Fanney varð móðir ung, átján ára gömul. Hún varð ólétt sautján ára gömul og, en sonur hennar er einmitt sautján ára í dag. Áratugur leið þar til hún eignaðist annað barn, en hún eignaðist tvær stúlkur með árs millibili. Fanney hefur því bæði átt börn með löngu millibili og svo mjög stuttu og hún segir að hið síðarnefnda hafi vissulega verið mikið hark fyrstu árin.
Samhliða barneignum hefur Fanney menntað sig og hlustað á innsæið um hvaða stefnu skal næst taka. Hún er stjórnmálafræðingur með MPA í opinberri stjórnsýslu, förðunarfræðingur, og með MS í markaðsfræði. Í dag starfar hún sem markaðstjóri Blush, heldur úti hlaðvarpinu Tvær á floti ásamt vinkonu sinni Söru Alexíu og deilir efni á Instagram og TikTok þar sem hún nýtur vinsælda.
Horfðu á þáttinn með Fanneyju hér að neðan eða hlustaðu á Spotify og öllum helstu hlaðvarpsveitum.
Fanney bjó á heimavist og var í framhaldsskóla á Sauðárkróki þegar hún varð ólétt.
„Þetta var algjör áskorun. Oft hugsa ég til baka, það er ótrúlegt hvað maður kom samt vel út úr þessu,“ segir hún
„Ég var að byrja þriðja árið mitt í framhaldsskóla þegar ég varð ólétt, og það var ótrúlega erfitt. Maður var auðvitað að reyna að vera í félagslífinu og vera með vinum sínum, svo einhvern veginn verður maður svolítið einn og einn í sínu og enginn tengir. Enginn í kringum mann tengir við það sem maður er að ganga í gegnum, það er mjög erfitt.“
Fanney segir að hún hafi þó fengið mjög góðan stuðning frá vinkonum sínum þrátt fyrir að þær skildu ekki hvað hún var að ganga í gegnum. Hún segir að skólinn hafi einnig verið henni haukur í horni.
„Skólinn hjálpaði mér mjög mikið að klára námið mitt. Ég var að byrja þriðja árið mitt þegar ég komst að því að ég væri ólétt og þau hjálpa mér að stilla þessu upp þannig að ég næ að klára á þremur árum, þá þurfti ég ekki að hafa áhyggjur af því að fara í námið aftur. Ég er ótrúlega þakklát fyrir það hvað skólinn hjálpaði mér að tækla það allt saman. Svo fæddist hann tveimur vikum áður en ég útskrifaðist í maí,“ segir hún og bætir við að þetta hafi verið erfiður en jafnframt áhugaverður tími.
Næstu árin bjó Fanney hjá foreldrum sínum með son sinn. Um tvítugt fluttu þau mæðginin saman til Reykjavíkur þar sem hún hóf nám í stjórnmálafræði.
„Eitt af því sem mótaði okkur, við eiginlega þroskuðumst saman,“ segir Fanney brosandi. „Við eigum einstakt samband, mjög mikið vinasamband og það er mjög dýrmætt.“
Fanney ræðir nánar um móðurhlutverkið, hvernig það hafi verið að eignast næsta barn tíu árum seinna og næsta eftir það með aðeins árs millibili, í þættinum. Hún ræðir einnig um skólagönguna, lífið og tilveruna, sjálfsvinnuna sem kom henni á þann stað sem hún er í dag og nærveru hennar á samfélagsmiðlum, en hún hefur vakið mikla athygli á TikTok fyrir skemmtileg og hispurslaus myndbönd.
Horfðu á þáttinn hér að ofan eða hlustaðu á Spotify.