
Spákonan og flugfreyjan spáði fyrir Bríeti í áramótaþætti Fókuss ásamt öðrum þekktum Íslendingum. Það kom aldeilis margt áhugavert fram í þættinum, sem má horfa á í heild sinni hér eða hlusta á Spotify og öllum helstu hlaðvarpsveitum. Hér að neðan má horfa á klippu úr þættinum þar sem Ellý spáir fyrir söngkonunni.
Við spurðum spákonuna: „Hvernig verður næsta ár hjá Bríeti? Mun henni takast að koma tónlistinni út fyrir landsteinana?“
„Þetta tekst, en það eru mörg verkefni sem eru lögð fyrir hana. Hún er ný, hún er önnur en hún var. Það er eins og hún standi á vegamótum. Og hún er sýnd bara nakin og þegar fólk er sýnt nakið, mjög jákvætt, þá er hún önnur en hún var. Hún er ekki klædd í sömu… hún er ekki með sama farangur og hún var með. Hún er önnur. Hún er ekki að taka með sér einhverjar gamlar kápur,“ segir Ellý.
„Þannig að hún er búin að losa sig við þær og nú heldur hún áfram sem ný. Það er alls konar lagt í götur hennar. Í maí mánuði árið 2026 mun stjarna hennar skína skært. Og ekki bara á Íslandi. Þannig að hún þarf að jarðtengja sig þegar þetta gerist.“
„Af því að oft þegar velgengnin kemur þá koma önnur verkefni sem þú þarft að tækla. Og þessi hæfileikaríka stúlka, það er svo bjart í kringum hana. Hún setur mörk og hún er að ryðja einhverja braut. Þetta er bara, þetta verður dásamlegt.“
Horfðu á spá Ellýjar fyrir Bríeti hér að ofan, en spákonan segir að stjarna söngkonunnar muni skína áfram skært, en ekki nóg með það þá sé ástin að banka upp á.
„Það er eitthvað nýtt samband sem hún er, þau eru jafningjar og þeim líður vel,“ segir hún.