fbpx
Miðvikudagur 03.september 2025
Fókus

„Hver hefði haldið að dag einn sæti ég með haglabyssu innanklæða við dómþing í Héraðsdómi Reykjavíkur?” – Lestu fyrstu kafla Hyldýpi

Ragna Gestsdóttir
Miðvikudaginn 3. september 2025 19:30

Mynd: Facebook-síða Drápu.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Kári Valtýsson, rithöfundur og lögmaður, sendi nýlega frá sér sína fjórðu skáldsögu, spennutryllinn Hyldýpi. Bókin er sú fyrsta sem Kári gefur út hjá bókaforlaginu Drápu. Kári er fæddur 1985, rekur eigin lögmannsstofu, hann er giftur og á þrjú börn á aldrinum 6-15 ára.

Kári Valtýsson. Mynd: Sigurjón Ragnar.

Um söguþráð bókarinnar segir: 

Dögg Marteinsdóttir er ungur læknir sem starfar hjá Læknum án landamæra í Súdan. Hún og Sarah, sem er ungur og frakkur læknir frá Brooklyn í New York, verða nánar vinkonur meðan þær takast á við hörmungarnar í flóttamannabúðunum þar sem þær starfa. Dögg fellir hug til yfirlæknis á svæðinu sem heitir Omar Mohammed. Dag einn fara Omar, Sarah og Dögg í sendiför til borgarinnar Nyala en sú för hefur hræðilegar afleiðingar í för með sér.

Kristján er nýbúinn að stofna eigin lögfræðistofu í Reykjavík en verkefnin láta á sér standa. Mitt í hringiðu afkomuótta og kvíðakasta fær hann í hendurnar tvö athyglisverð mál. Annars vegar mál fylgdarlauss barns frá Súdan og hins vegar líkamsárásarmál ungs Pólverja sem heitir Pawel Nowak en sá á vægast sagt vafasama fortíð.

Pawel á von á barni með ungri íslenskri kærustu. Eitt örlagaríkt kvöld eltir fortíð Pawels hann uppi og áður en hann veit af hafa meðlimir harðsvíraðra glæpasamtaka hann undir smásjánni. Uppgjör við fortíðina dregur dilk á eftir sér og Pawel dregst inn í atburðarás sem hann ræður engan veginn við.

Líf þessara þriggja ólíku einstaklinga eiga eftir að tvinnast saman. Með afdrifaríkum hætti.

DV birtir hér fyrir neðan með góðfúslegu leyfi Drápu inngang og þriðja og fjórða kafla bókarinnar.

Hver hefði haldið að dag einn sæti ég með haglabyssu innanklæða við dómþing í Héraðsdómi Reykjavíkur? Fyndi fyrir köldu járninu upp við húðina og andaði að mér fnyk af byssuolíu. En þannig er þetta. Undir halógenlýsingunni í dómsalnum kemur dómarinn sér fyrir. Þetta er miðaldra karl með úfinn hnakka og illa farna húð. Hann hagræðir sér í sætinu, dæsir og garfar í málamöppu.

Vinstra megin við dómarann situr lögmaður ásamt sakborningnum. Uppglennt augun í störukeppni við borðplötuna. Á móti þeim situr fulltrúi saksóknaraembættisins. Ung kona með ljóst hár sem er bundið í háan stert. Snyrtileg, hvöss til augna og virðist vel undirbúin.

Enginn sér mig. Músin sem læðist. Hjartað er eins og tifandi tímasprengja. Svitinn bogar af enninu. Ég renni hendinni eftir byssunni, hagræði henni í greipinni, finn fyrir gikknum og anda djúpt. Ætlarðu að gera þetta? Í alvörunni?

Dómarinn byrjar að tala. Ég heyri ekkert hvað hann segir. Eitthvað formfast í þaulæfðum mónótón ríkisins. Það skiptir líka engu hvað dómarinn þusar. Ekki lengur. Ekkert skiptir máli lengur. Hefur ekki gert það síðan… síðan…

Það brakar í stólnum þegar ég stend upp. Byssuhlaupið er svarthol sem sogar athygli allra að nálarauga dauðans. Í myrkrinu ríkir algjör þögn.

Nú stjórna ég.

Dögg

Björgun heimsins er látlaus iðja. Henni vindur hægt og bítandi fram innan um staðna blaðabunka, skítuga kaffibolla og rykfallnar skýrslur margvíslegra velmeinandi alþjóðasamtaka. Gráa tölvan mín rykkist í gang. Hóstar ryki og ræskir sig. Sandborið lyklaborðið er við það að gefa upp öndina því örfín kornin læða sér inn um hverja glufu.

Hér sitjum við Sarah við pappírsvinnuna. Þetta er ekki allt hasar á vettvangi. Sem betur fer. Hasarinn er ofmetinn og sálardrepandi. Staðreyndin er sú að ég kann best við mig fyrir framan þennan klunnalega tölvuskjá. Þessi taug til fyrra lífs minnir á einfaldari og saklausari heim, þennan sem lónar hinum megin við hafið. Í köldu heimskautaloftslagi og lamandi desembermyrkri þar sem við vöknum örugg í rúmunum okkar, stikum áhyggjulaus út á strætóstoppistöðvar, setjumst inn í upphitaðar bifreiðar, drekkum kaffið úr einnota kaffimálum og bölvum í mesta lagi háu verðlagi, stjórnmálum, kvótanum eða hreinlega veðrinu. Risastór smávandamál í örríki veturmyrkursins.

Ísland þekkir ekki sveðjur, vélbyssur, heiðursmorð, kerfisbundnar nauðganir, hungursneyð, malaríu eða annars konar óskapnað sem fyrirfinnst hér í hverju skúmaskoti. Í landi myrkurs, kulda, íss og snjóa er tilveran umvafin hita, rafmagni, vatni, ást, hlýju, öryggi og frelsi. Þar storma allir um án þess að hugsa til þessara réttinda og þessara litlu orða með risavöxnu merkinguna: frelsis, ástar, hlýju og öryggis. Á Íslandi mega menn nefnilega hafa áhyggjur, en þeir þurfa þess í rauninni ekki. Nú veit ég það.

En björgun heimsins er iðja hinna hógværu. Að senda tölvupóst og óska eftir meiri birgðum. Eða hringja nokkur símtöl til annarra alþjóðlegra hjálparsamtaka til þess að stemma af lyfjalista og panta það sem vantar. Við erum tannhjól í gangverki hins frjálsa heims. Einu símtali eða tölvupósti frá því að bjarga eigin tilvist.

Á svona stundum hugsa ég um heimspekina sem ég skráði mig úr eftir eitt ár. Þótti þetta ekki nægilega praktískt. Hvað gera heimspekingar? hugsaði ég. Þeir kenna heimspeki. Skrifa í hæsta falli fræðigreinar um heimspeki en ekkert meira. En núna skil ég þetta allt betur. Þetta með tannhjólið og tilganginn. Kant sagði þetta best: Stundum vilja glæpamenn bara vera glæpamenn. Hver erum við að breyta því? Eitthvað í þessa áttina. Man þetta ekki alveg. En þetta er rétt. Sumir vilja bara sjá heiminn brenna. Er þetta ekki bara allt einn risastór pottur með alltof mörgum kryddum. Hvert krydd er ágætt í sjálfu sér, en þegar öllu er blandað í sama pottinn verður úr þessu viðbjóðslegur vellingur sem er engum bjóðandi. Þannig held ég að mannskepnan sé. Óætur vellingur. En það má reyna að finna uppskriftina sem gengur upp, ekki satt?

Annar tölvupóstur fer út í kosmósinn. Kaldur kaffisopi læðist inn fyrir varirnar. Ógeðslegt kaffið hérna.

Dyrnar opnast með látum. Ég sulla yfir mig hluta af kaffinu þegar Grzegorz Zlinski, yfirmaður deildarinnar sem ég starfa hjá, fleygir upp hurðinni með tilheyrandi skarkala. Hann segir ekkert heldur æðir út á mitt gólf svo allir viðstaddir sjái hann. Tággrannur skrokkur og meitlaðir andlitsdrættir. Haukfrán stálgrá augu mæla út rýmið. Tilvera hans étur upp súrefnið í rýminu. Við erum ósjálfrátt á hans valdi. Rosalegur presens, eins og mamma sagði alltaf þegar hún talaði um Robert Plant í Led Zeppelin. Hún sá hann tvisvar á tónleikum. Alveg rosalegur presens. Zlinski er með þennan eiginleika. Hann á svæðið um leið og hann gengur inn.

Zlinski sýpur kaffi úr bolla, vætir varirnar og telur svo upp nokkur nöfn. Þar á meðal nöfn okkar Söruh.

– Þið farið til Zalingei, segir hann þegar nafnakallinu linnir. Enginn segir neitt. Zalingei. Við höfum öll heyrt um þessa borg. Höfuðborg ríkisins Mið-Darfúr. Lítil og afar fámenn en stórhættuleg. Allir hafa heyrt söguna af lækninum á vegum Sameinuðu þjóðanna sem var myrtur. Hinir ríkisstyrktu Janjaweed-hryðjuverkamenn sátu fyrir bílalestinni hennar og létu skotum rigna úr rússneskum AK-47 hríðskotabyssum. Sagan hermdi að hún hefði því miður ekki látist samstundis heldur verið nauðgað ítrekað á meðan henni blæddi út af sárum sínum. Líkið var svo hlutað í sundur og líkamspörtunum stillt upp á niðrandi og kynferðislegan hátt, öðrum til varnaðar. Þetta er auðvitað bara saga. En staðreyndin er að nauðganir eru notaðar sem vopn í óöldinni í landinu. Það er líka staðreynd að þessi læknir dó í árás og myndir af vettvangi voru aldrei birtar. Hvorki á síðum blaðanna heima né hér í Súdan. Þá er mikið sagt.

– Eins og þið vitið er fjöldi flóttamannabúða nálægt Zalingei og brýn þörf á starfsfólki, segir Zlinski. Nýlega var búðunum skipt upp og þannig reynt að mæta þörfum þeirra hópa sem þar eru. Einn hluti búðanna er nú fyrir börn, annar hluti er búðir fyrir konur sem hafa orðið fyrir ofbeldi, bæði líkamlegu og kynferðislegu, og svo eru einar búðirnar almennar. Líkt og þær sem þið starfið við hér. Helsta hlutverk ykkar í Zalingei er að halda lyfjum, mat og vatni að fólkinu og aðstoða eftir þörfum. Þið ykkar sem eruð læknar með sérmenntun starfið auðvitað við ykkar sérsvið. Góð nýting mannafla er markmiðið hér, segir Zlinski og tekur sér stutta málhvíld. Drekkur ögn af kaffi og leggur frá sér bollann. Kinkar svo kolli því til áherslu að ávarpinu sé lokið.

Hvenær er brottför? spyr Sarah.

Eftir tvo daga, svarar Zlinski. Fleiri spurningar?

Hvernig förum við? spyr einhver úr hópnum.

– Þið fljúgið. Tökum ekki sama séns og síðast. Janjaweed-liðar sitja gjarnan fyrir bílalestum. Þið fljúgið því héðan til Khartoum og dveljið þar uns yfirmaður á svæðinu gefur frekari fyrirmæli. Venjulega erum við að tala um tvo til fjóra daga í Khartoum áður en hóparnir eru sendir til Zalingei.

Zlinski lítur yfir hópinn og bíður eftir frekari spurningum. Þegar engar berast kinkar hann aftur kolli og hverfur jafn skjótt út um dyrnar og hann kom inn um þær.

Sarah

Sandfjúkið er alltaf minna á kvöldin. Þegar sólin sofnar er möguleiki að ná sér í kríu. Það varir samt stutt. Það hitnar aftur upp úr tvö og fer stigversnandi þar til gula fíflið geiflar sig á himninum að nýju. Á sama tíma og fyrstu geislanir skella miskunnarlaust á okkur byrja svo helvítis múslimarnir að biðja. Ég lít á úrið. Nú er lag. Þú nærð nokkrum tímum þar til veröldin steikist að nýju. Sofnaðu.

Ekki séns. Ekki eftir fréttir dagsins. Ég er á leið til Zalingei. Við Dögg vorum auðvitað valdar. Það sárvantar barnalækna. Hvorug okkar er búin með sérnámið en ég ætla að verða barnalæknir, hún fæðingarlæknir. Það er þörf á hvoru tveggja. Kemur heim og saman við það sem Zlinski talaði um. Hann ætlar að deildarskipta okkur. Sniðugt. Allt verður hnitmiðaðra með því. Við græðum reynsluna og sjúklingarnir fá aukna aðstoð frá læknum sem raunverulega hafa áhuga á því sem þeir eru að fást við.

– Ertu vakandi? hvísla ég og teygi álkuna fram úr kojunni. Sé móta fyrir rauðum lokkum fyrir ofan mig. Dögg vakir. Liggur um stund en sest svo upp í rúminu.

Já, ég get ekki sofið.

– Sama hér. Ertu stressuð? Hún lítur á mig með svip sem segir allt um það hversu heimskuleg spurningin var. Auðvitað er hún stressuð. Hér í búðunum er lífið enginn dans á rósum. Fyrir viku síðan tróðst lítil stúlka undir við matargjöf Sameinuðu þjóðanna. Drukknaði í hlandblautri leðju. Foreldrar hennar voru sennilega einir af þeim sem þjöppuðu henni neðar í svörðinn án þess að átta sig á því að stúlkan þeirra var ekki lengur þar sem hún átti að vera. Börn eiga ekki að vera viðstödd matvælagjafir af augljósum ástæðum. En mannmergðin og skortur á skipulagi býður hættunni heim. Dögg sá þetta gerast. Sá hvernig óeirðirnar brutust út þegar ljóst var að ekki væri nóg fyrir alla í þessari sendingu. Fylgdist með því hvernig hungur breytir fólki í skepnur. Slagsmál, hrindingar og stimpingar. Mitt í ösinni hafði þessi litla stúlka einhvern veginn orðið viðskila við móður sína og álpast inn í þvöguna. Þar tróðst hún undir. Dögg sá litla höfuðið þjappast neðar og neðar ofan í svörðinn. Sá hana reyna að reisa upp höfuðið sem jafnharðan var troðið niður. Svo var allt búið. Bara lífvana lítill skrokkur, markaður vonsku heimsins. Dögg vaknar á hverri nóttu og æpir eftir þetta hryllilega atvik. Starfsfólk Sameinuðu þjóðanna hélt henni fastri. Fólkið sem bar ábyrgð á þessu klúðri. Menn fara ekki yfir fyrirfram markað svæði þegar óeirðir brjótast út. Það eru reglur sem má aldrei brjóta. Matargjöfum er einfaldlega bara hætt og reynt aftur síðar. Lífið hér er helvítis glundroði. Og þetta verður verra í Zalingei.

Við segjum ekkert meira hvor við aðra. Liggjum hvor í sínu fleti, svitaþvalar undir þunnu laki og finnum óttann fylla herbergið. Ég veit að hún vakir. Hún veit af mér. Þannig líður nóttin uns sólin og bænastund múslimanna níðast á okkur enn á ný.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Umsögn bandarískra ungmenna um íslenskt nammi vekur reiði – „Vanvirðingin gagnvart drykkjunum okkar er klikkuð!“

Umsögn bandarískra ungmenna um íslenskt nammi vekur reiði – „Vanvirðingin gagnvart drykkjunum okkar er klikkuð!“
Fókus
Fyrir 2 dögum

Svona leit hann út áður en hann fjarlægði húðflúrin – Sláandi munur

Svona leit hann út áður en hann fjarlægði húðflúrin – Sláandi munur
Fókus
Fyrir 3 dögum

„Ég er svo þakklát fyrir að hafa átt börn fyrir tíma samfélagsmiðla“

„Ég er svo þakklát fyrir að hafa átt börn fyrir tíma samfélagsmiðla“
Fókus
Fyrir 4 dögum

Í veiði með afa og afa – „Þú ert afi 1 og hann er afi 2“ – Myndband

Í veiði með afa og afa – „Þú ert afi 1 og hann er afi 2“ – Myndband
Fókus
Fyrir 5 dögum

Ingi Þór hlúði að slösuðum: „Sá margt sem var erfitt í mörg ár á eftir“

Ingi Þór hlúði að slösuðum: „Sá margt sem var erfitt í mörg ár á eftir“
Fókus
Fyrir 5 dögum

Aðdáendur konungsfjölskyldunnar kætast – Karl og Harry ætla að hittast í fyrsta sinn í tæp tvö ár

Aðdáendur konungsfjölskyldunnar kætast – Karl og Harry ætla að hittast í fyrsta sinn í tæp tvö ár