fbpx
Þriðjudagur 16.ágúst 2022
Fókus

Komdu – nei farðu!

– tengslaröskun sem orsakast af ótta og hvernig sumir þrá og forðast náin sambönd á sama tíma.

Margrét Gústavsdóttir
Laugardaginn 27. janúar 2018 21:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Ímyndaðu þér að dreyma um að komast í gott og náið ástarsamband og binda enda á einmanaleika sem hefur truflað þig, jafnvel árum saman. Eftir átján Tinder-deit gerist það svo einn daginn að þú rekst á hina einu réttu og allt smellur bara! Þér finnst þú virkilega hafa höndlað hamingjuna, enda varstu að finna sálufélagann.

Svo líða nokkrir mánuðir og sambandið er í himnalagi þar til einn daginn að hann/hún horfir í augun á þér, segist elska þig og langa að vera með þér þar til þið verðið bæði gömul. Þá flæðir óttinn að eins og svartur sjór og þér finnst eins og þú munir hreinlega drukkna í þessari skuldbindingu. Saman að eilífu?! Ó nei!

Þú gerir þitt besta til að láta eins og allt sé í góðu en auðvitað er ekki hægt að leyna kvíðanum endalaust enda ertu farinn að haga þér undarlega bæði í orði og á borði. Þá flækirðu málin enn meira með því að reyna að útskýra þetta allt saman en auðvitað geturðu það ekki með góðu móti enda varstu yfir þig ástfanginn skömmu áður og því engin raunveruleg skýring á því hvað gerðist.

Í þessari misheppnuðu viðleitni til að útskýra það sem þú getur ekki einu sinni skilið virkar þú eins og tilfinningalegur þurfalingur í andlegu ójafnvægi og eftir því sem þér líður verr og verr byrjar nýi „sálufélaginn“ byrjar að draga sig til baka enda lofar stemningin ekki góðu framhaldi á þessu sambandi.

Næstu vikurnar versnar ástandið og smátt og smátt og á endanum fer allt í hnút. Þegar sambandið slitnar svo í sundur þá þyrmir algjörlega yfir þig og þú hugsar, eina ferðina enn:

„Hvað í fjandanum gerðist hérna!?“

Athugaðu líka að ógnandi hegðun foreldra þarf ekki endilega að vera ógnandi í hefðbundinni merkingu orðsins því foreldri sem er illa haldið af þunglyndi, andlega vanheilt eða tilfinningalega dofið getur líka valdið barninu kvíða og ótta ef það veit að það mun hvorki fá huggun, vernd eða öryggi frá þeim sem ættu fyrst og fremst að veita það.
Vanræksla er ofbeldi Athugaðu líka að ógnandi hegðun foreldra þarf ekki endilega að vera ógnandi í hefðbundinni merkingu orðsins því foreldri sem er illa haldið af þunglyndi, andlega vanheilt eða tilfinningalega dofið getur líka valdið barninu kvíða og ótta ef það veit að það mun hvorki fá huggun, vernd eða öryggi frá þeim sem ættu fyrst og fremst að veita það.

Varnarmúrinn sem heldur þér frá öðru fólki

Ef þú kannast við þessar lýsingar eru töluverðar líkur á að tilfinningalegu varnirnar þínar séu úr lagi gengnar og þú haldinn því sem á fagmálinu kallast tengslaröskun en orsökina má iðulega rekja til áfalls eða áfalla sem fólk verður fyrir í bernsku. Í þessari grein er fjallað um tengslaröskun sem grundvallast á ótta en á ensku kallast hún fearful-avoidant.
Áföllin geta valdið því að fólk þróar með sér varnarkerfi, sem heldur ætti að kalla varnarmúr, því stundum veldur hann einfaldlega félagslegri einangrun. Manneskja sem forðast tilfinningalega nánd með þessum hætti les minnstu boð og merki frá öðru fólki sem einhvers konar aðsteðjandi ógn og bregst við með því að draga sig í hlé, ögra og fæla fólk í burtu eða slíta tengslin án málalenginga.

Vörnin tekur hvorki tillit til rökhugsunar, né þarfa viðkomandi sem fullorðinnar manneskju, fyrir ást og kærleika. Varnarmekkanisminn reiknar nefnilega út að það sé farsælla fyrir viðkomandi að vera dapur og einmana, og um leið örugg/ur, en að liggja í sárum út af tengslamyndun við annað fólk.

Brennt barn forðast eldinn

Sálfræðikenningar um tengslamyndun hafa varpað ljósi á hvernig þetta ferli fer af stað en eins og fyrr segir má rekja upptök tengslaröskunar til barnæsku. Þetta getur gerst með ýmsum hætti. Til dæmis ef barn upplifir of langan aðskilnað frá móður sinni eða annarri forráðamanneskju sem á að vera uppspretta öryggis og huggunar. Þá getur afleiðingin orðið sú að sársaukinn og kvíðinn verður til þess að barnið forðast að koma nálægðinni á aftur. Eða eins og máltækið segir: Brennt barn forðast eldinn.

Tengslaröskun myndast einnig þegar manneskjan (foreldri eða forráðamaður) sem barnið leitar verndar og huggunar frá, ógnar barninu. Öskrar eða leggur jafnvel hendur á á það. Þá verður hinn svokallaði verndari jafn ógnvekjandi, og jafnvel hræðilegri, en ógnin sem barnið reyndi í fyrstu að forða sér frá. Börn sem alast upp við slíkar aðstæður verða þannig ofurnæm á boð eða merki um að ógn eða höfnun sé yfirvofandi og upp úr því forðast þau að upplifa tilfinningalega nánd, án þess að gera sér almennilega grein fyrir því.

Ógnandi framkoma og/eða vanræksla foreldranna getur þannig orðið til þess að barnið gefst upp á því að reyna að mynda tengsl, – fyrst við foreldra sína og síðar annað fólk, jafnvel þótt það þrái ekkert heitar. Eða eins og segir í fyrirsögninni: Komdu, nei farðu!

Syndir feðranna

Í mörgum tilfellum er löng saga á bak við það að fólk kemur út úr uppeldi sínu með tengslaröskun af þessu tagi; syndir feðranna ef svo mætti að orði komast.
Foreldri, sem sjálft er „fearful-avoidant“ og hefur verið beitt ofbeldi í æsku (og oft á fullorðinsárum líka) getur sjaldan sefað lítið barn eða veitt því huggun með góðu móti. Jafnvel eigin börnum ef áföllin voru því alvarlegri.
Á fullorðinsárum þrá „fearful-avoidant“ manneskjur að tilheyra og upplifa nánd við annað fólk en líður svo skyndilega mjög illa þegar nándin verður „of mikil“. Yfirleitt gerir viðkomandi sér enga grein fyrir eigin hegðun, né því að orsakir vandamála hans í starfi og einkalífi megi rekja beint til þess hvernig hann les aðsteðjandi ógn frá minnstu merkjum og bregst við samkvæmt því þótt ógnin eigi ekki við nein rök að styðjast.

Stundum líður fólki með tengslaröskun eins og það sé bæði vanmetið og misskilið af öðrum og þá sérstaklega þegar það á eftir að læra að leggja mat á eigin hegðun og átta sig á því að það er vanalega fyrst til að ögra og síðar hafna nándinni og skuldbindingunni sem stóð þeim jafnvel alltaf til boða.

Það er í rauninni ekkert að þér

Ef þér, lesandi góður, finnst þessar lýsingar hljóma kunnuglega, og jafnvel óþægilega, þá máttu vita að það er ekkert óeðlilegt við þig, enda þróuðust þessi varnarviðbrögð sem eðlileg afleiðing af streitu og álagi sem þú varðst fyrir í æsku.

Ef manneskjan sem þú áttir að geta treyst í blindni lagði hendur á þig og beitti þig miklu ofbeldi kann áfallið sem þú varðst fyrir að hafa verið mjög stórt (e. big „T“ trauma) og ef það var öskrað á þig eða þér sýnd ógnandi framkoma gæti það hafa verið minna (e. little „t“ trauma) og afleiðingarnar eru vanalega samkvæmt því.
Athugaðu líka að ógnandi hegðun foreldra þarf ekki endilega að vera ógnandi í hefðbundinni merkingu orðsins því foreldri sem er illa haldið af þunglyndi, andlega vanheilt eða tilfinningalega dofið getur líka valdið barninu kvíða og ótta ef það veit að það mun hvorki fá huggun, vernd eða öryggi frá þeim sem ættu fyrst og fremst að veita það. Þegar foreldrar hlusta ekki á börnin sín, gera lítið úr tilfinningum þeirra eða forðast að eiga við þau samskipti öðruvísi en í boðhætti geta börnin orðið af tækifærinu til að þroskast eðlilega á tilfinningasviðinu, hafa stjórn á og/eða skynja eigin tilfinningar og þar með viðhalda tengslum og heilbrigðum samböndum í framtíðinni.

Góðar leiðir til að bæta úr áhrifum tengslaröskunar

Fyrsta skrefið til að líða betur og eiga í farsælli samböndum er að skilja orsakirnar sem urðu þess valdandi að þér finnst þú stundum alveg stórskrítin/n í samböndum.

Um leið og þú áttar þig á stóra samhenginu getur þú byrjað að lifa samkvæmt þeim ásetningi að láta erfiðleikana í æsku ekki koma í veg fyrir að þú getir verið hamingjusöm eða hamingjusamur sem fullorðinn einstaklingur.

Með þetta að leiðarljósi er gott að hafa eftirfarandi atriði í huga:

• Áttaðu þig á því að tilfinningarnar sem þú upplifir gefa mögulega alls ekki raunsæja mynd af því sem er að gerast í sambandi þínu. Óttinn hefur jafnvel ekkert að gera með vin þinn eða manninn eða konuna sem þú ert hrifin/n af því oft virkar framkoma þeirra á þig sem einhvers konar „trigger“ eða kveikja. Með öðrum orðum, tilfinningaleg áminning um það sem kom fyrir þig í æsku.

• Leitaðu aðstoðar frá fagaðila sem getur leiðbeint þér og hjálpað þér markvisst að auka eigin lífsgæði.

•Prófaðu að sækja fundi fyrir meðvirka (C.O.D.A eða ACAA) þar sem þú getur talað um tilfinningar þínar og upplifun án þess að óttast höfnun og vera með fólki sem veit og skilur hvað þú ert og hefur gengið í gegnum.

• Teldu alltaf upp að tíu, og jafnvel þúsund, ef þú upplifir mjög sterk tilfinningaviðbrögð, bæði góð og slæm. Vertu viss um að hafa allar staðreyndir á hreinu áður og náðu andlegu jafnvægi áður en þú gerir eitthvað í málunum. Taktu alltaf þinn tíma.

• Lærðu að setja þér og öðrum heilbrigð mörk. Sennilega var enginn sem kenndi þér þetta þegar þú varst krakki svo gefðu þér tíma til að átta þig á hvað þú vilt fá út úr ástarsambandinu þínu og reyndu svo að tjá þessar hugsanir án þess að vera í vörn eða með ásakanir. Mundu samt að það er á þína ábyrgð að láta þér sjálfri eða sjálfum líða vel og hvorki rétt né sanngjarnt að koma því verkefni yfir á aðra.

• Ekki deila of miklu óöryggi eða romsa upp úr þér ævisögunni fyrr en þú veist að manneskjan sem þú ert að deila þessu með er „örugg“. Ef þú berskjaldar þig of mikið eða of fljótt er hætt við að kvíðinn sem fylgir í kjölfarið hvetji þig til að leggja á flótta og slíta sambandinu. Lækkaðu varnirnar smátt og smátt eftir því sem þú treystir viðkomandi betur.

• Reyndu að æfa þig í að standa á þínu án þess að stinga alltaf af og miðaðu að því að samböndin sem þú átt í geti fengið farsælan endi þó eðli þeirra breytist.

• Um leið og þú byrjar að upplifa kvíða þegar kemur að vina- eða ástarsamböndum og langar helst til að slíta þeim skaltu prófa að hlusta aðeins á tilfinningar þínar og neita að rjúka í burtu (að sjálfsögðu áttu samt ekki að sætta þig við ofbeldi af neinu tagi).

• Þegar einhver segir þér að sér þyki vænt um þig þá skaltu pína þig til að taka við hrósinu eða þessum fallegu orðum og minna þig á að með því að leyfa öðrum að tjá hlýjar tilfinningar ertu að gefa þeim eitthvað í staðinn.

• Að síðustu skaltu reyna að halda sambandið út þar til því er lokið og hafa í huga að ekkert samband varir að eilífu. Þau koma og fara líkt og flóð og fjara og þegar tími sambandsins er liðinn skaltu hlusta á hina manneskjuna, segja það sem þér býr í brjósti, og leyfa þeim svo að fara án eftirsjár enda er önnur manneskja sem þú getur alltaf elskað og það ert þú sjálf.

Prófraunir framundan en fallegt samband ef vel tekst til

Ef þú lest þetta og veltir því fyrir þér hvort þú þekkir einhvern sem er svona, er gott að minna á að stundum getur tekið svolítinn tíma fyrir þessi einkenni tengslaröskunar að skjóta upp kollinum.
Oftast þarf að komast í smá nánd við manneskjuna áður en hún sýnir þér þessar hliðar og hafðu einnig í huga að viðkomandi gæti orðið mjög ringlaður, óskipulagður og ósáttur ef ytra öryggi hans er ógnað, t.d. ef heilsa eða starf eru í húfi.

Þá er einnig gott að hafa hugfast að jafnvel þótt þú hafir búið við tilfinningalegt öryggi í æsku gætu eiginleikar þínir til að mynda heilbrigð tilfinningatengsl laskast ef þú átt í langvarandi alvarlegu ofbeldissambandi, upplifir slys, dauða eða önnur alvarleg áföll.

Ef þú ert í sambandi við einhvern sem hefur þessi einkenni, reyndu þá að sýna viðkomandi þolinmæði og gerðu þér jafnframt grein fyrir því að það er ekki á þínu valdi að lina allan þann andlega sársauka sem viðkomandi býr við.
Þú getur hins vegar verið til staðar og sýnt bæði alúð og stuðning meðan viðkomandi vinnur í sínum málum og nær betri tökum á eigin tilfinningalífi. Ef þú hefur áhuga á því að halda sambandinu áfram máttu búast við því að hún/hann láti reyna á þol þitt með því að hegða sér með neikvæðum hætti eða segja hluti sem hún/hann sér yfirleitt eftir. Þetta gerir hún/hann til að athuga hvort þú munir hafna sér eða særa því þegar öllu er á botninn hvolft þá hefur reynslan einmitt kennt henni/honum það.

Ef þú hins vegar gerir þér grein fyrir því hvað er raunverulega að gerast og tekur hegðuninni eins og hún er (og ekki of persónulega þótt það sé vissulega erfitt) þá eru góðar líkur á því að framkoma viðkomandi muni fljótlega breytast til hins betra, – og ef rétt er staðið að málum þá gæti farsælt og fallegt samband verið framundan.

Þýtt og endursagt úr tímaritinu Psychology Today. Höf: Hal Shorey.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt