
Hlustaðu á þáttinn á Spotify og öllum helstu hlaðvarpsveitum. Textabrot úr þættinum má lesa hér að neðan þar sem hún talar um hvernig hún fann sig í spiritúalisma eftir krabbameinsferlið.
Sjá einnig: Linda man eftir að hafa horft í kringum sig á aðfangadag og hugsað: „Eru þetta síðustu jólin mín?“
Linda rifjar upp þegar hún greindist með krabbamein, en fyrir það hafði hún aðeins stigið inn í andlega heiminn en ekkert af alvöru.
„Ég fékk ég strax tilfinningu um að þetta væri eitthvað meira heldur en bara það að ég væri veik. Það væri eitthvað. Ég var búin að lifa lífinu…. ekki kannski endilega eins og ég hefði viljað og ég var búin að vera í 20 ár í barningi. Ég á langa og ljóta áfallasögu að baki,“ segir hún.
„Ég varð fyrir svakalegu áfalli þegar ég var um 16-17 ára og náði ekki að fóta mig eftir það. Ég náði ekki að lifa nema í þessu hræðilega áfalli. Þannig ég hafði í rauninni lifað í 20 ár með svakalega áfallastreitu án þess að gera mér grein fyrir því. Og stanslaust, á allan hátt, verið að berjast fyrir lífi mínu. Ég hef komið illa fram við fólk, ég drakk svakalega illa. Og svona tætti mig bara algjörlega upp. Þannig þegar ég veiktist fékk ég hugljómun, að það væri verið að taka fram fyrir hendurnar á mér og hrista mig til, að ég yrði að fara að gera eitthvað annað því ég myndi ekki lifa áfram svona. Og þegar ég sé myndir af mér frá þessum tíma þá er ég gjörsamlega búin.“
Linda segir að hún hafi farið inn í krabbameinsferlið með það í huga. „Að það væri verið að taka mig taki, að ég ætti að hlusta og gera eitthvað annað,“ segir hún og bætir við að hún hafi verið ákveðin að koma sterkari út úr þessari reynslu.
„Ég vissi að ég gæti ekki gert það nema með æðri hjálp, frá einhverju sem var meira en ég. Ég gat ekki verið það æðsta, það þurfti að vera eitthvað sem var meira en ég.“
Linda sá ekki fyrir sér persónu eins og er í mörgum trúarbrögðum. „En mín trú er að það er æðri orka yfir mér, sem er svona hvít og fjólublá, og það er einhver orka í alheiminum sem ég trúi á og að við fáum það til baka sem við setjum út í hana,“ segir hún.
„Ég kláraði krabbameinsmeðferðina í september 2019 og fór í tveggja vikna ferð til Gvatemala í janúar 2020. Fram að því hafði hver einasti dagur verið litaður af krabbameini. Ég var svo hrædd og kvíðin og með svo mikið samviskubit um að ég myndi mögulega deyja frá börnunum mínum að ég vaknaði upp á næturnar, öskrandi og grátandi um að ég myndi skilja þau eftir. Ég gat ekki sofið og var að bilast. En ég fór þarna til Gvatemala í jóga-hugleiðsluferð á dásamlegum stað uppi í fjalli í tvær vikur. Og það síðasta sem dóttir mín sagði við mig, sem þá var 13 ára var: „Mamma, skildu svo þetta krabbamein eftir uppi á þessu fjalli sem þú ert að fara.““
Linda ákvað að gera það, og líka finna út hver hún er, hvað nærir hana, hvað vildi hún taka með sér og hvað vildi hún skilja eftir. Hún ræðir nánar um ferðina og spiritúalismann í þættinum sem má hlusta á hér.
Í dag er það hluti af lífi Lindu að iðka andlegu hliðina. Hún heldur úti Unalome.is, sem er bæði netverslun en einnig hægt að bóka hjá henni 1:1 tíma, en Linda er menntaður félagsráðgjafi og hefur lokið námi í Compassion Focused Therapy. Lestu nánar um hvað ráðgjöfin snýst um hér.
Fylgdu Lindu á Instagram.