Þættirnir sem um ræðir voru sýndir á árunum 2007 til 2015 og eru af mörgum taldir í hópi bestu leiknu sjónvarpsþátta sem framleiddir hafa verið.
Þættirnir gerast á sjöunda áratug síðustu aldar og segja frá skrautlegum karakterum í auglýsingasölubransanum í New York. Tíðarandinn þá var aðeins annar en hann er í dag og ýmislegt viðgekkst í þá daga sem myndi ugglaust ekki viðgangast í dag.
Þetta virðist hafa skilað sér í einhvers konar ritskoðun því einn þáttur seríunnar er ekki aðgengilegur á streymisveitunni, en það er þriðji þátturinn í þriðju þáttaröðinni.
My Old Kentucky Home heitir þátturinn og var hann fyrst sýndur árið 2009. Í þættinum birtist ein af aðalsögupersónunum, Roger Sterling sem leikinn er af John Slattery, með svarta málningu í andlitinu, svokallað „blackface“ – það er andlitsgervi hvítrar manneskju sem málar sig svarta eða brúna í framan. Oftar en ekki er litið á gervið sem móðgun við svart fólk. Þá syngur Roger níðsöngva sem beinast að þrælum.
Þetta hefur vakið talsverða gagnrýni hjá fólki á samfélagsmiðlum eins og fjallað er um á vef ástralska vefmiðilsins News.com.au.
„Einmitt, fjarlægjum bara heilan þátt – lykilþátt í þáttaröðinni. Rasismi fékk að viðgangast og að láta eins og það hafi aldrei gerst er ekki bara heimskulegt heldur líka hættulegt,“ sagði til dæmis einn reiður netverji.
Fleiri tóku í svipaðan streng.
„Þetta er fáránlegt því Roger var málaður upp sem hálfgerður fábjáni í þættinum fyrir að gera þetta. En það er víst ekki hægt að treysta fólki fyrir að hugsa heila hugsun,“ sagði annar.