„Ég skammast mín stundum fyrir að viðurkenna það en ég grét oft eins og lítið barn á kvöldin og fannst ég vera vonlaus og að ég væri bara ekki lengur með þetta,“ ritar Sindri Kristinn Ólafsson, markvörður hjá fótboltaliði Keflavíkur í einlægum pistli sem birtist á vef Víkurfrétta en þar lýsir hann því hvernig erfitt tímabil í fótboltanum kom niður á andlegri líðan hans.
Sindri byrjaði að æfa fótbolta tíu ára gamall og kveðst hafa heillast af íþróttinni frá fyrstu stundu. Hann segir árið 2015 hafa gengið vel, hann var þá varamarkmörður en fékk tækifæri til að stíga af bekknum með góðum árangri. Þá var hann valinn í U-19 ára landsliðið fyrir undankeppni EM og spilaði alla þrjá leikina í keppninni. Síðan rann árið 2016 upp og Keflavík fékk til sín markmann frá HK, Beiti Ólafsson. Sindri varð þá aftur markmaður númer tvö og fannst erfitt að sætta sig við það hlutskipti. Þá leyfði Keflavík honum ekki að skipta um félag þegar hann fékk tilboð frá öðru liði.
„Ég varð pirraður úti Keflavík, félagið sem ég elskaði út af lífinu og fannst það hafa brugðist mér,“ ritar Sindri og segir atburðarásina hafa bitnað virkilega á andlegri líðan hans. Á tímabili fannst honum allt vonlaust.
„Ég lét svona lítinn hlut breyta mér til hins verra eg fór að venja mig á slæma hluti, svo sem svefnvenjur og fór að borða illa og sýndi ekki jafn mikinn áhuga og áður. Auðvitað kom það bara í bakið á mér þar sem ég fór að standa mig illa á æfingum, spila illa með 2. flokk og fór að líða mjög illa utan fótboltans.
Engin tækifæri komu og allt í blússandi mínus og margir farnir að efast um mig, sjálfstraustið farið og ekkert gekk upp. Ég var að láta fólk út í bæ hafa áhrif á mig vegna þess að þeim fannst að ég ætti að vera í markinu sem var að sjálfsögðu bölvað kjaftæði þar sem ég átti ekki neitt skilið að vera í markinu.“
Sindri lýsir því einnig hvernig þjálfari hans, fjölskylda og umboðsmaður hafi farið yfir stöðuna með honum og gert honum grein fyrir hvernig best værir fyrir hann að taka á málunum. „Mér var gerð fyllilega grein fyrir því að ef ég ætlaði að halda áfram í þessu sporti þá þyrfti að gefa miklu meira púður í þetta.“
Sindri vonast til þess að frásögn hans verði hvatning fyrir aðra sem eiga erfitt með að sjá ljósið í myrkinu.
„Sama hversu illa þér gengur eða vonlaus þér finnst þú vera haltu áfram, sama hversu ömurlega þér gengur á æfingu eða hversu illa þessi vika, mánuður eða ár hefur gengið drullastu á lappir og haltu áfram. Ef þú ert ekki á réttri braut þá er tímabært að fara á rétta braut og fara að hugsa vel um sig. Ekki hlusta á það sem einhver úti í bæ segir eða bara það sem þig langar til að heyra.“
Hér má lesa pistil Sindra í heild sinni.