

„Ég tók því mjög alvarlega að leyfa honum að sofa en vekja hann á þriggja tíma fresti til að drekka. Hann var orðinn stór og sprengdi allar kúrvur þriggja mánaða gamall,“ segir hún.
Hún segir að það hafi nánast verið á fyrsta afmælisdeginum hans þegar hann breyttist úr glaðasta barni í heimi í mikinn hugsuð og fór meira inn í sig. Hjalti fékk asperger greiningu fimm ára gamall. Hann passaði ekki inn í box skólakerfisins og átti erfitt félagslega en var afburðagreindur.
„Ég man að það var mikið talað um að takmarka skjátíma en þar fóru fram hans félagslegu samskipti og var mjög klár í að búa til myndbönd á YouTube,“ segir Gerður.
Gerður segir að eins og gjarnan fylgir asperger þá fékk Hjalti þráhyggjur fyrir ýmsum hlutum í einhvern tíma, hann hellti sér í það og lærði allt um það sem hann hafði áhuga á að hverju sinni. Hún segir að hann hafi alltaf séð fyrir sér að eignast maka og börn í framtíðinni, að eiga heima í sveit og verða sjálsþurftarbóndi.
Gerður segir að þegar Covid skall hafi Hjalti misst alla trú á mannkyninu og fests í samsæriskenningum. „Hann sá ekki lengur þessa björtu framtíð og fann trú á netinu og ætlaði sér að verða munkur,“ segir hún. Hann varð strax alveg heillaður af þessum munkum sem lifa í fjöllum í Grikklandi.
„Hann var orðinn agressívur heima gagnvart okkur foreldrum og að það væri rangt sem við trúðum en rétt hjá þeim.“
Á meðan hann bjó heima náðu foreldrar hans samt að hafa einhverja yfirsýn með hans rútínu og hann kláraði framhaldsskóla.
„Hver var ég svosem að dæma einhverja trú, ég vildi bara að honum liði vel,“ segir Gerður.
Gerður segir að á einhverjum tímapunkti hafi Hjalti misst alla stjórn. Hún segir að hann flutti til Reykjavíkur og sótti Rétttrúnaðarkirkjuna, þar sem presturinn vildi skíra hann.
„Hann hringdi í mig með efasemdir vegna þess að samkvæmt fræðunum þarftu að læra undir handleiðslu í þrjú ár áður en þú ert skírður en hann var bara búinn að læra sjálfur í nokkra mánuði. Ég var sjálf orðin þreytt á þessu og sagði honum að hann yrði að treysta þessum presti líka,“ segir hún.
Gerður mætti í þessa skírn og hún segir að þar hafi hún bara fundið kærleika og gott fólk, svo hún vonaði að hann hafði fundið sinn stað í lífinu og vildi ekki dæma neinn fyrir trú eða val á söfnuði.
Hann fann sér svo annan prest á netinu sem var ennþá strangari því þetta var ekki eins strangt og hann hafði lesið um.
„Asperger virkar svona, hann hafði alla tíð reynt að lækna asperger-ið sitt með ótal ráðum. Hann vildi bara passa inn og vera venjulegur. Passaði 100% upp á mataræði og svoleiðis til dæmis,“ segir Gerður.
„Áður en við vissum af var hann kominn í geðrof. Þá fengum við að vita að það væri algengt fyrir þá sem væru með einhverfu að fara í geðrof um tvítugt.“
Gerður segist vera afar ósátt við að hafa ekki fengið upplýsingar um það fyrr til þess að hafa geta verið á varðbergi. Hún segir að við tóku geðdeildir, sem hún segir að séu bara geymslur, sérstaklega á Akureyri. Hún segir að hann hafi verið svo lyfjaður að hann hafi ekki verið með réttu ráði. Hún segir að það hafi margt gengið á sem hún var og er afar ósátt við.
Hjalti fór, ásamt móður sinni, í ferð til Grikklands til að heimsækja munkaklaustrið sem hann þráði að tilheyra.
„Eftir dagmeðferð hjá geðdeild Akureyrar þar sem hann sagði auðvitað bara það sem fagfólkið vildi heyra fór hann á Laugarás. Þar var ég viss um að fengi loksins þá aðstoð sem hann þyrfti,“ segir hún.
Síðustu dagar Hjalta voru sorglegir og erfitt er fyrir Gerði að rifja þá upp: „Ég man að hann var búinn að segja mér að ef að presturinn úti myndi banna honum að borða fisk ætlaði hann ekki að hlusta á hann, hann var búinn að átta sig á að hann þyrfti að borða. Laugarás ákvað þá að banna honum að borða matinn sinn þar,” segir hún.
„Ég talaði við hann á föstudeginum og þá var hann búinn að segja öllum hversu illa honum liði. Í lok símtals var verið að kalla hann í viðtal og ég sagði við hann að nú væri verið að grípa hann og hann yrði að þiggja það,“ segir Gerður.
Hjalti Snær fannst látinn í sjónum á milli Engeyjar og Viðeyjar í maí .Hjalta hafði verið saknað síðan í mars, hann var 22 ára.
Hlustaðu á allt viðtalið við móður Hjalta hér.