Skáldsagan The Great Gatsby eftir bandaríska rithöfundinn F. Scott Fitzgerald, sem kom fyrst út árið 1925, fyrir 100 árum, er af mörgum talin vera eitt af stórvirkjum bókmenntasögunnar. Settar hafa verið upp leiksýningar og gerðar fleiri en ein kvikmynd, byggðar á bókinni sem hefur einnig verið þýdd á fjölda tungumála, þar á meðal íslensku. Nú hafa hins vegar verið færð ítarleg rök fyrir því að fáar ef nokkrar skáldsögur hafi verið jafn mikið misskildar og þessi saga þar sem ástir og partýstand hjá efri stéttinni á Long Island í New York leika stórt hlutverk.
Samkvæmt Leiti, landskerfi bókasafna, hefur bókin tvisvar komið út á íslensku. Fyrst árið 1987, í þýðingu Atla Magnússonar, en þýðingin bar titilinn Gatsby. Því næst kom sagan út árið 2008, aftur í þýðingu Atla, en þá undir heitinu Hinn mikli Gatsby.
Í stuttu máli þá fjallar The Great Gatsby um mann að nafni Nick Carraway, sem er sögumaður bókarinnar, og kynni hans af milljónamæringnum Jay Gatsby og ástkonu Gatsby, Daisy Buchanan en samband þeirra er stormasamt. Sögusviðið er eins og áður segir Long Island í New York en í bókinni er einnig brugðið upp litríkri mynd af veisluhöldum ríka fólksins á svæðinu.
Nýjasta kvikmyndin sem gerð var eftir sögunni var frumsýnd árið 2013. Myndin er í leikstjórn Baz Luhrmann en með hlutverk Jay Gatsby fer Leonardo DiCaprio, Tobey Maguire leikur Nick Carraway en með hlutverk Daisy Buchanan fer Carey Mulligan.
Í umfjöllun menningarvefs BBC er rifjað upp að bókin hafi löngum talin vera táknmynd ástandsins í bandarísku þjóðfélagi á þriðja áratugar síðustu aldar. Áratugarins sem einkenndist af gleði, glaumi og allsnægtum, að minnsta kosti meðal þeirra best stæðu í þjóðfélaginu. Þetta var áratugur jazzins, áratugurinn þar sem allt virtist leika í lyndi, áður en skellurinn kom síðan 1929 og kreppan mikla tók við.
Þetta er þó ekki svona einfalt. Bókin hlaut dræmar viðtökur í upphafi og öðlaðist ekki sinn sterka sess fyrr en nokkru eftir andlát F. Scott Fitzgerald en hann lést 1940. Hann sagði eftir að hafa lesið marga dóma um bókina að almennt væri hún misskilin. Gagnrýnendur og aðrir lesendur hefðu greinilega ekki hugmynd um hvað bókin fjallaði um.
Margir sem hafa lesið bókina telja hana snúast um glamúrinn og veisluhöldin eins og þau voru meðal hástéttarinnar og horfa til Jay Gatsby sem miðpunkts sögunnar og áhugaverðustu persónunnar. Þetta hefur birst í mörgum leiksýningum sem byggðar eru á bókinni og svo ekki síst í fjölmörgum einkasamkvæmum sem haldin hafa verið í gegnum árin með Gatsby-þema.
Í umfjöllun BBC eru hins vegar færð rök fyrir því að þetta sé misskilningur. Rætt er við rithöfund að nafni Michael Farris Smith. Árið 2021 sendi hann frá sér skáldsögu um sögumanninn í The Great Gatsby, Nick Carraway. Smith segir að þegar hann las söguna fyrst hafi hann ekki skilið hana en þegar hann las hana aftur síðar á ævinni hafi hann loks áttað sig á að það hafi ekki verið Jay Gatsby sem hafi verið miðpunkturinn og sú persóna bókarinnar sem skipti mestu máli heldur Nick Carraway. Í bókinni eigi Carraway bágt með að finna sig í lífinu og sé forviða yfir því umhverfi sem blasi við í partýunum hjá Jay Gatsby. Carraway hafi í raun týnt sjálfum sér en til að mynda gleymi hann á einum stað í bókinni að hann eigi afmæli.
Smith leiðir að því líkum að Carraway sem er um þrítugt sé táknmynd þeirra Bandaríkjamanna sem sneru aftur frá vígvöllum fyrri heimsstyrjaldarinnar í Evrópu. Þessi hópur hafi átt bágt með að halda áfram með lífið og hafi varla þekkt þjóðfélagið eins og það var orðið eftir að heim var snúið. Þetta sé líklegra að bókin snúist um, leit kynslóðar að tilgangi og merkingu í lífinu og tilfinningar hennar um að það geti allt hrunið til gruna á svipstundu, en ekki gleði og glaum.
Vísar Smith þessu til stuðnings til orða annars stórmennis bandarískra bókmennta og samtíðarmanns F. Scott Fitzgerald um bókina, Ernest Hemingway sem sjálfur barðist í fyrri heimsstyrjöldinni:
„Við treystum engum sem hafði ekki verið í stríðinu og mér fannst það vera hinn náttúrulegi upphafspunktur hjá Nick (Carraway, innsk. DV).“