Þegar hin bandaríska Micherre Fox og kærasti hennar fóru að tala um þann möguleika að ganga í hjónaband ákvað hún að fara ekki hina hefðbundu leið kvenna þar í landi og bíða eftir að kærastinn keypti trúlofunarhring og bæri síðan upp bónorðið. Hún ákvað að mæta kærastanum á miðri leið og grafa sjálf eftir demanti til að setja í væntanlegan trúlofunarhring og sú tilraun átti eftir að bera góðan árangur.
Fjallað er um þetta óvenjulega uppátæki í tímariti Smithsoninan-stofunarinnar. Eftir þriggja vikna leit fann Fox nýlega 2,3 karata demant í þjóðgarðinum Crater of Diamonds State Park í Arkansas en hún og kærastinn, Trevor Ballou, búa í New York borg.
Fox gat gert þetta þar sem garðurinn leyfir fólki að halda demöntum sem það finnur. Þegar heim var komið afhenti Fox kærastanum demantinn með því fororði að hann eigi að nota í trúlofunarhring. Ballou viðurkennir það fúslega að þessi þrautseigja kærustunnar setji aukna pressu á hann að biðja hennar með rómantísku og stórtæku bónorði.
Parið hefur þó greinilega ætíð ætlað sér að ana ekki út í neitt. Það eru tvö ár síðan þau ræddu fyrst þann möguleika að gifta sig og urðu þá ásátt um að þau myndu bíða með trúlofun þar til að Fox myndi finna demant við hæfi og ætlun hennar var alltaf að grafa eftir honum.
Fyrr á þessu ári lauk hún meistaranámi og ákvað þá að nú væri rétti tíminn kominn til að leita að demanti.
Fox sem er 31 árs segir að fyrir sér hafi þetta verið ekki síst táknrænt. Stundum þurfi hjón að glíma við peningaleysi og hún hafi um leið viljað skuldbinda sig og sýna hvernig hún ætlaði sér að vera í væntanlegu hjónabandi. Demanturinn er á stærð við augntennur í manneskju. Hún segist einfaldlega hafa hrunið í gólfið þegar starfsmenn garðsins staðfestu að hún hefði fundið raunverulegan demant. Hún setti hann síðan í litla öskju sem hún geymdi í lítilli tösku sem hún hafði utan um brjóstkassann og flaug rakleiðis heim til New York og afhenti hann kærastanum með þessum orðum:
„Ég veiddi þetta fyrir þig.“
Crater of Diamonds garðurinn er vel þekktur í Bandaríkjunum og þótt demanturinn sem Fox fann sé einn sá stærsti sem fundist hefur í garðinum á þessu ári er hann einn af 366 demöntum sem fundist hafa á árinu í garðinum. Á annað hundrað þúsund manns heimsækja garðinn árlega í leit að demöntum en á síðustu 100 árum hafa um 75.000 demantar fundist þar.
Demantar fundust fyrst á svæðinu árið 1906 en 1972 var það gert að þjóðgarði í umsjá Arkansas ríkis. Þegar garðurinn var settur á laggirnar var strax ákveðið að leyfa gestum að leita að demöntum og eiga þá ef þeir myndu finna eitthvað.
Líklega er þó nóg eftir af demöntum til að finna í garðinum en hin jarðfræðilega saga þeirra á svæðinu nær að minnsta kosti 100 milljónir ára aftur í tímanum.
Hversu rómantískt það er að grafa eftir demanti í eigin trúlofunarhring verður líklega hver að meta fyrir sig en það sem skiptir mestu máli í þessu tilfelli er að Micherre Fox fannst ekkert annað koma til greina.