Síðastliðið föstudagskvöld var tónlistarkonan heimsfræga Taylor Swift meðal gesta í hinum vinsæla spjallþætti Graham Norton í breska ríkissjónvarpinu. Þátturinn er tekinn upp en ekki sendur beint út og einstaklingur sem var meðal áhorfenda í myndverinu fullyrðir að annar gestur hafi spurt Swift persónulegrar spurningar sem Norton hafi þótt fara yfir strikið. Hann hafi strax skipt um umræðuefni og öll samskiptin hafi síðan verið klippt út úr þættinum og því ekki sést í útsendingunni um kvöldið.
Þættir Norton eru sýndir síðla kvölds á föstudögum á BBC og því yfirleitt teknir upp fyrr um daginn. Breskar stjörnur eru tíðir gestir í þættinum en ekki síður koma bandarísk fræðgarmenni í heimsókn. Gestir eru yfirleitt 4-6 og sitja allir saman í þættinum eins og venjan er í spjallþáttum í Bretlandi. Andrúmsloftið í þætti Norton þykir mjög afslappað og oftast er gestum boðið upp á áfenga drykki. Margar bandarískar stjörnur segja þáttinn skemmtilegasta spjallþáttinn sem þær hafi verið gestir í. Swift hefur áður komið í þáttinn en í þetta sinn kom hún einkum í þeim tilgangi að kynna nýja plötu sína The Life of a Showgirl en hún hefur einnig mætt í helstu spjallþætti í Bandaríkjunum til að kynna plötuna.
Áhorfandinn í myndveri BBC sagði frá atvikinu á TikTok en fram kemur í umfjöllun New York Post að viðkomandi fullyrði að breska leikkonan Jodie Turner-Smith, sem var einnig meðal gesta hafi gripið fram í þegar Norton var að spyrja Swift út í væntanlegt brúðkaup hennar og NFL-leikmannsins Travis Kelce. Turner-Smith hafi spurt:
„Hvað með börn?“
Áhorfandinn segir að Swift hafi misskilið spurninguna og talið hana snúast um hvort börn mættu koma í brúðkaupið og hafi svarað því að 18 ára aldurstakmark yrði.
Þetta hafi hins vegar ekki verið það sem leikkonan var að spyrja um:
„Nei, ég meina ætlið þið að eignast börn?“
Áhorfandinn segir að Norton hafi strax gripið inn í og beitt samræðunum í aðra átt. Það hafi ekki komið sér á óvart að þetta augnablik hafi síðan verið klippt út úr þættinum, spurningin hafi einfaldlega verið óviðeigandi, sérstaklega fyrir framan sjónvarpsmyndavélarnar.
Það mun hafa verið misjafnt í gegnum tíðina hversu áhugasöm Swift, sem er 35 ára, hefur verið um að eignast börn. Hún hefur áður neitað að svara spurningum um barneignir en í útvarpsviðtali á BBC í gær sagði hún þó að ef hún og Kelce eignist börn muni hún ekki hætta að semja tónlist.