fbpx
Þriðjudagur 16.apríl 2024

Rósa Ásgeirsdóttir elskar að skapa ævintýri fyrir börn

Aníta Estíva Harðardóttir
Sunnudaginn 8. apríl 2018 11:30

Rósa Ásgeirsdóttir leikkona

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Rósa Ásgeirsdóttir leikkona hefur verið hluti af Leikhópnum Lottu í tíu ár. Á þeim tíma hefur hún skellt sér í hin ýmsu gervi og veitt börnum víðs vegar um landið ómælda gleði.

Rósa segir að börn séu frábærir áhorfendur sem geri leikurum alveg ljóst ef þeim mislíkar eitthvað í sýningunni.

„Börnin eru svo fyndin og þau spyrja okkur oft spurninga fyrir eða eftir sýningu sem ég á stundum í stökustu vandræðum með að svara og þarf því að vera fljót að hugsa,“ segir Rósa í viðtali sem birtist upphaflega í helgarblaði DV.

Rósa er menntuð leikkona og hefur starfað við leiklist undanfarin ár ásamt því að taka að sér að hanna og sauma ýmsa búninga.

Eftir hlutverk Sandy í Grease var ekki aftur snúið

„Ég lærði hönnun og textíl og tek stundum að mér slík verkefni. Ég ætlaði mér lengra í þeim bransa en þegar ég var í framhaldsskóla kviknaði leiklistaráhuginn og ég sótti um í leikfélaginu. Þar var mér kastað í hlutverk Sandy í Grease og þá var ekki aftur snúið. Ári seinna var ég komin í leikfélagsstjórnina og færði mig þaðan yfir í Freyvangsleikhúsið, staðráðin í því að á sviði vildi ég vera.“

Rósa Ásgeirsdóttir leikkona/Mynd: Sigtryggur Ari

Rósa er ættuð frá Akureyri en fljótlega eftir stúdentspróf flutti hún til Reykjavíkur og árið 2008 lenti hún óvænt inn í Leikhópnum Lottu þar sem hún er enn þann dag í dag.

„Við erum að klára Galdrakarlinn í Oz núna um helgina þar sem ég fer með hlutverk Dórótheu og við tekur ævintýrið um Gosa sem við setjum upp í sumar. Ég er einnig að stunda nám í skapandi tónlistarmiðlun við Listaháskóla Íslands og var að klára að semja nokkur lög fyrir Gosa núna í páskafríinu.“

Gaman að gleðja börn

Rósa hefur alltaf verið mikið fyrir ævintýri og þykir gaman að fá að túlka ævintýrapersónur sem hana dreymdi um að vera þegar hún var barn.

Rósa Ásgeirsdóttir/Mynd: Sigtryggur Ari

„Það er bæði gaman að fá að túlka ævintýrapersónur og fá að skapa alveg nýjar frá grunni eins og til dæmis Litli litur í Litalandi sem mun lifa á stafrænu formi allt mitt líf. Svo finnst mér svo gaman að gleðja börnin, sjá þau hlæja, sjá tár og fá þau hlaupandi til mín í fangið eftir sýningu til þess að fá knús frá ævintýrapersónunni. Það gefur mér svo mikið. Það er líka annað sem mér finnst æðislegt og það er að við förum út á landsbyggðina með sýningarnar og gefum þannig öllum sem vilja tækifæri til að sjá sýninguna. Það er aldrei of mikið í boði fyrir börnin,“ segir Rósa um sérstakan áhuga sinn á barnaleikritum. Hún viðurkennir þó að hún hafi einnig mikinn áhuga á því að líta í aðrar áttir í komandi framtíð.

„Fullorðnir eru líka skemmtilegir áhorfendur og það gleður mig alltaf jafn mikið að heyra í fullorðna fólkinu hlæja og heyra að það sé að skemmta sér.“

Rósa segir samstarfið í leikhópnum ganga mjög vel.

„Við erum öll góðir vinir, höfum rifist og hlegið saman. Allt eins og eðlilegt er, þegar vinahópur vinnur og ferðast saman nánast allan sólarhringinn í svona langan tíma.“

Alvarlegt bílslys setti strik í reikninginn

Leikhópurinn lenti í bílslysi með alla leikmyndina á síðasta ári og var það mikið áfall fyrir hópinn.

„Sem betur fer slapp leikhópurinn ótrúlega vel og slysið hafði ekki áhrif á sýningarnar. Leikmyndin var að mestu sýningarhæf og þessar hetjur héldu sínu striki daginn eftir með tvær sýningar. En vissulega var þetta mikið álag á hópinn. Nýmerkti bíllinn var ónýtur, kerran óökuhæf og Austurlandstúrinn að byrja daginn eftir. Þetta var mikið sjokk, spítalaheimsóknir og það þurfti að útvega nýjan bíl, nýja kerru, gjall í bílinn og ferja svo allt til Reykjavíkur.“

Aðspurð hvort það sé ekki erfitt að flakka um allt land með leikhúsið með sér svarar Rósa neitandi.

„Það er í raun auðveldara en fólk heldur. Leikmyndin okkar er alltaf hönnuð með kerruna í huga og svo bætast leikmunir við. Flókni og skemmtilegi parturinn er eiginlega svona fjórum dögum fyrir frumsýningu þegar við förum að púsla allri heildinni saman inn í kerruna. Leikmyndin á sinn stað og svo þarf að koma leikmununum, búningum og öðru tilfallandi fyrir. Í vetur byrjuðum við með vetrarverkefni sem felst í því að við setjum eldri sýningar okkar upp inni í leikhúsum víðs vegar um landið. Þá bættust við ljós, standar og ýmislegt sem við höfum ekki verið að vinna með áður. Húsin eru misstór og við þurfum að aðlaga hverja sýningu að rýminu sem við fáum, setja upp ljósin og tilheyrandi, en það er bara skemmtilegt verkefni í hvert sinn.“

Börn stoppa hana á förnum vegi

Rósa segir að algengt sé að börn þekki hana þegar þau mæti henni á förnum vegi og að henni þyki virkilega vænt um það.

„Það er alltaf rosalega krúttlegt. Eitt minnisvert sem ég lenti í um daginn var þegar ég var að ganga inn í Ikea og bíll er stöðvaður fyrir framan mig á bílaplaninu. Mamman, sem ég kannaðist ekki við, skrúfaði niður rúðurnar þar sem börnin hennar sátu aftur í og voru að hlusta á Galdrakarlinn í Oz. Mér þótti ótrúlega vænt um þetta augnablik, að fá að spjalla við börnin í aftursætinu á meðan röddin mín hljómaði í útvarpinu og það hefur ekki verið síður eftirminnilegt fyrir þau. Svo lenti ég líka í því fyrir átta árum þegar ég var lasin úti í búð með maskara út á kinn í snakkdeildinni, þá kom lítið barn hlaupandi til mín og kallaði: „Mamma, sjáðu ég fann Öskubusku.“ Svo vildi það bara halda í hendina á mér.“

Rósa í hlutverki Dórótheu / Mynd af heimasíðu Rósu: www.rosaasgeirsdottir.com

Rósu segist þykja virkilega vænt um Dórótheu í Oz en að hennar uppáhaldskarakter sé þó Letta lamb í Litlu gulu hænunni.

„Letta er til alls vís, hún getur bullað endalaust og sagt brandara sem engin glóra er í.“

Vann Íslandsmeistarakeppni í limbó fótbrotin

Rósa býr yfir ýmsum hæfileikum og auk þess að vera leikkona, búningahönnuður og lagasmiður þá er hún einnig Íslandsmeistari í limbó.

Rósa Ásgeirsdóttir /Mynd: Sigtryggur Ari

„Ég vann limbókeppni sem haldin var á Grapewine music awards. Keppnin fór fram á upphækkuðu sviði og þegar ég var að koma úr seinni umferðinni reis ég upp frá limbóstönginni og áttaði mig ekki á því að sviðið endaði fyrr en mig minnti. Ég steig niður af sviðinu í einu stóru skrefi og endaði niðri á gólfinu. Mér brá mikið og varð hálfvandræðaleg, fékk hláturskast og dofnaði öll upp. Ég gerði ráð fyrir því að það hefði verið sjokkið við að hafa dottið fyrir framan fullan sal af fólki en svo fann ég að það var sárt að stíga í fótinn.“

Rósa hélt fyrst að hún hefði misstigið sig illa, hélt keppninni áfram og vann hana.

„Þá kom sigurvíman og ég rétt komst baksviðs og fór í skóna mína. Þegar ég kom aftur fram í sal fór fólk að ausa yfir mig hamingjuóskum og í gleðivímunni taldi ég að ég hefði í mesta lagi tognað. Ég er með mjög háan sársaukaþröskuld og ætlaði sko ekki að vera með neinn aumingjaskap á þessu glæsilega kvöldi. Það var ekki fyrr en morguninn eftir að ég gaf mig og fór upp á spítala og endaði í gifsi upp að hné og hækjum.“

Dóróthea gat fótbrotnað eins og hver annar

Á þessum tíma var Rósa að sýna ein á sviði atriði með Dórótheu og þurfti hún að spinna sýninguna í kringum fótbrotið.

„Það fór auðvitað ekkert fram hjá krökkunum þegar ég gekk upp á svið á hækjum með gifs svo ég byrjaði bara á því að tala aðeins um það og svara spurningum. Þeim fannst það bara skemmtilegt og í stað þess að gera allt sem ég ætlaði að gera á gólfinu varð ég að sitja á stól sem var mjög krefjandi. Börnin sýndu þessu fullan skilning og auðvitað gat Dóróthea fótbrotnað eins og hver annar.“

Rósa fótbrotin í gervi Dórótheu / Mynd: Instagram/kexhostel

Fram undan hjá Rósu er ævintýri Gosa með Leikhópnum Lottu í sumar ásamt því að hanna búninga.

„Eins og sannur bogmaður finnst mér erfitt að gera langtímaplön en ég hef þó tekið ákvörðun um að taka mér leikpásu fram til haustsins 2019 að undanskilinni jólatörninni og svo verður lífið vonandi bara jafn fjölbreytt og skemmtilegt og það er í dag. Maður má ekki gleyma að njóta.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 klukkutímum

Tímamót á Reykjanesskaga: Næst lengsta gosið frá 2021 – Óvissa um framhaldið

Tímamót á Reykjanesskaga: Næst lengsta gosið frá 2021 – Óvissa um framhaldið
433Sport
Fyrir 2 klukkutímum

Segja að Valur verði að vera með plan B klárt – „Af hverju taka Tryggvi og Jónatan ekki hlaup inn fyrir?“

Segja að Valur verði að vera með plan B klárt – „Af hverju taka Tryggvi og Jónatan ekki hlaup inn fyrir?“
Fókus
Fyrir 3 klukkutímum

Sjáðu senuna sem er sögð sú fyndnasta í Saturday Night Live frá upphafi – Enginn náði að halda andliti

Sjáðu senuna sem er sögð sú fyndnasta í Saturday Night Live frá upphafi – Enginn náði að halda andliti
433Sport
Fyrir 3 klukkutímum

Sjáðu ótrúlega hegðun leikmanna Chelsea í gær – Pochettino hótar að reka þá ef þetta gerist aftur

Sjáðu ótrúlega hegðun leikmanna Chelsea í gær – Pochettino hótar að reka þá ef þetta gerist aftur
433Sport
Fyrir 5 klukkutímum

Sjáðu hræðilegan dóm Jóhanns Inga í gær – „Allt í lagi að gera mistök en þú átt ekki að sjá ofsjónir.“

Sjáðu hræðilegan dóm Jóhanns Inga í gær – „Allt í lagi að gera mistök en þú átt ekki að sjá ofsjónir.“
433Sport
Fyrir 5 klukkutímum

Eftir að hafa talað við vin sinn þá segir hann frá þeim vandræðum sem United er í utan vallar

Eftir að hafa talað við vin sinn þá segir hann frá þeim vandræðum sem United er í utan vallar
Pressan
Fyrir 6 klukkutímum

Mikill eldur í einni elstu byggingu Kaupmannahafnar

Mikill eldur í einni elstu byggingu Kaupmannahafnar
Pressan
Fyrir 7 klukkutímum

Átta ára fangelsi fyrir að stela bíl – 89 ára blind kona í framsætinu – Myndband

Átta ára fangelsi fyrir að stela bíl – 89 ára blind kona í framsætinu – Myndband

Tarot Spil

Veldu þér spil og sjáðu spádóm þinn.