fbpx
Þriðjudagur 04.ágúst 2020
Fókus

Nýtt líf Haffa Haff – Guð og Jesús Kristur besta fíkniefnið

Tómas Valgeirsson
Laugardaginn 14. desember 2019 09:00

Mynd: Eyþór Árnason

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Listamaðurinn Hafsteinn Þór Guðjónsson hefur glatt ófáa landsmenn síðustu vikur með dansfélaga sínum, Sophie Louise Webb. Tvíeykið var nýlega valið í hóp þeirra sem komust áfram í annarri seríu Allir geta dansað, þar sem listamenn keppast um stóra titilinn og sigurbikarinn. Tíu pör taka þátt og stendur eitt par eftir sem sigurvegari í lok janúar á næsta ári.

Hafsteinn, sem þekktur er af flestum sem tónlistarmaðurinn og plötusnúðurinn Haffi Haff, hefur lítið verið í sviðsljósinu undanfarin ár, en mikið bar á honum í fjölmiðlum í nokkur ár eftir að hann tók þátt í undankeppni Eurovision með Wiggle Wiggle Song. Í samtali við DV tjáir Haffi sig meðal annars um ástina, týndu árin, mikil tímamót, átakanleg veikindi, drifkraftinn og nýju plötuna sem hefur verið í vinnslu svo árum skiptir.

Þetta er brot úr ítarlegra viðtali sem má finna í helgarblaði DV.

Mynd: Eyþór Árnason

Lengi hefur Hafsteinn verið kenndur við ýmsa titla; tónlistarmaður, framleiðandi, hönnuður, tískuráðgjafi og ekki síst danshöfundur, en hann hefur marga fjöruna sopið þegar kemur að þeirri listgrein. Svo dæmi séu nefnd tekur hann reglulega samkvæmisdans með eldri borgurum á föstudögum á Hrafnistu. Nýlega hefur hann þó þurft að leggja þá tómstundaiðju á hilluna um tíma vegna dansæfinga fyrir beina útsendingu.

Hafsteinn lýsir aðkomu sinni að sjónvarpsþáttunum Allir geta dansað sem stressandi, spennandi en fyrst og fremst sem draumi líkri og meira krefjandi í smáatriðum dansspora en hann er vanur. Hann gæti heldur ekki verið ánægðari með dansfélaga sinn, Sophie Louise, sem hann segir mikla hvatningu í lífinu þessa dagana. Hafsteinn segir undanfarnar vikur hafa verið taumlausa keyrslu í tengslum við æfingar og tökur á þættinum en þetta hefur ekki stoppað hann frá því að taka að sér fleiri verkefni í miðri ös.

Tónlistarmaðurinn og dansarinn segist vera ákaflega ánægður með tímasetningu danskeppninnar. Tímarnir hafa verið krefjandi hjá Hafsteini síðastliðin misseri, meðal annars vegna erfiðra sambandsslita og kveið hann um tíma fyrir að eyða jólunum einhleypur. Í sex og hálft ár var Hafsteinn í sambandi með landslagsarkitekt að nafni Julian. Þeir voru lengi í fjarsambandi og stóð til að þeir rugluðu saman reytum í Seattle. Hafsteinn segist hafa verið kominn með annan fótinn inn í hjúskapinn þegar sambandið slitnaði. Hafsteinn tjáir sig um þetta viðkvæma mál og segir að heilt yfir hafi þeim Julian ekki ætlað að vera saman.

„Ég hef oft séð það gerast, þegar fólk gefur upp hluta af sjálfu sér fyrir aðra. Mig langaði að sjá hann ganga langt og sinna sínu vel. Ég vildi ekki að hann aðlagaði sitt líf að mínu, en með tímanum leið mér eins og ég hefði ekki lengur fengið að vera ég. Mér leið eins og stöðugt væri verið að dæma mig,“ segir Hafsteinn og kemur með tvö sambandsráð.

„Þegar þér líður eins og hinn einstaklingurinn meti þig ekki eins og þú ert, skaltu forða þér strax. Þú verður að treysta eðlishvöt þinni. Ég vissi það fyrir meira en ári að þetta samband væri ekki að ganga, en ég neitaði að sleppa takinu. Ég elskaði hann of mikið. Ég hélt áfram að hlaupa með hausinn beint að veggnum áður en ég áttaði mig á því að þetta var ekki að ganga. Það sem ég lærði af þessu var að missa ekki sjónar á sjálfum mér og ég ráðlegg fólki að fórna aldrei sínum markmiðum eða gefa drauma sína upp á bátinn fyrir aðra,“ segir Hafsteinn.

Mynd: Eyþór Árnason

„Stóri G“ og leitin að sálinni

Að sögn Hafsteins hefur samband þeirra Julians verið fíkn líkust enda skilgreinir listamaðurinn sig sem mikinn ástarfíkil á þeim tíma og sérstaklega undir lokin. Þegar Hafsteinn fór að þrá tilbreytingu, meiri rútínu og stöðugleika í lífið í kjölfar sambandsslitanna tók við nýr áhugi sem hann gat ómögulega séð fyrir.

„Það má segja að ég hafi skipt út fíkninni fyrir ást mína á Jesú Kristi og Guði, eða „Stóra G“ eins og ég kalla hann. Þetta er besta fíkniefni sem til er,“ segir Hafsteinn og rekur kveikiþráðinn til Seattle. Þar átti hann vinkonu, 76 ára gamla, sem bjó í sama húsi og hann og hann annaðist mikið. Til að leiða hugann frá sambandsslitunum þáði Hafsteinn boð hennar um að koma með henni í messu. Áður en langt um leið var Hafsteinn orðinn dolfallinn og nú gengur hann til kirkju á hverjum sunnudegi, undantekningarlaust.

„Þegar ég fer í kirkju og ljósið skín inn um gluggann á rétta augnablikinu, beint í augun á þér, og presturinn syngur, kemur tilfinning sem er erfitt að lýsa. Hún er svo gefandi og yndisleg. Í messu upplifi ég sál mína gífurlega frjálsa og mér tekst að sleppa takinu á öllu sem angrar mig. Það skiptir engu hvort maður trúi hinu eða þessu. Þetta snýst um að skyggnast inn í eigin sál,“ segir Hafsteinn.

Hann segir Hallgrímskirkju hafa átt sérstakan sess í hjarta hans undanfarna mánuði, en þess má geta að Hafsteinn fékk boð á dögunum um að vera messuþjónn í þeirri kirkju. Hann varð himinlifandi við að fá þetta boð og segir það vera gífurlegan heiður, en sunnudagurinn 15. desember markar fyrsta skiptið þar sem hann fær að taka þátt í athöfn í Hallgrímskirkju. Vonandi verður það hin fyrsta af mörgum, segir hann.

En hvað er Guð, eða Stóri G?
„Ég hef ekki hugmynd, en ég veit að Guð er allt saman, hann er aflið sem býr í okkur öllum. Hvað sem hann er, þá sigrast hann á mínu myrkri stöðugt. Myrkrið er nefnilega ekkert í samanburði við það hversu dásamlegt og dýrmætt líf þitt er,“ segir Hafsteinn.

„Það eru stórkostleg forréttindi og heiður að kynna sér þær upplýsingar sem Jesús Kristur hafði um Guð, og hvaða tilgangur það er sem okkur fólkinu er ætlaður, hvers vegna við erum hér. Þetta snýst ekki um að vera samkynhneigður, svartur, hvítur, uppi, niðri, ríkur, fátækur, búandi hér eða þar. Þvert á móti geturðu verið afar auðugur sem fátæk manneskja, en þá svo lengi sem þú ert frjáls í sálinni og meðtekur alla þá umhyggju og fegurð sem er í kringum þig. Ég myndi vilja gefa allt sem ég á ef það þýddi að ég gæti hugsað vel um aðra.“

Mynd: Eyþór Árnason
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Í vikunni

Fókus
Fyrir 3 dögum

Svona býrðu til þína eigin andlitsgrímu

Svona býrðu til þína eigin andlitsgrímu
Fókus
Fyrir 4 dögum

Margrét Erla: Ég vil sýna kvenlíkamann sem sterkan, fyndinn og skrýtinn

Margrét Erla: Ég vil sýna kvenlíkamann sem sterkan, fyndinn og skrýtinn
Fókus
Fyrir 1 viku

Þessir lögmenn vita hvað klukkan slær

Þessir lögmenn vita hvað klukkan slær
Fókus
Fyrir 1 viku

Krakkarnir vildu ekki að ég léki Ronju Ræningjadóttur

Krakkarnir vildu ekki að ég léki Ronju Ræningjadóttur
Fókus
Fyrir 1 viku

Sumarleikur DV: Vinningar að verðmæti 250.000 þúsund – Skráðu þig og veldu þér ferðafélaga

Sumarleikur DV: Vinningar að verðmæti 250.000 þúsund – Skráðu þig og veldu þér ferðafélaga
Fókus
Fyrir 1 viku

Íslendingur reyndi að selja klámmyndir fyrir tugþúsundir króna – Risastórt og svakalegt safn DVD-mynda

Íslendingur reyndi að selja klámmyndir fyrir tugþúsundir króna – Risastórt og svakalegt safn DVD-mynda