Vilhjálmur með stigahæsta orðið – Hildur það dónalegasta
Íslandsmótið í Skrafli fór fram nú um helgina í bókasafni Menntaskólans í Reykjavík. Sautján þátttakendur mættu til leiks og spilaðar voru tíu umferðir.
Úrslit réðust í síðustu umferð og spiluðu Gísli Ásgeirsson og Hildur Lilliendahl úrslitaleikinn. Gísli sigraði 455 – 366 og munaði þar miklu um sjöstafa-niðurlögnina KANKAÐU. Við það féll Hildur niður í þriðja sætið og Benedikt G. Waage tók annað sætið. Þetta kemur fram í skeyti fá aðstandendum mótsins, Skraflfélagi Íslands.
Efstu fimm voru eftirfarandi:
Gísli Ásgeirsson (7 sigrar – 3 töp; markatala +824)
Benedikt G. Waage (7 sigrar – 3 töp; markatala +226)
Hildur Lilliendahl Viggósdóttir (7 sigrar – 3 töp; markatala +187)
Una Björg Jóhannesdóttur (7 sigrar – 3 töp; markatala -37)
Steinþór Sigurðsson (6 sigrar – 4 töp; markatala +456)
Gísli Ásgeirsson átti flestar sjöstafa-niðurlagnirnar, alls nítján talsins. Hann átti líka hæsta leikinn 660 stig. Vafasömustu niðurlögnina átti Vilhjálmur Þorsteinsson, en hann lagði niður orðið HÓTGIRNI – en það var einnig stigahæsta orð mótsins 116 stig.
Úr vöndu var að ráða þegar dónalegasta orðið var verðlaunað. Tveir leikmenn lögðu niður orðið NÁRIÐILL en það var talið á mörkum þess að vera dónalegt eða hreinlega ógeðslegt. Að lokum var ákveðið að verðlauna Hildi fyrir ákveðinn stöðugleika í niðurlögnum á dónaorðum. Hún lagði orðin MELLA og HÓRa niður í næstsíðasta leik sínum og fylgdi því svo á eftir með orðunum SKUÐ og BELLI í úrslitaviðureigninni.