Tveir menn létust í flugslysi suðvestur af Hafnarfirði þann 12. nóvember í fyrra. Mennirnir hétu Hjalti Már Baldursson og Haukur Freyr Agnarsson. Þeir flugu lítilli kennsluflugvél og fór hún niður á milli Keilis og Hafnarfjarðar. Haukur Freyr var búsettur í Garðabæ. Hann var ógiftur og barnlaus. Hjalti Már lét eftir sig eiginkonu og tvö börn. Eiginkona Hjalta, Anna Ýr Böðvarsdóttir var ólétt af þeirra þriðja barni þegar hann lést.
„Við erum öll harmi slegin,“ sagði Bryndís Ásta Böðvarsdóttir mágkona Hjalta Más Baldurssonar þegar DV fjallaði um söfnun fyrir eiginkonu Hjalta og börn þeirra. Ljóst var að erfiðir tímar væru framundan fyrir fjölskylduna. Við það tækifæri sagði Bryndís að fjölskyldan væri þakklát fyrir einstaka samúð og samkennd sem þau hefðu mætt, jafnvel frá bláókunnugu fólki. „Ég held að þetta hafi eitthvað með það að gera hvað við Íslendingar erum fámenn þjóð. Við höfum fengið ótrúlega fallegar kveðjur alls staðar að.“
Nú er liðið ár frá því að Hjalti féll frá á sviplegan hátt, langt fyrir aldur fram, en hann var fæddur árið 1980. Vinir Hjalta standa fyrir minningartónleikum í Háskólabíó þann 12. nóvember klukkan 21. Miðaverð er 3.000 kr og rennur ágóðinn til barna Hjalta.
„Hjalti var góður félagi, samstarfsmaður, vinur og bassaleikari í Föxunum,“ segir í tilkynningu frá skipuleggjendum.
Fram koma Sniglabandið, ásamt Sigríði Thorlacius, Sigurði Guðmundssyni og Helgu Möller, leikur lög eftir hljómsveit Hjalta, Faxana, í bland við aðrar perlur!
Fjölmennum í Háskólabíó og heiðrum minningu um góðan vin og mikinn dáðadreng sem hrifsaður var úr hringiðu lífs síns alltof snemma.