Spielberg segir að besta bandaríska bíómyndin sé The Godfather í leikstjórn Francis Ford Coppola frá árinu 1972.
Það geta væntanlega margir tekið undir þessi orð leikstjórans goðsagnakennda enda er The Godfather á flestum listum yfir bestu kvikmyndir sögunnar. Myndin var valin sú besta á Óskarsverðlaunahátíðinni 1973 og þá fékk Marlon Brando Óskarinn sem besti leikarinn.
Spielberg lýsti þessu á athöfn sem haldin var til heiðurs Coppola í Los Angeles á dögunum. Á athöfninni, sem haldin var af American Film Institute, veitti hann Coppola viðurkenningu fyrir störf hans í kvikmyndageiranum síðustu áratugi.
„Þú endurskilgreindir viðmiðin í bandarískri kvikmyndagerð og veittir heilli kynslóð frásagnarfólks innblástur,“ sagði hann og bætti við að markmið allra í kvikmyndagerð væri að gera Coppola stoltan. „Ég vil alltaf að þú sért stoltur af verkum mínum,“ sagði Spielberg.
Það voru fleiri sem hrósuðu hinum 86 ára leikstjóra á athöfninni, til dæmis George Lucas, Robert De Niro og Al Pacino.