fbpx
Laugardagur 09.desember 2023
Fókus

Varð ólétt, lagði frá sér hamarinn, lærði félagsráðgjöf og fór að vinna við Game of Thrones

Kvikmyndaframleiðandinn, félagsráðgjafinn, húsasmiðurinn og bassaleikarinn Kidda rokk í krassandi viðtali

Margrét Gústavsdóttir
Föstudaginn 26. janúar 2018 06:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Bassaleikari, húsgagnasmiður, félagsráðgjafi og kvikmyndaframleiðandi. Þær eru ekki margar miðaldra konurnar sem hafa átt jafn viðburðaríkan starfsferil og Kristín Þórhalla Þórisdóttir, eða Kidda rokk eins og hún er kölluð.

Margrét Gústavsdóttir brunaði upp í Saga Film ásamt Brynju ljósmyndara og fékk að forvitnast um lífshlaup þessarar kraftmiklu konu sem, líkt og stígvélaður köttur, hefur alltaf farið sínar eigin leiðir og stundum tekið skrítna króka.

Hvaðan kemur viðurnefnið rokk?

„Sko. Það er mjög mikilvægt að það komi fram að ég valdi ekki nafnið sjálf heldur var mér gefið það af vinkonu minni, Svönu Gísladóttur. Nýfermdar ákváðum við að stofna rokkhljómsveitina Ástmeyjar Hamlets og tókum í kjölfarið Akraborgina til Reykjavíkur til að kaupa hljóðfæri. Það voru einhverjir strákar búnir að ýja að því að við gætum ekkert verið í hljómsveit og auðvitað vorum við ekkert til í að samþykkja það. Um leið og við komum til Reykjavíkur rukum við í verslunina Rín en þar keypti ég flottasta svarta rafmagnsgítarinn sem ég sá og magnara. Svo drösluðumst við með þetta upp á Skaga og byrjuðum að æfa á fullu,“ segir Kidda og hlær.

„Daginn eftir var ég allt í einu orðin Kidda rokk en viðurnefnið kom beint frá Svönu sem starfar sem mjög flottur kvikmyndaframleiðandi í London í dag. Við, litlu nýfermdu femínistarnir, vorum sko fljótar að finna út úr því að við skyldum ekki láta einhverja stráka segja okkur hvort við gætum gert eitthvað eða ekki. Þannig var það þá og þannig er það enn.“

„Ég átti mjög erfitt með einbeitingu þegar ég var krakki og átti því ekkert sérstaklega farsæla skólagöngu. Hélt jafnvel að ég gæti ekkert lært.“

Hún bætir við að hún hafi oft velt því fyrir sér hvort hún ætti að reyna að hrista nafnið af sér.

„Sérstaklega þegar ég var að verða fertug. Þá var ég í svona nafnakrísu: „Er ég miðaldra konan Kidda rokk? Hvað er eiginlega að frétta? Gengur það? En svo gafst ég bara upp á að reyna að berjast eitthvað á móti þessu enda þekkir mig enginn undir mínu rétta nafni sem er Kristín Þórhalla Þórisdóttir.“

„Ég hef reyndar alltaf verið félagslega farsæl í þessu lífi“

Kidda er dóttir þeirra Þóris Þórhallssonar heimilislæknis og Sólveigar Stefaníu Kristinsdóttur, hjúkrunarfræðings og ljósmóður, frá Dröngum í Árneshreppi. Hún fæddist í Reykjavík í janúar 1974 en flutti svo meðal annars til Vestmannaeyja og síðar til Gautaborgar í Svíþjóð meðan faðir hennar var í starfsnámi.
Árið 1977 eignaðist sú stutta litla systur, Jóhönnu Guðmundu, en þær Kidda hafa alltaf verið mjög samrýndar og miklar vinkonur. Þegar framtíðarrokkarinn var átta ára sneri fjölskyldan svo aftur til fósturjarðarinnar, nánar tiltekið á Akranes og stóra verkefnið hennar var að vera samþykkt inn í krakkahópinn sem var þar fyrir.

„Ég hef reyndar alltaf verið félagslega farsæl í þessu lífi og er þakklát fyrir það. Það tók reyndar alveg smá tíma fyrir mig að komast inn í hópinn en á endanum hafðist það. Við höldum meira að segja enn hópinn og hittumst alltaf reglulega, þótt það mætti auðvitað vera oftar svona eins og gengur,“ segir hún en að grunnskólanáminu loknu byrjaði Kidda ásamt mörgum félögum sínum í Fjölbrautaskóla Vesturlands en hætti þegar aðdráttarafl höfuðborgarinnar togaði hana endanlega til sín enda var þorpspían af Skaganum aðeins öðruvísi innréttuð en vinkonur hennar úr grunnskóla. Að minnsta kosti þegar kom að ástamálum.

Lokaði hressilega á tilfinningar sínar

Kidda segist hafa verið í kringum fjórtán ára þegar hún byrjaði smátt og smátt að átta sig á því að hormónatengdu tilfinningarnar sem bærðust innra með henni voru ekki beint eins og hjá hinum unglingsstelpunum. Með öðrum orðum varð Kidda skotin í stelpum en ekki strákum.

„Ég lokaði hressilega á þetta til að byrja með. Fann samt innst inni að ég varð einhvern veginn skotin í sumum vinkonum mínum. Ég gerði mér samt aldrei almennilega grein fyrir því hvað var að gerast og við það myndaðist tómarúm innra með mér sem var erfitt að eiga við. Fram að átján ára aldri setti ég aldrei sjálfa mig í neitt samhengi við ástamál og var þannig ekkert eins og hinir krakkarnir. Jú, ég kyssti reyndar einn góðan vin minn, en ég átti aldrei kærasta eða neina svoleiðis reynslu sem unglingur. Það var ekki fyrr en ég byrjaði að fara til Reykjavíkur og sækja skemmtistaðinn 22 á Laugavegi að ég skildi þetta betur. Þar hitti ég til dæmis fyrstu stelpuna sem ég svaf hjá og þá rann það endanlega upp fyrir mér að ég væri lesbía,“ segir Kidda sem pakkaði fljótlega saman og flutti alfarið úr foreldrahúsum eftir þetta til að búa í Reykjavík sem í þá daga var ekki beint menningarlega fjölskrúðug borg en þó öllu skrautlegri en Akranes.

Hún leigði sér íbúð við Baldursgötu, fékk vinnu á elliheimili, fór á hljómsveitaræfingar og hékk þess á milli á Café Au Lait í Hafnarstræti með vinum sínum.

„Þú ert samkynhneigð, en vittu að við pabbi þinn elskum þig bara alveg eins og þú ert.“

„Þegar ég lít um öxl þá sé ég að ég var alltaf einhvern veginn að reyna að finna mína fjöl í lífinu og ég held að þetta rótleysi hafi að mörgu leyti orsakast af því hvað ég var lengi að gangast við kynhneigð minni. Eins og fyrr segir var ég átján ára þegar ég var fyrst með konu. Samt gekkst ég ekki alveg við sjálfri mér og alltaf eitthvað að reyna að eiga kærasta áfram, – sem gekk auðvitað ekki vel. Það var svo ekki fyrr en ég orðin tvítug að við systir mín fórum saman í tímamótaferð upp á Skaga til að ég gæti komið út úr skápnum gagnvart foreldrum okkar,“ segir Kidda en systir hennar var sú allra fyrsta til að fá að vita þetta og ekki leið á löngu þar til fleiri frjálslyndir vinir og félagar bættust í hópinn.

„Ég man hvernig við systurnar sátum ásamt félögum okkar inni á Café au Lait og allir voru allt í einu byrjaðir að peppa mig upp í að fara upp á Skaga og segja frá þessu. Á endanum var ekkert annað í stöðunni en að stökkva upp í Akraborgina og rumpa þessu verkefni af,“ segir hún og lýsir því hvernig hún reyndi að herða sig upp með því að fara yfir orðin í huganum: „Ég ætla bara að segja þér þetta mamma … Ég er lesbía!“

Við Jóhanna gengum inn um dyrnar heima hjá foreldrum okkar og ég var alveg klár í slaginn þegar mamma, sem var að undirbúa eitthvert boð, lítur upp, horfir blíðlega á mig og segir:

„Kristín mín. Ég veit alveg hvað þú ert að fara að segja mér. Þú ert samkynhneigð, en vittu að við pabbi þinn elskum þig bara alveg eins og þú ert.“

Upp frá þessu sýndu þau mér mjög mikinn stuðning. Voru fremst í öllum Gleðigöngum með fánana og bara alveg til fyrirmyndar. Ég á hins vegar marga vini sem áttu því miður ekki eins góða reynslu. Var jafnvel hafnað af foreldrum sínum til lengri eða skemmri tíma,“ segir hún alvarleg í bragði en bætir við að í dag sé þetta allt annar heimur.
„Árið 1997 máttu til dæmis samkynhneigðir fyrst skrá sig í sambúð og síðan höfum við smátt og smátt öðlast sama rétt og aðrir. Lífið í dag er í sjálfu sér ekkert sambærilegt við það sem við þekktum á þessum árum þótt enn votti sums staðar fyrir smá fordómum þá er ekki hægt að bera þetta saman.“

„Við, litlu nýfermdu femínistarnir, vorum sko fljótar að finna út úr því að við skyldum ekki láta einhverja stráka segja okkur hvort við gætum gert eitthvað eða ekki.“

Gafst upp á að slá í gegn það í London og kom aftur heim til Íslands

Kidda starfaði sem bassaleikari með hljómsveitinni Bellatrix í nokkur ár en hljómsveitin gat sér gott orð á tíunda áratug síðustu aldar og var nokkuð vinsæl. Þær fluttu saman til London, fengu sér umboðsmann og ætluðu að slá í gegn í útlöndum svona eins og Íslendinga er siður. Spiluðu þær meðal annars með Coldplay og fleiri hljómsveitum og upplifðu ótal góðar stundir en allt hefur sinn tíma og einn daginn þótti Kiddu tímabært að snúa aftur heim. Plötufyrirtækið farið á hausinn og hljómsveitin að flosna upp enda meðlimir hennar orðnir hálf þreyttir og lúnir.
„Umboðsmaðurinn minn, Anna Hildur Hildibrandsdóttir, var búinn að redda mér vinnu sem „session“-leikara með breskri hljómsveit en ég hafði ekki mikinn áhuga á því. Var satt að segja eitthvað hálfniðurbrotin þarna úti í London í kringum aldamótin. Í þessu ástandi hringdi ég í Garúnu vinkonu mína sem stappaði í mig stálinu og sagði snaggaralega „Kidda, komdu bara heim. Ég næ í þig á flugvöllinn og redda þér vinnu. Ég lofa þér að þetta verður allt í lagi.“
Ég tók hana á orðinu, fór aftur heim til Íslands og byrjaði að vinna í kvikmyndabransanum með Garúnu sem starfar enn sem aðstoðarleikstjóri og hefur gert um árabil.“

Kidda starfaði í kvikmyndabransanum og sem tónlistarmaður í nokkur ár en með aldrinum fór henni að leiðast óöryggið. Ekki einungis var verkefnastaðan í kvikmyndabransanum flöktandi á árunum fyrir hrun, heldur reyndist sumum jafnvel erfitt að fá greitt eftir að verkefnunum var lokið. Skiljanlega þráði hún festu og meira fjárhagslegt öryggi og á sama tíma langaði hana líka til að mennta sig meira og styrkja þannig reynsluna sem hún hafði öðlast í þessu starfi, sem hún segist alltaf hafa fílað í botn.

„Ég get ekki sagt að ég hafi verið mikið í uppsteypu“

Eftir að hafa pælt í næstu skrefum og skoðað vandlega hvaða þekking gæti reynst góð viðbót skráði Kidda sig í húsgagnasmíði í Iðnskólanum í Reykjavík og lauk síðar sveinsprófi með ágætum. Í kjölfarið starfaði hún sem húsasmiður í um tvö ár, aðallega í innanhússmíði og við nýbyggingar. Spurð að því hvort þessi heimur hafi ekki verið karllægur segir hún að vissulega hafi svo verið en að húsasmíðameistarinn sem hún starfaði fyrir hafi verið mjög jafnréttissinnaður og því hafi hún lítið fundið fyrir mismunun, að minnsta kosti frá vinnufélögunum. Svo var hún ekki eina stelpan sem hann hafði undir sínum væng heldur voru þær þrjár á einu tímabili sem störfuðu sem smiðir eða smíðanemar hjá fyrirtækinu. Hvað karlamenninguna varðar segir hún að stemningin á kaffistofunni hafi oft verið mjög umbúðalaus. Samskiptin hafi verið blátt áfram og gagnsæ og þannig lagað mjög hressandi.

„Það er oft í þessu ósagða sem fólk á erfitt með að staðsetja sig. Það myndast einhver svona hræsni í andrúmsloftinu en þegar fólk þorir að tala opinskátt og segja sinn hug þá virkar það oft hressandi á mann. Þetta „passive aggressiveness“ er svo óþolandi í samskiptum. Starfið fannst mér líka mjög skemmtilegt. Við vorum mikið að setja upp gipsveggi, innréttingar og þess háttar en líka utanhússklæðningar. Ég get ekki sagt að ég hafi verið mikið í uppsteypu. Veit bara sirka hvernig það er gert, hef steypt grunn til dæmis, en ég þekki þennan hluta starfsins ekki nógu vel til að ég geti bara hent mér í að steypa eina blokk frá grunni. Ég var meira svona innismiður,“ útskýrir Kidda með tilheyrandi handahreyfingum en undir það síðasta starfaði hún að mestu sjálfstætt sem húsasmiður fyrir bæði einstaklinga og fyrirtæki og kvartaði aldrei undan verkefnaskorti enda allt í blússandi góðæri.

Varð ólétt, lagði frá sér hamarinn, lærði félagsráðgjöf og fór að vinna við Game of Thrones

Á því herrans ári 2007 varð Kidda barnshafandi að eldri syni sínum, Þóri Sólbjarti. Þá hafði hún verið í sambandi í nokkur ár og fannst kominn tími til að stækka fjölskylduna. Með aðstoð frá Art Medica varð hún ólétt að frumburðinum og svo aftur árið 2009 þegar sonurinn Ellert Orri kom undir. Eins og aðrar óléttar konur lagði hún frá sér hamarinn og hætti í vinnunni þegar leið á meðgönguna enda fæðingarorlof framundan.

Þótt allt hafi verið á fljúgandi siglingu fyrir hrun skipuðust veður fljótt í lofti og flestir vita hvernig staða iðnaðarmanna var haustið 2008. Aftur blasti fjárhagslegt óöryggi við svo Kidda afréð að nú væri tími til kominn að skrá sig í háskóla og aftur settist hún á skólabekk. Í þetta sinn varð félagsráðgjöf fyrir valinu og Kidda útskrifaðist úr því fagi árið 2010.
Hún segist oft hafa velt því fyrir sér hvers vegna það hafi tekið hana svo langan tíma að finna endanlega sína fjöl en eftir því sem aldurinn, og þroskinn hafi færst yfir sjái hún alltaf betur og betur að líklegast var athyglisbresti um að kenna.

„Ég átti mjög erfitt með einbeitingu þegar ég var krakki og átti því ekkert sérstaklega farsæla skólagöngu. Hélt jafnvel að ég gæti ekkert lært. Á þessum árum voru krakkar ekkert greindir með ADD eða ADHD, maður var bara þessi skapandi týpa – og þótt ég gæti lokið prófum þá hafði ég alltaf þessa hugmynd í kollinum að ég gæti ekkert farið í háskóla. Það væri bara fyrir aðra. Fyrir mér var háskólanámið því einhvers konar áskorun og ég lauk henni. Var einmitt búin með eitt ár á meistarastigi þegar aftur varð stórkostlegur viðsnúningur í lífinu. Ég fékk símtal frá framleiðslufyrirtækinu Pegasus og var boðin vinna við Game of Thrones sem ég þáði enda frábært verkefni. Í kjölfarið byrjaði ég aftur að vinna sem verktaki í kvikmyndabransanum; tók meðal annars þátt í verkefnum á borð við Fortitude 1 og 2, Ófærð, varð með í alls konar stórum auglýsingaverkefnum, inn- og erlendum og svo vann ég líka í Bretlandi við gerð þáttanna The Tunnel sem byggja á norrænu þáttunum Broen, svo fátt eitt sé nefnt,“ segir Kidda glöð í bragði.

„Þegar ég fékk fastráðninguna hjá Sagafilm fannst mér ferill minn sem framleiðandi taka stórt stökk fram á við. Ég hef staðsett mig betur og betur og öðlast framtíðarsýn sem framleiðandi en þar fyrir utan er þetta fyrirtæki stútfullt af hæfileikaríku og frábæru fólki og hreint út sagt frábær vinnustaður!“

Fann ástina í óvæntu konuboði

Það má segja að nú sé þessi 44 ára rokkari endanlega búinn að kasta akkerinu, skjóta rótum og finna fjölina sína. Hún sér fram á bjarta tíma í starfi og einkalífi enda blómstrar hvort tveggja sem aldrei fyrr.
Skömmu eftir að hafa skrifað undir samninginn við Sagafilm rataði ástin til hennar, einmitt þegar hún átti þess síst von. Sú heppna heitir Eva Björk Kaaber, er menntuð í sviðslistum og starfar jafnframt með leikhópnum Kviss Bang Búmm sem hefur gert góða hluti, meðal annars í Austur-Evrópu. Þær Kidda hittust í konuboði og þar stóðu örlögin tæpt því minnstu mátti muna að Kidda fengi ekki pössun þetta kvöld.

„Ég var sko alls ekki á leiðinni í samband og var ekkert að leita. Hafði verið skilin í fimm ár, átt í einu fjarsambandi í millitíðinni og var einhvern veginn mjög sátt við lífið eins og það var. Ég reiknaði ekkert með því að komast í þetta konu boð en þegar pabbi bauðst allt í einu til að passa þá ákvað ég að skella mér og þarna hitti ég hana Evu mína fyrst þannig að sem betur fer fór ég!“ segir hún og ljómar af gleði, enda yfir sig ástfangin.

„Í kjölfarið fórum við að tala saman á netinu og ég heillaðist upp úr skónum. Tveimur vikum síðar kom hún svo á deit til mín og það má segja að hún hafi ekkert farið heim eftir það, nema bara til að ná í krakkann,“ segir Kidda og skellir upp úr en þegar þær kynntust hafði Eva nýlokið fæðingarorlofi og átti tuttugu mánaða gamla dóttur, Guðrúnu Teódóru, sem nú er þriggja ára.

„Okkur líður báðum eins og við séum komnar heim enda erum við algjörir sálufélagar. Svo gerðist bara allt mjög hratt. Nú höfum við fest kaup á sætu einbýlishúsi saman og þar búum við ásamt börnum okkar í góðu yfirlæti. Það er eins og við Eva höfum alltaf átt að vera saman og það er satt að segja alveg ótrúlega góð tilfinning. Mér finnst ég heppnasta kona í heimi.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Í gær

Peaky Blinders-leikari er látinn – Lét til sín taka á ýmsum sviðum

Peaky Blinders-leikari er látinn – Lét til sín taka á ýmsum sviðum
Fókus
Í gær

Húsráðið sem breytir lífi þínu – Þú þarft aldrei að skafa frosnar bílrúður aftur

Húsráðið sem breytir lífi þínu – Þú þarft aldrei að skafa frosnar bílrúður aftur
Fókus
Í gær

Kyntákn hvíta tjaldsins átti sér dekkri hlið – „Ég vissi aldrei hvað myndi koma honum af stað“

Kyntákn hvíta tjaldsins átti sér dekkri hlið – „Ég vissi aldrei hvað myndi koma honum af stað“
Fókus
Í gær

Taylor Swift segir Kim Kardashian til syndanna – „Ég flutti til annars lands og fór ekki út úr húsi í ár“

Taylor Swift segir Kim Kardashian til syndanna – „Ég flutti til annars lands og fór ekki út úr húsi í ár“
Fókus
Fyrir 3 dögum

Áhorfendum hryllti við „sifjaspellatriði“ í nýju jólamynd Netflix

Áhorfendum hryllti við „sifjaspellatriði“ í nýju jólamynd Netflix
Fókus
Fyrir 3 dögum

Meghan sögð hafa talið sig eiga meiri rétt en Katrín á að láta í sér heyra

Meghan sögð hafa talið sig eiga meiri rétt en Katrín á að láta í sér heyra