

Töffarinn og spennumyndaleikarinn Bruce Willis glímir við alvarlega heilabilun sem kallast á ensku frontotemporal dementia (FTD). Sjúkdómurinn hefur ágerst hratt og á aðeins þremur árum hefur Willis dregið sig alfarið úr sviðsljósinu og nýlega fluttist hann á hjúkrunarheimili. Eiginkona leikarans, Emma Heming Willis, berst nú fyrir vitundarvakningu um sjúkdóminn.
Willis var fyrst greindur með málstol árið 2022 en seinna varð ljóst að málstolið var einkenni alvarlegrar heilabilunar. Emma segir nú í samtali við NewNation að hún hafi tekið eftir einkennum málstols hjá manni sínum en ekki áttað sig á því hversu alvarleg þau voru.
„Ég held það hafi verið þegar ég tók eftir því að hann var aftur farinn að stama. Bruce stamaði mikið þegar hann var barn og eitthvað í gegnum fullorðinsárin, en náði góðum tökum á því. Svo tók ég eftir því að stamið var byrjað að koma aftur. Ekki í mínum villtustu draumum hefði mig órað fyrir því að þetta væri einkenni FTD.“
Emma segir að á svipuðum tíma hafi persónuleiki leikarans tekið breytingum. Hún hélt að þau væru að glíma við hjónabandserfiðleika. Þetta var ekki maðurinn sem hún giftist. Hún sá svo að þetta væri hreinlega ekki eðlilegt. Það var eitthvað alvarlegt að.
„Ég skildi loksins að þessir biluðu hjónabandserfiðleikar voru ekki vegna Bruce,“ sagði Emma í samtali við Oprah Winfrey í september. Skapofsaköst og breytingar í persónuleika voru merki um að eitthvað væri að í heila leikarans. Sjúkdómurinn var byrjaður að ræna eiginmanninum frá henni.
Emma gaf nýlega út bók um lífið með sjúkdómnum og reynslu sína af því að hugsa um mann sinn á meðan sjúkdómurinn versnaði. Hún segir þetta hafa verið dýrmæta reynslu sem hafi breytt henni til frambúðar.