Vandar Séð og heyrt ekki kveðjurnar
„Ja hérna hér. Það var verið að benda mér á að Séð og Heyrt hefði í dag ákveðið, á forsíðu, að slíta sambandi mínu og gera mig einhleypan. Svo skrifar Kristinn Hrafnsson, talsmaður Wikileaks og fyrrverandi fréttamaður, á Facebook.
Á forsíðu blaðsins er mynd af Kristni þar sem segir: „Aftur einn“.
Kristinn segir að þetta hafi verið talsverðar fréttir fyrir sig og kærustu hans Gígju Skúladóttur. Hann, sem hefur um árabil haft það að atvinnu sinni að sannreyna upplýsingar, segir að auðvelt hefði verið að komast að hinu sanna. „Ef blaðið hefði aðeins vandað heimildarvinnuna og lagst í smávægilegar rannsóknir, t.d. hringt í mig, hefði það ekki gert sjálft sig að þessu ótrúlega rusli, enn eina ferðina.“
Hann segist þó hafa þykkan skráp: „En svona óðgeðslegheit geta verið særandi fyrir aðra sem málið varðar. Kappið og sóknin eftir aumustu lágkúru er yfirgengileg.“