

„Hann skipti um skóla og fór í einkarekinn grunnskóla í Hafnarfirði sem lofaði að taka við honum og leyfa byrja með autt blað og koma til móts við hann. Það stóðst ekki og hann var rekinn úr þessum einkarekna skóla fyrir að veipa, ekki inni á skólalóð,“ segir hún.
Á þessum tíma voru þau að bíða eftir MST úrræði á vegum barnaverndar en hún segir að skólinn hafi ekki verið tilbúinn að bakka.
Eftir að María fór á stúfana var annar skóli tilbúinn að taka hann inn tvo daga í viku eftir að allir væru farnir heim.
„Einn daginn kom hann heim henti hann frá sér töskunni, skellti hurðum og öskraði að það mætti halda að hann væri eitraður,“ segir hún.
María segir að það síðasta sem barn í vanda þarf sé að vera einangrað frá öðrum. Eftir þetta fór allt niður á við. Hann byrjaði í neyslu og strauk af heiman, hann var vistaður á Stuðlum og segir María að þau foreldrarnir hafi upplifað mikla hræðslu.
Hann fór í allt sem kerfið bauð upp á, en ekkert virkaði. María segir að það sé neysla á öllum stöðum: Stuðlum, neyðarvistun, Blönduhlíð og hvergi var hægt að hafa hann öruggan.
„Eftir að barnavernd hafði lofað öllu fögru aftur og aftur fór ég að skoða meðferðina í Suður-Afríku sem ég gerði ekki af léttum hug. Ég gerði það til þess að reyna að halda syni mínum á lífi,“ segir hún.
„Barnavernd í Kópavogi reyndi að banna okkur að fara og reyndu að setja hann, 16 ára, í farbann. Þar að auki hótaði barnavernd að handtaka mig ef ég færi með hann út. Hann er eða var barn í vanda sem fékk enga aðstoð á Íslandi og barnavernd reyndi að stoppa okkur foreldrana í að fá aðstoð fyrir barnið okkar,” segir María.
Hún fór til Suður-Afríku að heimsækja son sinn og vera með honum á 17 ára afmælinu hans og skoða meðferðina.
„Ég bauð bæði Funa og fleirum háttsettum að koma með eða að senda starfsmenn í námsferð til að kynna sér úrræðið þar sem sonur minn var loksins að verða eins og hann átti að vera en þetta fólk hló framan í mig.”
María fékk að vera partur að dagskránni hluta ferðarinnar og veit nú fyrir víst að sonur hennar er í góðum höndum. Hún ræðir þetta nánar í þættinum.