fbpx
Laugardagur 01.nóvember 2025
Fókus

Rannsóknarlögreglumaðurinn Guðjón: Fólk hefur tapað tugum milljóna á þessum svindlum

Guðrún Ósk Guðjónsdóttir
Laugardaginn 1. nóvember 2025 09:00

Guðjón Rúnar Sveinsson.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Rannsóknarlögreglumaðurinn Guðjón Rúnar Sveinsson er gestur vikunnar í Fókus, viðtalsþætti DV. Hann ræðir um ýmsar tegundir netsvindla í þættinum, hvað skal varast og hvað sé gott að vita. Hann hvetur fólk til að vera gagnrýnið en svindlin eru sífellt að verða þróaðri og fágaðri. Það eru heilu hóparnir sem vinna við að hafa af öðrum fé og þó sumir hópar séu viðkvæmari en aðrir þá geta allir lent í þessu. Hann nefnir dæmi um að einstaklingar hafa tapað tugum milljóna í slíkum svindlum og fyrirtæki yfir hundrað milljónum, bara á þessu ári.

Samkvæmt Þjóðarpúlsi Gallup telja 73% landsmanna að reynt hafi verið að svindla á þeim eða svíkja út úr þeim pening á síðastliðnu ári. En fæstir tilkynna þetta.

Guðjón segir skömm spila þar inn í. „Flestir skammast sín fyrir að hafa lent í þessu,“ segir hann og bætir við að þetta sé samt ekkert skömmustumál, það séu allir útsettir fyrir þessu.

Algengustu tegundir svindla

„Algengustu tegundirnar eru þær sem eru sjaldnast tilkynntar til lögreglu. Það eru svokölluð fyrirframgreiðslusvik. Það er þegar þú ert að borga fyrir einhverja vöru eða þjónustu sem þú síðan færð ekki eða færð ranga vöru eða eitthvað álíka. Eða þar sem þú ert að versla í gegnum svikasíður eða eitthvað álíka. Þetta eru svona algengustu svikin, en ástæðan fyrir því að við fáum lítið af því er að fólk veigrar sér kannski við að tilkynna til lögreglu þegar um er að ræða smærri fjárhæðir,“ segir Guðjón.

„Þar á eftir má segja að það séu tölvupóstssvikin, sms-svikin, sem eru svona einna algengustu svikin sem við fáum tilkynningar um.“

Algengt að nöfn íslenskra fyrirtækja séu notuð

Guðjón tekur dæmi um tölvupóstssvik. „Þeir eru að reyna á trúgirnina. Í mörgum tilvikum eru þeir að reyna að fá þig til að senda peninga, hræða þig,“ segir hann og segir þessa tegund eiga meira skylt við fjárkúgun.

„Þegar er verið að tala um að menn hafi verið á einhverjum klámsíðum eða einhverju álíka, þá er verið að kúga fé út úr fólki með því að hræða það. Með SMS-svikunum er verið að reyna að komast yfir rafræn skilríki. Það er algengt að það sé verið að nota íslensk fyrirtæki og senda í nafni þeirra.“

En er eitthvað hægt að gera ef svikahrappur kemst yfir rafræn skilríki og inn á heimabanka?

Guðjón segir að það sé mjög erfitt þar sem það er búið að samþykkja að einhver fari inn á heimabankann. „Við verðum að passa okkur, að samþykkja ekki hvað sem er með rafrænum skilríkjum. Vera með gagnrýna hugsun gagnvart þessum hlutum,“ segir hann.

„Við verðum að passa okkur, að samþykkja ekki hvað sem er með rafrænum skilríkjum. Vera með gagnrýna hugsun gagnvart þessum hlutum,“ segir Guðjón.

Peningarnir fara snögglega

Guðjón segir að þetta gerist mjög hratt, en samkvæmt reglum Evrópusambandsins þurfa bankagreiðslur að gerast hratt og örugglega. „Sem veldur okkur náttúrulega vandamálum. Þegar þú lendir í þessum svikum þá eru peningarnir farnir mjög snögglega frá þér og á annan reikning. Oft á tíðum innan nokkurra mínútna eða klukkustunda eru þeir farnir og þá er lítið sem er hægt að gera. Þess vegna erum við að hvetja fólk til að tilkynna til lögreglu eða bankanna innan 24 tíma. Eftir sólarhring eru möguleikarnir orðnir litlir og verða nánast að engu eftir 72 tíma. Við höfum séð mál þar sem að peningarnir hurfu á einfaldlega nokkrum mínútum,“ segir Guðjón og bætir við að gervigreindin spili líka inn í þessa hröðu þróun.

„Þetta er orðið þannig að það skiptir engu máli hversu tölvulæs við erum, eða ung, það geta allir lent í þessu. Svikin eru orðin svakalega vel þróuð, þróunin hjá þeim er að aukast alveg gífurlega og náttúrulega með tilkomu til gervigreindar enn þá betur. Ég sagði það nú einhvern tímann að íslenskan er kannski að hjálpa okkur. Hún er svona eitt helsta vopnið okkar hérna heima sem við getum nýtt, eins og að taka eftir málsfarsvillum.“

Ástarsvindl

Dæmi er um að aðilar hafi tapað mörgum milljónum í svokölluðum ástarsvindlum.

„Það er þannig að fólk stofnar til einhvers sambands, vina- eða ástarsambands, í gegnum Facebook, Einkamál eða aðrar samskiptasíður. Spjalla lengi við fólkið. Þetta er verknaðaraðferð sem tekur tíma, það þarf að ávinna sér traust þolandans. Og síðan byrja þeir að biðja um peninga, annaðhvort til að koma til landsins eða þeim vantar pening til að gera þetta eða hitt. Oft á tíðum smáar upphæðir í einu. Síðan safnast þetta jafnóðum upp og við erum að sjá alveg tugi milljóna fara í þessum málum,“ segir Guðjón.

„Við megum heldur ekki gleyma því að þetta eru einstaklingar sem eru að brjóta af sér og þeir víla ekkert fyrir sér. Þeir eru ekkert að velta fyrir sér hvort að þú eigir litla peninga eða hvað. Þá vantar bara fjármunina. Þeir ráðast líka á samvisku fólks. Það er mjög algengt, því miður.“

Guðjón segir að það sé allur gangur á því hvað fólk sé að tapa miklu í netsvindlum.

„Við erum að sjá allar upphæðir. Hæstu upphæðir sem við höfum séð eru svokölluð fyrirtækjasvik, sem eru annars eðlis. Það hefur hlaupið á hundruðum milljóna. Hæsta upphæðin sem við höfum bara á þessu ári er yfir 100 milljónir. Einstaklingar hafa verið að tapa tugum milljóna,“ segir hann og þá eru einstaklingar aðallega að lenda í ástar- eða fjárfestingarsvikum.

Ástarsvindlarar hafa svikið tugi milljóna út úr hrekklausum Íslendingum - DV

Fjárfestingarsvik

„Þetta er rosalega algengt að fólk sér einhverjar auglýsingar á Facebook fyrir Bitcoin eða einhverri fjárfestingu sem er „rosalega góð“, en er í raun og veru bara svindl. Fólk er að fjárfesta í slíku og lætur þar af leiðandi tugi milljóna frá sér,“ segir Guðjón og útskýrir nánar hvernig þetta virkar.

„Það er oft á tíðum gert þannig að upphaflega fjárfestirðu kannski fyrir einhverja litla upphæð og sérð gróðann. Þeir sýna þér skjá þar sem þú sérð „gróða.“ Þú óskar eftir að fá endurgreitt og þegar þú færð þennan litla gróða, segjum þú leggur inn tíu þúsund kall og sérð að það er kominn gróði upp á þrjú þúsund krónur. Þannig að það er nokkuð góð ávöxtun, svona miðað við stuttan tíma. Þú óskar eftir að fá peninginn og í sumum tilvikum færðu pening og þá ertu farinn að treysta kerfinu. En þá eru þeir búnir að veiða þig. Þá setur þú 100 þúsund kall eða ferð í milljón og vilt græða meira, þá eru þeir búnir að ná þér. Þá hafa menn séð að þeirra ávöxtun snögghækkar. Fer úr einhverjum örfáum prósentum í alveg ótrúlegar tölur, 20, 30, 40, 50, 60 prósent. Síðan þegar þú ætlar að fá peninginn til baka þá óska þeir eftir að þú greiðir skatt til að fá peninginn. Upphæðin er einhver prósenta af heildarupphæðinni, sem þú greiðir í von um að fá peninginn. Þarna ertu þá búinn að spreða X upphæð plús skattinn. Síðan fer fólk að átta sig á að þarna sé um svindl að ræða og í mörgum tilvikum lætur það lögreglu vita. Í sumum tilvikum gerir það ekki. Þá hefst næsta skref í svindlinu, sem er að svikararnir bíða í smá tíma. Getur verið vika, mánuður, þrír mánuðir. Þá er hringt í þig eða haft samband í gegnum tölvupóst og þér tilkynnt að peningurinn liggur inni á bankabók og þeir séu einu aðilarnir sem geta hjálpað þér að ná þessum pening út. Til þess þarftu að greiða einhverja X upphæð. Og þá hefst þetta upp á nýtt,“ segir Guðjón og bætir við: „Við erum að sjá þetta gerast og höfum verið að gera það í nokkur ár. Þetta er mjög fágað.“

Guðjón hvetur fólk til að vera gagnrýnið, skoða hver sé að senda tölvupóstana, hvort skilaboðin séu persónuleg eða þau séu til „kæri viðtakandi“, skoða málfarið og aldrei samþykkja rafræn skilríki nema þú sért alveg viss um hver sé að óska eftir þeim. Hann ræðir nánar um netsvindl, hvað skal varast og dæmi um fyrirtækjasvindl þar sem fyrirtæki hafa tapað hundruðum milljóna í þættinum sem má hlusta á Spotify eða öllum helstu hlaðvarpsveitum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Franska forsetafrúin í öngum sínum yfir samsæriskenningu – „Hún getur ekki leitt þennan hrylling hjá sér“

Franska forsetafrúin í öngum sínum yfir samsæriskenningu – „Hún getur ekki leitt þennan hrylling hjá sér“
Fókus
Fyrir 2 dögum

Afhjúpar ástæðuna fyrir því að vináttunni lauk: „Ég hef nú þegar sagt of mikið“

Afhjúpar ástæðuna fyrir því að vináttunni lauk: „Ég hef nú þegar sagt of mikið“
Fókus
Fyrir 4 dögum

Augu Kristínar opnuðust á föstudaginn: Sorgmædd þegar hún leit út um gluggann og sá hver kom út úr stigaganginum

Augu Kristínar opnuðust á föstudaginn: Sorgmædd þegar hún leit út um gluggann og sá hver kom út úr stigaganginum
Fókus
Fyrir 4 dögum

Þórdís Dröfn hlýtur Bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar 2025

Þórdís Dröfn hlýtur Bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar 2025
Fókus
Fyrir 4 dögum

Ásdís Rán stolt af tengdasyninum

Ásdís Rán stolt af tengdasyninum
Fókus
Fyrir 5 dögum

Gerður missti son sinn: „Ég talaði við hann á föstudeginum og þá var hann búinn að segja öllum hversu illa honum liði“

Gerður missti son sinn: „Ég talaði við hann á föstudeginum og þá var hann búinn að segja öllum hversu illa honum liði“
Fókus
Fyrir 5 dögum

Hrekkjavökudrottningin tísar búninginn í ár – Nær hún að toppa fyrri búninga? Sjáðu myndirnar

Hrekkjavökudrottningin tísar búninginn í ár – Nær hún að toppa fyrri búninga? Sjáðu myndirnar