Ted McDermott sló rækilega í gegn
Myndband af áttræðum manni, Ted McDermott að nafni, og syni hans syngja lagið Quando, Quando, Quando, hefur vakið verðskuldaða athygli. Ted þjáist af Alzheimers og þó sjúkdómurinn hafi veruleg áhrif á líf hans og aðstandenda hans getur Ted sungið betur en líklega flestir.
Myndbandið sem vakið hefur svona mikla athygli má sjá hér neðst í fréttinni. En stóru tíðindin eru þau að nú hefur Ted fengið plötusamning hjá plötuútgáfunni Decca Records eftir að myndband af stórkostlegum söng hans vakti athygli milljóna netverja á myndbandavefnum YouTube um miðjan ágústmánuð.
Sonur Teds, hinn fertugi Simon, segir að söngurinn hjálpi föður hans að glíma við sjúkdóminn. Hann birti myndbandið á netinu í þeim tilgangi að vekja athygli á Alzheimers-sjúkdómum en Ted greindist með sjúkdóminn árið 2013. Simon segir að Ted sé hægt og bítandi að tapa skammtímaminninu og fer ástand hans stigversnandi með hverjum mánuði sem líður.
Í umfjöllun Mail Online kemur fram að framkvæmdastjóri Decca-plötuúgáfunnar hafi rekist á myndböndin af söng Teds og hrifist svo mikið að hann bauð Ted í hljóðver þar sem hann söng tvö lög; annars vegar You Make Me Feel So Young, sem Frank Sinatra gerði ódauðlegt á sínum tíma, og Quando, Quando, Quando sem Engelbert Humperdinck söng svo fallega á sínum tíma. Afraksturinn af plötusölunni fer svo til Alzheimers-samtakanna í Bretlandi.
„Draumurinn er að rætast, ekki bara fyrir föður minn heldur alla fjölskylduna. Síðustu ár hafa verið erfið, sérstaklega fyrir móður okkar. Við héldum upp á 80 ára afmæli hans í síðasta mánuði og við héldum að hann myndi ekki syngja mikið oftar fyrir okkur. En núna er hann kominn úr hljóðveri,“ segir Simon.
Alexander Van Ingen hjá Decca var einnig ánægður með að Ted hafi verið klár í verkefnið. „Hann er með einstaka rödd, hvað þá af áttræðum manni að vera. Röddin hans er mjög grípandi, full af persónuleika og reynslu,“ segir hann en myndband af þeim feðgum syngja Quando, Quando, Quando má sjá hér að neðan.