Einn frægasti spjallþáttastjórnandi Bandaríkjanna Jimmy Kimmel virðist vera að hugleiða það alvarlega að flytja úr landi. Hann hefur ekki farið leynt með andúð sína á stjórnarháttum Donald Trump forseta og gert miskunnarlaust grín að honum. Trump hefur svarað þessu með því að úthúða Kimmel á samfélagsmiðlum. Annar spjallþáttastjórnandi Stephen Colbert hefur einnig verið andsnúinn Trump en sýningum á þætti hans verður hætt í vor en leitt hefur verið að því líkum að andstaða Colbert við forsetann hafi eitthvað með það að gera en Trump neitar því.
Þættir Kimmel, Jimmy Kimmel Live, og Colbert, The Late Show eru sýndir klukkan 23:30 á hverju kvöldi, á virkum dögum, um öll Bandaríkin. Kimmel hefur verið með sinn þátt síðan 2003 en Colbert tók við af David Letterman árið 2015. Þáttur Kimmel er sýndur á sjónvarpsstöðinni ABC en þáttur Colbert á CBS. Tilkynnt var nýlega að þáttur Colbert yrði tekinn af dagskrá næsta vor. Fullyrt hefur verið að það hafi eitthvað með það að gera að móðurfyrirtæki CBS, Paramount Global, hafi viljað tryggja að stjórnvöld myndu samþykkja samruna þess við fyrirtækið Skydance Media. Trump og hans fólk segjast þó ekki hafa neitt með ákvörðun CBS að gera. Benda þau á að þátturinn hafi kostað stöðina stórfé og sé rekinn með stanslausu tapi. Greinendur benda einnig á að þátturinn eins og önnur línuleg dagskrá eigi undir högg að sækja vegna tæknibreytinga undanfarinna ára og breytinga á áhorfi á sjónvarpsefni.
Líklegt þykir þó að Trump muni ekki sakna þáttar Colbert og forsetinn hefur fagnað endalokum hans en spjallþáttastjórnandinn hefur, eftir að tilkynnt var að sýningum á þættinum yrði hætt, hert enn frekar á gagnrýni sinni og háðsglósum í garð forsetans.
Greint er síðan frá því í umfjöllun The Daily Beast að útlit sé fyrir að Jimmy Kimmel hugi á flutninga til Ítalíu til að sleppa undan Trump en Kimmel er kominn með ítalskt ríkisfang.
Hann greindi frá þessu í hlaðvarpi grínistans Sarah Silverman en þau eru fyrrverandi kærustupar. Kimmel fékk ítalskt ríkisfang fyrr á þessu ári á grundvelli þess langamma hans og langafi fluttu frá Ítalíu til Bandaríkjanna árið 1883. Það kemur ekki fram hvort gerðar hafi verið sömu ráðstafanir vegna eiginkonu hans og tveggja barna þeirra en Kimmel á tvö önnur börn, sem eru uppkomin, með fyrri eiginkonu sinni.
Kimmel og Silverman segjast vera sammála því að ástandið í Bandaríkjunum sé enn verra en þau bjuggust við að myndi verða raunin eftir kosningasigur Donald Trump á síðasta ári. Kimmel hefur gagnrýnt og gert ítrekað grín að stjórnarháttum Trump.
Forsetinn hefur sagt að nú þegar Colbert sé á útleið sé Jimmy Kimmel næstur og síðan nafni hans Jimmy Fallon sem stýrir spjallþættinum The Tonight Show, sem sýndur er á sama tíma og þættir Colbert og Kimmel.
Hvort Kimmel yfirgefur Bandaríkin og hvort að Trump verði að óski sinni og losni við þessa þrjá helstu síðkvöldspjallþætti landsins á einu bretti á eftir að koma í ljós.