

Söngvarinn og poppstjarnan Páll Óskar Hjálmtýsson er nýjasti gestur Einars Bárðarsonar í hlaðvarpsþáttunum Einmitt. Í opinskáu og einlægu viðtali ræðir Páll óskar ástina, listin og slysið sem hann er ennþá að vinna sig út úr. Í þættinum segir hann í fyrsta sinn frá því að hann fékk taugaáfall við það að frétta óvænt að kær vinkona hans, dragdrottningin Heklína hafði verið myrt í London.
Stefan Grygelko var þekktur sem dragdrottningin Heklína. Grygelko átti íslenska móður en fæddist í Bandaríkjunum. Hann hóf feril sinn sem dragdrottning í San Francisco um miðjan tíunda áratuginn og var þekkt nafn innan senunnar og áhrifamikil bæði hér á Íslandi og erlendis. Nafnið Heklína var dregið af heiti eldfjallsins Heklu. Heklína var talin hafa látist í hótelherbergi í London í apríl 2023 en lögreglan hafði aldrei lokað rannsókninni og hélt henni frá aðstandendum Heklínu og vinum.
Það var svo í janúar 2025 sem lögreglan í London birti skyndilega myndir af þremur grímuklæddum mönnum á hótelgangi í London og það fylgdi myndbirtingunni að lögreglan vilji ná tali af þessum mönnum í tengslum við rannsóknina á andláti Heklínu.. Vinkona Palla sendi honum þá skilaboð í gegnum símann þar sem hún spyr hvort hann sé búinn að að sjá fréttina sem þá var í fjölmiðlum í London.
„Ég fattaði ekki fyrst um hvað þessi frétt væri. En þar sem ég að súmma inn með puttunum inn á þessar ljósmyndir, þá fatta, ég, þetta er London, þetta er apríl 2023. Bíddu, þetta er akkúrat dagurinn þar sem Stephen deyr. Þá tengdi ég. Bíddu, og það eru ekki bara einn, ekki tveir, heldur þrír gaurar að fara inn í íbúðina og þetta næst á vídeókameru og tveir þeirra eru með grímur. Og það var engin grímuskylda á þessum tíma. Kófið var búið. Engin ástæða til þess að vera með grímur. Og það er bara akkúrat þegar ég er að súmma inn með puttunum að ég fatta, hann hefur verið drepinn og ég fæ taugaáfall.”
Sjá einnig: Var íslenska dragdrottningin myrt? – „Það hefur ekkert áunnist í þessari lögreglurannsókn“
Páll lýsir því á hispurslausan hátt hvernig fréttin af andlátinu sló hann gjörsamlega út af laginu og ofan í allt annað sem gekk á í hans lífi sló áfallið hann alveg út. Í þrjá sólarhringa svaf hann ekki, borðaði ekki og hugsaði ekki skýrt. Hann sá síðustu klukkutíma í lífi vinar síns hringsnúast í kringum sig. Á endanum leið yfir hann af álaginu, hann skall með höfuðið í steintröppu og varði næstu sólarhringum á sjúkrahúsi og næstu mánuðum í endurhæfingu.
„Ég hef aldrei fengið taugaáfall, ekki fyrr en þarna”, segir Páll. „Ég gat ekki gert neitt. Ég gat varla staðið upp úr sófanum. Og ég hafði ekki stjórn á neinu. Ég pissaði út fyrir. Ég hitti ekki einu sinni í klósettið.” Og hann heldur áfram:
„Ég brotna niður og græt. Ég pissa út fyrir og brotna niður og græt. Ég reyni að koma hleðslutækinu inn í símann og ég náði aldrei að hitta hleðslutækið inn í gatið á símanum og ég missi símann í gólfið og græt.”
Þáttinn í heild sinni má finna hér.