og stýrði dönsum á skemmtistöðum í Reykjavík um áraraðir. Hann hafði sterkar skoðanir á dönsunum og þróun þeirra til hins verra. Jafnframt var hann ákaflega sannfærður um eigið ágæti og viðraði það í viðtölum. Gunnlaugur hvarf sporlaust einn daginn.

 

Hætt kominn póstburðarmaður

Gunnlaugur Guðmundsson var fæddur milli jóla og nýárs árið 1905 ásamt tvíburabróður sínum Ásgeiri. Þeir ólust upp á bænum Ásbrandsstöðum við Vopnafjörð. Ásgeir og önnur systkini Gunnlaugs tóku við búskapnum á bænum og Gunnlaugur bjó þar framan af. Gunnlaugur stundaði hefðbundin bústörf en var einnig bifreiðarstjóri. Bifreiðar voru fátíðar á Íslandi á þessum árum, sérstaklega á Austurlandi.

Gunnlaugur sinnti meðal annars póstþjónustu í sveitinni og það gat verið hættulegt starf. Stundum fór hann á hestbaki eða gangandi á milli staða. Í eitt skiptið munaði litlu að Gunnlaugur yrði úti í stórhríð nálægt bænum Hlíðarhúsi í Jökulsárhlíð.

Frá Ásbrandsstöðum kom þjóðlegt fólk og gegnheilt Framsóknarfólk. Gunnlaugur var þar engin undantekning. Hann var mikill samkvæmismaður og eldheitur í gömlu dönsunum. Ekki leið á löngu þar til hann var farinn að stýra gömlu dönsunum í félagsheimilum á Austurlandi.

Árið 1942, þegar Gunnlaugur var 36 ára gamall, fluttist hann að bænum Hjarðarhaga í Jökuldal. Hann átti þá nýja bifreið og sinnti akstri þar í alls þrettán sumur. Þennan tíma starfaði hann jafnframt sem meðhjálpari og hringjari í Hofteigskirkju.

Tvíburar
Gunnlaugur og Ásgeir Guðmundssynir frá Ásbrandsstöðum.

Vandræðaástand í gömlu dönsunum

Árið 1957 fluttist Gunnlaugur á mölina og starfaði aðallega við byggingarvinnu í nokkur ár. Eftir það starfaði hann hjá Blikksmiðjunni Gretti og á sjötugsaldri fór hann að starfa á Laugardalsvellinum. Gunnlaugur hætti ekki að dansa eftir að hann kom til Reykjavíkur heldur miðlaði kunnáttu sinni og reynslu á því sviði til borgarbúa.

Á sjöunda áratugnum stýrði hann reglulega gömlu dönsunum í Góðtemplarahúsinu og Framsóknarhúsinu. Á áttunda áratugnum í Þórscafé. Einnig á skemmtunum í nágrenni Reykjavíkur, svo sem Félagsgarði í Kjós. Undir spiluðu tónlistarmenn á borð við Guðmund Hansen, Guðjón Matthíasson, Sigmund Júlíusson, Aage Lorange og Poul Bernburg.

Gunnlaugur hafði sterkar skoðanir á gömlu dönsunum og var ekki bjartsýnn fyrir hönd þeirra á efri árum. Viðraði hann þessar skoðanir sínar bæði í ræðu og riti. Í nóvember árið 1975 var hann í viðtali hjá Dagblaðinu. Þar sagði hann:

„Gömlu dansarnir eru orðnir stórskemmdir vegna þess að búið er að bæta inn í þá alls konar toppfígúrum, sem allir taka upp þannig að þessir oflátungar halda að þetta sé fyndið.“

Máli sínu til stuðnings nefndi hann Vínarkrúsinn. Í stað þess að taka hin venjulegu spor til beggja hliða var búið að setja inn millisnúninga sem ekki áttu heima þar. Taldi hann þetta vandræðaástand fyrst og fremst vera hljómsveitarstjórunum að kenna og sinnuleysi þeirra gagnvart dansstjórunum. Væri samskipta- og stjórnleysið orðið svo mikið að pörin dönsuðu ekki einu sinni sama dansinn. Eitt par dansaði kannski vals, annað marsúrka og það þriðja ræl, allt undir sama laginu. Þetta skapaði eitt allsherjar öngþveiti á dansgólfinu.

 

Meira að segja kvenfólkið farið að drekka

„Ég hef verið talinn einn besti dansstjóri, sem völ er á og vil nefna sem dæmi að fyrir þremur árum stjórnaði ég dansi sjö kvöld í röð í Ingólfskjallaranum og fólk er enn þá að hæla mér fyrir mína stjórn. Góður dansstjóri eins og ég gengur á undan með góðu fordæmi, dansar á undan fólkinu svo það sjái hvað á að dansa og hann á að sjá um að fólk dansi ekki annað en það sem sagt er fyrir,“ sagði hann.

Að mati Gunnlaugs var það hlutverk dansstjórans að sjá um að fólk skemmti sér vel og færi ánægt heim. Undirstöðuatriði í því væri röggsöm dansstjórn, kunnátta fólks og hált gólf. Stýrði hann danspörum með harðri hendi og setti grófmalaða bórsýru á gólfið til að gera það hálara, en hún er stórvarasöm. Gunnlaugur taldi að færni á borð við hans væri að deyja út.

„Ákveðin dansstjórn skapar engin leiðindi. Fólk bara heldur að því finnist leiðinlegt. Þegar góður dansstjóri gengur á undan, skemmtir fólk sér mun betur, og þú mátt skjóta því inn í frá eigin brjósti að danshúsin eigi að temja sér notkun dansstjóra til að allir geti verið ánægðir.“

Gunnlaugur sparaði ekki stóru orðin um eigið ágæti.

„Þó eru þrír eða fjórir menn, sem eru eins góðir og ég. Ég hef fengið orð fyrir að vera taktfastur, þannig að dömur, sem ég hef dansað við, hafa sagt það við mig og ég finn líka undireins hvort þær hafa dansað við einhvern, sem kann gömlu dansana, eða ekki.“

Eina helstu áskorunina sem steðjaði að gömlu dönsunum taldi hann einnig vera aukna brennivínsdrykkju á skemmtunum.

„Mér þykir fyrir því að sjá meira að segja kvenfólkið rorra um hálffullt. Læknarnir hafa sagt að gömlu dansarnir séu besta íþrótt, en það þýðir ekkert að iðka íþróttir undir áhrifum víns.“

Gunnlaugur kom einnig fram í sjónvarpsviðtali þetta sama ár. Það var í þættinum Anna í Hlíð hjá Helga Péturssyni, úr Ríó Tríó. Sagði hann þar marga unga menn öfunda sig.

„Það hafa margir ungir menn komið til mín og óskað þess að vera orðnir eins og ég. Þessir yngri, þó þeir spili gömlu dansana, þá eru þetta ekki reglulegir gömlu dansar sem þeir spila,“ sagði hann með áherslu.

 

Hvarf sporlaust eftir læknisheimsókn

Skömmu eftir að Gunnlaugur kom fram í þessum tveimur eftirminnilegu viðtölum hvarf hann sporlaust. Þann 26. nóvember 1976 var greint frá því að leit væri hafin að Gunnlaugi, sem var þá sjötugur og búsettur í Barmahlíðinni ásamt öðrum manni.

Fimmtudaginn 25. nóvember hafði hann komið við á Landspítalanum. Eftir það fór hann út að ganga og sást ekki meir. Um kvöldið fór sá sem með honum bjó að ókyrrast og tilkynnti hvarfið. Sagði hann frá því að Gunnlaugur væri sykursjúklingur og hætt við yfirliði. Væri hann klæddur í gráa úlpu og með köflóttan hatt.

Björgunarsveitir leituðu á öllu höfuðborgarsvæðinu, með fram strandlengjunni og á slöngubát. Gunnlaugur fannst hins vegar ekki og var dánardagur hans skráður 26. nóvember. Hann var ókvæntur og barnlaus.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Fókus
Fyrir 2 dögum

Herra Hnetusmjör fær sinn eigin sjónvarpsþátt: „Þetta verður ekkert 18 plús“

Herra Hnetusmjör fær sinn eigin sjónvarpsþátt: „Þetta verður ekkert 18 plús“
Fókus
Fyrir 2 dögum

Stærsta Tarantino myndin til þessa – Sjáðu fyrstu kitluna

Stærsta Tarantino myndin til þessa – Sjáðu fyrstu kitluna