Leikkonan Natalie Portman þykir sýna frábæran leik í myndinni Jackie en þar er sagt frá lífi Jacqueline Kennedy í Hvíta húsinu eftir að eiginmaður hennar var myrtur. Myndin hefur þegar verið sýnd á kvikmyndahátíðunum í Feneyjum og Toronto. Þeir sem séð hafa myndina bera mikið lof á Portman sem þykir afar trúverðug í hlutverki forsetafrúarinnar. Nokkuð öruggt er talið að hún muni verða tilnefnd til Óskarsverðlauna fyrir leik sinn og einhverjir veðja á að hún muni vinna til verðlaunanna. Portman hlaut Óskarinn fyrir leik sinn í The Black Swan árið 2011.
Jackie verður frumsýnd í Bandaríkjunum í byrjun desember. Myndin er sögð frá sjónarhóli Jackie, eins og forsetafrúin var kölluð, sem ræðir við blaðamann um líf sitt. Leikstjóri myndarinnar er Pablo Larrain Matte.
John og Jackie Kennedy hafa verið viðfangsefni í kvikmyndum og sjónvarpsþáttum en gagnrýnendur eru sammála um að þar hafi ekki tekist jafn vel og í Jackie. Gagnrýnendur eru hjartanlega sammála um stjörnuleik Portman en hrósa einnig kvikmyndatöku, búningum, tónlist, förðun og hárgreiðslu.