Laufey Lín Jónsdóttir ein farsælasti tónlistarmaður Íslandssögunnar er gestur í þættinum Hot Ones Versus sem sýndur er á Youtube-rásinni First We Feast sem er með um 15 milljónir áskrifenda. Virðist þátturinn einkum ganga út á að tveir gestir svari ýmsum spurningum um sjálfa sig en segi þeir ekki sannleikann eða giski rangt á svör hins gestsins verða þeir að borða sterka kjúklingavængi og sá sem gerir það oftar tapar. Laufey er meðal annars spurð erfiðrar spurningar um Ísland, hvað það sé við föðurland hennar sem henni sé mest illa við.
Laufey er gestur í nýjasta þættinum, sem frumsýndur var í gær, ásamt bandarísku tónlistarkonunni Claire Elizabeth Cottrill sem gengur undir listamannsnafninu Clairo.
Í þættinum skiptast þær á að spyrja hvor aðra spurninga sem aðstandendur þáttarins virðast hafa samið.
Laufey les meðal annars upp af spjaldi að eitt uppáhalds íslenska snarlið hennar heiti Tindur og spyr Clairo hvað það sé. Clairo finnst grenilega það hljóma líkt og Tinder og svarar að það sé stefnumótaapp. Laufey svarar að hún haldi að það sé ostur en meðal osta sem Mjólkursamsalan framleiðir er Óðals-Tindur. Svarið er því rangt og Clairo þarf að borða fyrsta sterka vænginn en miðað við viðbrögð hennar er bragðið í sterkari kantinum.
Clairo spyr því næst Laufeyju hvað hún haldi að Clairo óttist mest. Laufey giskar á kakkalakka en svarið er að lofthræðsla þjakar Clairo mest og því þarf Laufey að borða sterkan kjúklingavæng:
„Ég er svo hrædd.“
Það sést að bragðið tekur toll af Laufey og henni vöknar eilítið um augu en það hjálpar að fá gúrkubita og glas af mjólk.
Clairo þarf síðan að taka annan bita þar sem hún vill ekki svara því hverja af þremur tónlistarkonum hún vildi síst fara í tónleikaferð með en þetta eru Billie Eilish, Charlie xcx og Dua Lipa en Clairo mun vera vinkona þeirra allra.
Laufey gengst því næst fúslega við því að hún sé mikill aðdáandi Taylor Swift og raðar fjórum plötum hennar í röð eftir því hver þeirra henni þykir best.
Laufey er hins vegar eins og flestir Íslendingar vita afskaplega góð sál og tekur bita til að sýna Clario samstöðu, án þess þó að tapa stigi í viðureigninni.
Clairo fær því næst að spyrja Laufeyju spurningar að eigin vali og nýtir þá tækifærið og spyr hvort það sé eitthvað sem Laufey hatar við Ísland og minnir hana á að Íslendingar séu að fylgjast með henni:
„Þú veist að ég get ekki sagt neitt andstyggilegt,“ svarar Laufey og velur að taka frekar stóran bita af kjúklingavængjum og virðist á þessum tímapunkti vera farin að venjast sterka bragðinu. Hún er í kjölfarið spurð hvað henni finnist um íslenskar pylsur:
„Þær eru svo góðar,“ segir Laufey.
Clairo leikur forvitni á að vita hver munurinn sé á amerískum og íslenskum pylsum. Laufey vísar einkum í að remúlaði, laukur og tómatsósa geri íslenskar pylsur að þeirri bragðgóðu vöru sem þær séu.
Bragðið virðist þá gera aftur vart við sig og það tekur á Laufeyju.
Lokaþrautin er síðan að hella sterkri sósu á væng og teikna mynd hvor af annarri. Sú tapar sem hlær fyrst og Laufey sýnir þá kænsku að vanda ekki sérlega vel til verka við að teikna myndina af Clairo en ljóst virðist að styrkur þeirra beggja liggur ekki á sviði myndlistar. Clairo hlær fyrst og þarf því að fá sér bita og tapar þar með viðureigninni en Laufey fær sér aftur samúðarbita.
Laufey fær að launum forláta bikar og þær fallast í faðma og Clairo spyr:
„Vorum við fyndnar?“
„Já, ég held að við höfum verið fyndnar,“ svarar Laufey.
Nýjasta plata Laufeyjar A Matter of Time kemur út 22. ágúst næstkomandi.