fbpx
Sunnudagur 31.maí 2020
Fókus

Bragi mætti undir fölsku flaggi á árshátíð

Íris Hauksdóttir
Sunnudaginn 29. mars 2020 09:30

Bragi Árnason. Mynd: Eyþór Árnason

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Bragi Árnason, leikari og söngvaskáld, kennir leiklist í Laugarnesskóla samhliða því að vinna að tónlist en hann gaf nýlega út lagið Silver Screen á Spotify. Bragi leggur að eigin sögn mest upp úr einlægni enda skili það á endanum bestum árangri að fylgja hjartanu. Bragi er í yfirheyrslu helgarinnar.

Hvar líður þér best? Oft þarf ég bara örlítið ferskt loft, þá er það meira spurning um hvenær heldur en hvar. Það er notalegt að syngja í góðra vina hópi. Ef vel lukkast á sviði líður mér þó rosalega vel með hljóðnemann sem dæmi með Mánujazz bandið mér við hlið, yndislegir drengir og flinkir spilarar!

Hvað óttastu mest? Að valda sjálfum mér vonbrigðum, eflaust. Og orðsporið. Skíthræddur um það, þoli það samt ekki, finnst sá ótti oft hamla mér.

Hvert er mesta afrek þitt? Að hafa skrifað, samið og sett á svið söngleikinn Þegar öllu er á botninn hvolft, byggðan á minni ævi. Það þurfti hugrekki til, en það var það eina rétta í stöðunni.

Furðulegasta starf sem þú hefur tekið að þér? Ég lék nú eitt sinn Elísabetu Englandsdrottningu í „stand-up“ sýningu – ætla ekki að segja hvernig. Annars hef ég líka mætt undir fölsku flaggi sem leiðinlegur nýr starfsmaður hjá árshátíðum fyrirtækja og það hefur vakið mikla kátínu. Svo var ég gangbrautarvörður í hverfinu mínu í London. Þar í landi kallast sá starfstitill „Lollipop Man“. Grínlaust.

Hver væri titillinn á ævisögu þinni? Eins og staðan er. /Minn innri marbendill. /Ég er fiskur. Þar til mér dettur eitthvað betra í hug.

Hvernig væri bjórinn Bragi? Eitthvað karamellukennt, smá ljóst, örlítið sætt og svalandi. Bragi var jú guð skáldskapar í goðafræðinni, gaman ef þetta væri svona skáldskaparmjöður.

Besta ráð sem þú hefur fengið? Að vera hreinskilinn. Fylgja hjartanu. Virkar að lokum alltaf best.

Hvert er leiðinlegasta húsverkið? Mér finnst þau öll mjög fín, hafa mjög róandi áhrif á mig. Það er bara þegar ég sé fram á að ég þurfi að byrja á einhverju sem ég mun ekki getað klárað að ég fyllist smá stressi. Þetta var nú meira í íbúðinni sem ég bjó í í London, hún safnaði auðveldlega ryki og raka.

Besta bíómynd allra tíma? Boyhood er gífurlega vönduð, vel skrifuð og leikin kvikmynd í alla staði, gerð af mikilli næmni, raunsæi og laus við alla upphefð. Fallega húmanísk saga um lífið og uppvöxtinn.

Hvaða hæfileika myndir þú vilja búa yfir? Að eiga ekki í neinum vandræðum með það að taka ákvarðanir.

Hver er mesta áhætta sem þú hefur tekið? Að deila mér öllum, kostum og göllum, í þessu sjálfsævisögulega sviðsverki sem ég setti á laggirnar.

Hvaða frasi eða orð fer mest í taugarnar á þér? Ofnotaðir frasar. Jafnvel: Hæ, hvasegiru? Þegar fólk hittist. Langar oft frekar að segja, gott að sjá þig, miklu hlýrri kveðja. Það finnst eflaust mörgu fólki það líka ofnotað. Ætli ég leggi ekki mest upp úr einlægni.

Hvað geturðu sjaldnast staðist eða ert góður í að réttlæta að veita þér? Meðal annars sykur út í kaffið og of mikið á diskinn almennt. Einhver ávani úr sveitinni í gamla daga. Ég þurfti að borða vel áður en haldið var út í langa vinnutörn.

Hvað er á döfinni hjá þér? Ég mun leiða, ef allt blessast, samsöng í Hannesarholti þann 3. maí þar sem við syngjum saman vel valin íslensk dægurlög sem hafa skapað sér sess í hjartanu. Ætlunin er svo að sýna söngleikinn minn aftur seinna á árinu, það þarf bara að sjá hvernig mál þróast í tenglsum við allar samkomur og lýðheilsu auðvitað. Ég bíð svo spenntur eftir því að sjá þau verkefni sem ég hef leikið í líta dagsins ljós – og ferðalag stuttmyndarinnar okkar Wilmu, en hún er tilnefnd til Eddunnar.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Fókus
Fyrir 5 dögum

Linda þótti of lágvaxin fyrir Lögregluskólann en annað kom á daginn

Linda þótti of lágvaxin fyrir Lögregluskólann en annað kom á daginn
Fókus
Fyrir 5 dögum

Elon Musk og Grimes breyta nafni barnsins – Gæti verið furðulegra en X Æ A-12

Elon Musk og Grimes breyta nafni barnsins – Gæti verið furðulegra en X Æ A-12
Fókus
Fyrir 1 viku

Gleði og gaman í Hörpu þegar Storytel veitti verðlaun

Gleði og gaman í Hörpu þegar Storytel veitti verðlaun
Fókus
Fyrir 1 viku

Sjáðu myndir af dýrasta sumarhúsi sem til sölu er

Sjáðu myndir af dýrasta sumarhúsi sem til sölu er