Steffý og barnsfaðir hennar, Runólfur Bjarki, héldu nýverið upp á eins árs afmæli sonar síns, Þórðar Fannars. Það var mikil gleðistund fyrir litlu fjölskylduna en erfiðleikarnir á meðgöngunni vörpuðu vissulega skugga á reynsluna.
Steffý er gestur í Fókus, viðtalsþætti DV, þar sem hún fer ítarlega yfir þetta tímabil, hvernig það byrjaði og þróaðist. Hún deilir sinni upplifun og áhrifunum sem þetta hafði á hana. Hún þakkar sérstaklega Píeta samtökunum og Bjarkarhlíð fyrir hjálpina og stuðninginn.
Steffý segir að þetta hafi byrjað þegar kærasti hennar hafi stigið inn í og sett vinkonu sinni mörk eftir að Steffý varð ólétt. „Það endaði ekki vel. Hún hafði ekki fallega hluti að segja um mig og beindi síðan spjótum að honum. Þetta endaði með að hann lokaði á þessa vinkonu,“ segir hún.
Á sama tíma var Steffý að greinast með frumubreytingar, komin tíu vikur á leið, og náinn fjölskyldumeðlimur kærasta hennar að deyja.
„Við vorum líka að átta okkur á óléttunni og mikið í gangi. Í beinu framhaldi fæ ég ásökun að ég sé að beita hann andlegu ofbeldi. Við fórum til sálfræðings [til að ræða þetta] og það var ekki staðan,“ segir Steffý. Parið lagði öll spilin á borðið og niðurstaðan sú að ekkert ofbeldi væri til staðar.
Steffý segir að um hafi verið að ræða þeirra fyrstu sambandsörðugleika sem þeim tókst síðan að greiða úr, en áreitið hélt áfram og yfir margra mánaða skeið fékk hún að heyra mikið af ljótum hlutum um sig, hvernig manneskju hún hafði að geyma og erfitt var að heyra kjaftasögu um að hún hafi lagt kærasta sinn í barnagildru.
Barnagildra, eða „baby trap“, er slangur sem vísar til aðstæðna þar sem móðir verður viljandi ólétt, án vitundar föðurs, með það markmið að „festa“ hinn aðilann í sambandi. Steffý segir að það hafi verið sérstaklega sárt að vera sökuð um slíkt.
Steffy ræðir þetta tímabil nánar í þættinum, en það endaði með því að Steffý og kærasti hennar fóru til lögreglunnar. „Við erum með gögn, mikið af gögnum, og það var talað um að vilja koma heim til mín að skalla mig,“ segir Steffý, sem var ólétt á þeim tíma sem hótunin barst. Hún bætir við að áreitið hafi haft mikil áhrif á þau.
„Við urðum svo einangruð og ég varð raddlaus,“ segir Steffý var ólétt og hrædd, hún vissi ekki hvort þessi hótun hafi verið innantóm eða ekki. Andlega líðanin versnaði og ákvað Steffý að segja ljósmóður sinni frá ástandinu. Í kjölfarið var hún send til sálfræðings sem ráðlagði henni að fara til lögreglunnar. Steffý segist líka hafa haft samband fyrir lögfræðing vegna málsins, og að hann hafi ráðlagt henni það sama. Hún kærði hótunina og er málið enn í ferli.
„Þetta var alveg komið á þann stað að ég var byrjuð að mæta tvisvar í viku upp í Píeta. Þetta er svo hættulegt líka að vera á svona viðkvæmum stað, að vera svona berskjölduð. Ef ég ætti að lýsa því að vera ólétt, brynjan sem venjulega er til staðar er horfin. Maður upplifir svo miklar tilfinningar, hormónarnir. Ég trúði því að ég og sonur minn værum ekki velkomin.“
Steffý vill segja sögu sína og vekja fólk til umhugsunar um hversu mikilvægt það er að huga að andlegri heilsu þungaðrar konu og að álag og stress á meðgöngu getur haft skaðleg áhrif á fóstrið.
„Þórður Fannar þurfti að fara í einhverjar rannsóknir af því að hann var að skjálfa svo óeðlilega mikið. Ég tengi þetta við kvíðaköstin sem ég var að fá á meðgöngunni,“ segir hún.
Steffý segir að hún hafi haft miklar áhyggjur á meðgöngunni að kvíðinn og vanlíðanin myndi hafa áhrif á barnið. „Þetta var svo mikill ótti hjá mér að það myndi hafa áhrif. Síðan eru rannsóknir í gangi þannig… ég tengi þetta saman. Ég er reið, ég er hrædd… það eru bara ógeðslega margar tilfinningar í gangi.“
Það kom ekkert út úr rannsóknunum og var drengurinn útskrifaður með óeðlilega mikinn nýburaskjálfta. „En við áttum samt að vera með augun opin,“ segir Steffý.
Hún segir að það sé mikilvægt að „vera varkár af því hvernig maður kemur fram við ólétta konu af því maður veit aldrei hvað getur gerst.“
„Á þrítugustu viku hjá okkur vorum við hrædd um að við værum að missa hann og við enduðum á því að vera uppi á spítala í sólarhring og allt bara í kaosi þarna. En það var síðan allt í góðu.“
Hlustaðu á þáttinn með Steffý á Spotify og öllum helstu hlaðvarpsveitum. Hún ræðir einnig um hvernig hún kynntist barnsföður sínum, sjokkið að komast að því að þau ættu von á barni eftir níu mánaða samband, meðgönguna og fæðingu. Hún ræðir einnig um húsakaupin á Ítalíu og hvað sé fram undan.