

Myndbandið var tekið á miðvikudagskvöld og sýnir Britney meðal annars á veitingastað með ónefndri konu. Þá sést hún aka bifreið sinni sem rásar á milli akreina og sést greinilega að hún var í engu ástandi til að sitja undir stýri.
Í frétt Mail Online kemur fram að Britney hafi borðað á veitingastaðnum Red O Taste of Mexico í Thousand Oaks á miðvikudagskvöld. Segja vitni að hún hafi virst óstöðug á fótum og meðal annars rekið sig í glös.
Hún yfirgaf svo staðinn og segir í fréttinni að þrátt fyrir að starfsfólk staðarins og aðrir hafi hvatt hana til að setjast ekki undir stýri hafi hún ekið á brott á BMW-bifreið sinni. Ók hún frá staðnum og heim til sín, eða um 8 kílómetra leið. Segir vitni að þegar heim var komið hafi Britney átt í stökustu vandræðum með að opna hliðið við glæsihús sitt.
Heimildir Mail Online herma að ævisaga fyrrverandi eiginmanns hennar, Kevins Federline, hafi farið mjög illa í hana.
Í bókinni lætur hann ýmislegt flakka um hjónaband þeirra sem stóð yfir á árunum 2004 til 2007 og rifjar meðal annars upp óhóflega notkun Britney á áfengi og lyfjum. Hún hafi til dæmis neytt kókaíns áður en hún ætlaði að gefa syni sínum brjóst.
„Bók Kevins er að ýta Britney út af sporinu. Hún er í niðursveiflu og þetta er að opna gömul sár,“ segir heimildarmaður miðilsins.