
Anna rifjar upp þeirra fyrstu kynni, stjúpmóðurhlutverkið og veikindi sonar þeirra í Fókus, viðtalsþætti DV. Anna er gestur vikunnar og fer um víðan völl. Hlustaðu á þáttinn á Spotify, en textabrot úr þættinum má lesa hér að neðan.
Anna og Halldór kynntust á bar við upphaf Covid-faraldsins. „Við hittumst í einni af þessari pásu þar sem allt opnaði aftur. Hann pikkaði mig upp á bar með línunni: „Hef ég séð þig áður?““ segir Anna kímin.
Á þessum tíma var hún með uppistand og var með félögum sínum á Secret Cellar. Barinn var fyrir ofan staðinn en Anna var ekkert á leiðinni þangað þegar kvöldið byrjaði.

„Ég var búin að fara út að borða með vinkonu minni, ég hafði verið markþjálfinn hennar og hún hafði komist inn í draumaskólann sinn og við vorum að fagna. Hún fór á hljómsveitaræfingu, ég ætlaði sjálf á æfingu en nennti því ekki.“ Anna ákvað því á síðustu stundu að skella sér á barinn og hitti þar framtíðareiginmann sinn.
Það hefur verið nóg að gera hjá þeim síðustu fimm árin. Anna steig inn í nýtt hlutverk sem stjúpmóðir. „Ég er svo heppin með stjúpdóttur, þetta hlutverk er ekki gefið,“ segir hún. „Hún er svo hjartahlý og yndisleg.“
Anna og Halldór eignuðust saman son fyrir fjórum árum, en hún segir að þau hafi ákveðið að bíða ekkert með það. Þeim langaði báðum í barn, hún var þá 35 ára og hann 40 ára.

Sonurinn fæddist þann 20. desember, á afmælisdaginn hennar. Hann byrjaði að glíma við flogaveiki um átján mánaða aldur.
„Hann var eins og hálfs árs þegar þetta gerist. Þetta var ógeð. Líka, maður fattar ekki alveg sjálfur en ég var veik líka, ég er með Crohns, og þegar hann tekur flogaköstin þá kveikir það í öllu kerfinu mínu og mínum einkennum. Manni langar svo að vera til staðar fyrir barnið sitt en það er svo erfitt því maður er sjálfur í svaka veikindum. Það er hræðilegt að sjá barnið sitt, eins og hálfs árs, fá fimm köst. Þú ferð upp á spítala með sjúkrabíl, ég man á einum tímapunkti var hann í fanginu á mér og ég vissi ekki hvort hann væri lifandi eða dáinn,“ segir Anna.

Sem betur ferð virðist þetta vera barnaflogaveiki og vera að eldast af honum. „Þannig hann er hættur á lyfjum og það er að ganga vel,“ segir Anna bjartsýn.
Anna ræðir nánar um ástina, foreldrahlutverkið og veikindi sonarins í þættinum, sem má hlusta á hér. Hún ræðir einnig um kulnun og hvernig er hægt að finna ró í daglegu amstri og svo margt annað. Hlustaðu á þáttinn á Spotify og öllum helstu hlaðvarpsveitum.