Hrafnhildur Sigmarsdóttir, ráðgjafi hjá Stígamótum og sjálftitluð snobbhæna, skrifar með kostulegum hætti það hvernig flottræfilshátturinn kom henni í koll, í lúxusferð á sólarströnd, í grein sem birtist hjá Heimildinni í dag.
Þar greinir Hrafnhildur frá því hvernig hún dröslaði „alþjóðlega derhúfukallinum“ sínum með sér á lúxushótel á sólarströnd þar sem hún ætlaði svo sannarlega að njóta, en komst svo að því að stimpillinn lúxus þýðir ekki sjálfkrafa að lífsreynslan verði góð.
„Maturinn á hótelinu er margverðlaunaður og einn veitingastaður hótelsins hafði nýverið eignast sína fyrstu Michelin-stjörnu. Ég uppveðraðist öll við tilhugsunina um að bæta Michelin-veitingahúsaferð á lista lífsreynslu minnar. Ég bý yfir nokkrum ágætis mannkostum en lífsstíll umfram launagetu er löstur sem lengi hefur fylgt mér.“
Hrafnhildur hafði áður farið á þetta hótel og lofað sjálfri sér að koma þangað aftur með ferðafélaga sem kynni að njóta. Þess í stað tók hún manninn sinn með, „síst snobbaða mann landsins“.
Á meðan hún eyddi gífurlegum tíma að skipuleggja hvaða fötum hún ætlaði að pakka í þessa lúxusferð þá skottaðist maður hennar í Costco og keypti sér stuttbuxur.
Þegar þau voru komin á áfangastað þá héldu þau á fína Michelin-veitingastaðinn.
„Í stað þess að beita skynsemi og lesa yfir matseðilinn og skoða verð þá bar flottræfilshátturinn minn mig ofurliði og á örskotsstundu vorum við búin að bóka borð. Ég klæddi mig í klassískan svartan kjól og hlóð mig öllu gulli sem ég átti. Ég fór í notuðu Gucci-skóna sem ég keypti með raðgreiðslum á Netgíró og setti á mig Burberry-úrið sem ég hafði keypt fyrir löngu pissfull í París. Þessa kvöldstund ætlaði ég að vera fremst meðal fágaðra jafningja..“
Þau ákváðu að panta sér smáréttaferðalag á fína veitingastaðnum. Þegar fyrsti réttur var borinn fram var mikið umstang og fágaðar lýsingar á matnum. Þá fékk Hrafnhildur áfall.
Af 14 réttum samanstóðu ansi margir af fisk. Hrafnhildur er ekki hrifin af fisk. Ekki átti það eftir að skána og í 3 klukkustundir mátti Hrafnhildur sitja á fína veitingastaðnum í fína kjólnum og borða mat sem henni þótti vondur sem kom að auki í afkáralega litlum skömmtum.
„Yfirlætisfullt dramb mitt og stolt hafði enn einu sinni gert mig að fífli. Ég gekk út af veitingastaðnum niðurlút og með sjálfsmyndina í molum. Hafði maturinn verið óætur eða voru bragðlaukarnir mínir það mengaðir af Pepxi Max og skyndibitaneyslu æskuáranna að ég gat ekki kunnað að meta það allra fínasta?“
Það sem verra var þá var alþýðumaður hennar enn svangur eftir herlegheitin. Var þá komið að honum að grípa til sinna ráða og dró hann Hrafnhildi á MacDonalds. Þar fann Hrafnhildur fegurðina í hversdeginum.
„Hann sat sáttur og borðaði sitt á meðan ég sat niðurlút og í fýlu. „Sjáðu hvað sólsetrið er fallegt,“ sagði hann og benti í átt að sjóndeildarhringnum. Ég staldraði við. Það var satt hjá honum. Fegurðin og kyrrðin settu hlutina í samhengi. Korteri áður hafði ég verið að pína í mig ógeðslegum mat bara af því að hann var skreyttur Michelin-stjörnu en á McDonalds fann ég friðinn. Ég sprakk úr hlátri, tók sjálfa mig í sátt og hugsaði hvað kennslustundir í hógværð og auðmýkt geta verið fáránlega fyndnar. Ég skakklappaðist því skælbrosandi heim á hótel í gömlu Gucci-skónum með nokkrar McDonalds franskar í annarri hendinni og Costco-kallinn minn í hinni.“
Nánar má lesa um upplifun Hrafnhildar í grein hennar hjá Heimildinni.