fbpx
Laugardagur 20.júlí 2024
Fókus

„Stundum þarf fólk svona áföll til að snúa lífinu við“

Erla Dóra Magnúsdóttir
Sunnudaginn 9. júní 2024 09:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Anton Ísak Óskarsson gekk í gegnum erfitt áfall þegar hann missti föður sinn úr sjálfsvígi fyrir þremur árum. Hann fann sig þá á tímamótum. Gömlu vinirnir höfðu hægt og rólega horfið úr lífi hans og hann var því einn og hafði þá tíma og rými til að horfa inn á við. Hann áttaði sig á því að lífið er dýrmætt og tíminn takmarkaður og þannig hófst ferðalag hans sem einkennist af sjálfsvinnu þar sem hann tók líf sitt í gegn að innan sem utan. Nú vill hann miðla reynslu sinni og hjálpa öðrum sem hafa áhuga á að því að lifa betra lífi.

„Þegar ég hóf mitt ferðalag, sjálfsvinnuferðalagið, eftir að ég missti pabba fór ég að taka til í mínu lífi. Hvað ég borða, hvaða fólk ég hef í kringum mig og allt. Ég í rauninni vaknaði upp af vondum draumi. Horfðist í augu við sjálfan mig og hvað ég hefði getað og gæti gert betur. Pabbi hafði lifað sínu lífi á ákveðinn hátt, sem var ekkert rosalega heilbrigt.“

Það þarf myrkur til að sjá stjörnur

Anton hefur deilt því með fylgjendum sínum á TikTok að eftir að faðir hans kvaddi hafi hann upplifað allar tilfinningar í bókinni. Hann var bæði sár og reiður en á sama tíma upplifði hann eftirsjá að hafa ekki nýtt tímann sem þeir höfðu saman betur, og ekki átti í betri samskiptum.

„Ég lét þetta áfall taka of mikla orku frá mér, leyfði því að stjórna mér, taka mig yfir,” segir Anton í einu myndbandinu. Hann upplifði endalok en á sama tíma nýtt upphaf. „Oft fylgir miklu myrkri mikið ljós. Stundum þurfum við myrkrið til að kalla fram stjörnurnar. Til að kalla fram kosti okkar. Til að kalla fram manneskjuna sem við áttum alltaf að vera.”

Hann gekk í gegnum myrkrið og þunglyndið. Hann tengir því reynsluna að líða illa í sálinni. Að vera drukkna úr neikvæðni og vera í baráttu við sinn eigin huga, að reyna að flýja. Enginn á að skammast sín fyrir að líða illa, enginn er fullkominn. Hann vonar að ferðalag hans geti verið öðrum innblástur.

„Ég barðist í gegnum erfiðustu dagana. Stundum leið mér eins og ég gæti ekki meira. En ég hélt áfram alveg sama hvað gekk á. Ég vissi að ég gæti miðlað þessum upplýsingum áfram. Til að hjálpa þeim sem þurftu á mér að halda. Þú ert aldrei ein/n.“

@antonoskars áföll. #fyp #foryou #foryoupage #trending #viral ♬ Autumn Leaves – Timothy Cole

„Stundum þarf fólk svona áföll til að snúa lífinu við“

Löngun hans til að miðla reynslu sinni og hjálpa öðrum varð kveikjan að fyrirtæki hans, Matur er Meðalið. Þar hjálpar Anton fólki að eignast betra samband við mat og móta betri matarvenjur og lífsstíl.

„Ég vinn með hverri og einni manneskju með þeirra markmið í huga, en það er alltaf sama loka markmiðið að vera með góða andlega og líkamlega heilsu í daglegu lífi.“

Anton hafði lítið spáð í heilsunni áður. Hann borðaði óhollan mat, fór og fékk sér í glas um helgar og bara lifði lífinu án þess að hugsa neitt sérstaklega um það hvað hann væri að bjóða líkama sínum uppá eða hvaða áhrif það gæti haft til framtíðar. Það sé stundum svo að það sé ekki fyrr en fólk tekst á við sín stærstu áföll að það áttar sig á því hvað tilveran er hverful.

„Stundum þarf fólk svona áföll til að snúa lífinu við. Þarna voru kaflaskipti og ég varð mjög meðvitaður um hvað ég var að gera og hvað það skiptir miklu máli að hafa heilsuna í lagi. Þaðan kemur líka nafnið, matur getur verið meðal. Hann hefur áhrif á það hvernig okkur líður andlega, hvernig okkur líður í líkama okkar, hvernig við komum fram við aðra – alla hugsun og hegðun.“

Áður en maður elskar aðra

Eitt það mikilvægasta sem þetta ferðalag inn á við hefur kennt Antoni er hvað það er mikilvægt að geta elskað sjálfan sig. Það sé grundvallaratriði að koma fram við sjálfan sig og aðra af virðingu, borða rétta matinn, eyða tíma með réttu fólki og hreyfa sig.

„Áður en maður elskar aðra þarf maður að elska sjálfan sig. Fyrir mér er það sjálfsást að borða hollt og sýna líkamanum virðingu.“

Að elska og þekkja sjálfan sig skipti einnig máli hvað varðar samskipti við aðra. Ef maður þekkir sín gildi, sín eigin mörk, hvernig maður vill láta koma fram við sig, þá getur maður betur umkringt sig rétta fólkinu sem horfir lífið sömu augum.

„Þetta byrjar allt hjá okkur sjálfum. Þess vegna er matur svona mikilvægur. Hann fóðrar í okkur heilann og með því að fæða hann rétt virkar hann betu og þá erum við betri í því að velja það sem skiptir okkur máli.

Það á líka við um fólkið sem þú eyðir tíma með. Rétta fólkið skemmir ekki svona ferðalag fyrir þér heldur styður og skilur. Þegar ég missi pabba þá fjarar eiginlega allur minn vinahópur út, þeir vinir sem ég átti fyrir áfallið. Í kjölfarið upplifði ég tímabil þar sem ég var mikið einn, sem var í rauninni gæfuspor því ég hafði tíma og fókus til að taka til í mínu líf. Svo með tímanum kom rétta fólkið hægt og rólega inn í líf mitt, eftir að ég var kominn með hlutina á hreint. Það var eiginlega ótrúlegt.”

Honum þótti einnig mikilvægt að huga að andlegu hliðinni. Fólk finnur sáluhjálp með ólíkum leiðum en fyrir Anton var það trúin. og þar fann hann mikla hjálp í trúnni.

„Ég öðlaðist tengingu við Guð, fór að lesa biblíuna og varð svona andlegri. Þá einhvern veginn breyttist líf mitt á núll einni. Ég tengi það alltaf við þennan missi og það hefur verið uppsprettan að öllu sem ég hef verið að gera. Ég var ekki trúaður þegar ég var yngri, en ég er það núna og fyrir mér er það rosalega mikilvægt, sérstaklega þegar maður gengur í gegnum svona áfall. Þannig gat ég trúað því að hlutirnir yrðu betri.“

 

Vertu breytingin

Hreyfing er einnig mikilvæg heilsunni og Anton stundar líkamsrækt að miklum móð. Hann náði þeim áfanga að mæta daglega í ræktina í heilt ár. Anton hefur líka deilt reynslu sinni á TikTok og hefur fengið þar góðar viðtökur og yfir 400.000 áhorf á myndbönd sín þar. Svo er hann með ráðgjöfina sína, Matur er Meðalið þar sem lokamarkmiðið er alltaf að hjálpa fólki að komast á þann stað sem hann er á í dag, að hafa góða andlega og líkamlega heilsu í daglegu lífi.

@antonoskars hreinskilni. #fyp #foryou #foryoupage #trending ♬ Live in the Spirit – Josué Novais Piano Worship & Instrumental Worship and Prayer

Anton tók saman átta góð heilráð fyrir lesendur sem gætu verið að íhuga að byrja að leggja rækt við sjálfa sig.

  1. Vertu þú sjálfur, allir aðrir eru fráteknir
  2. Þú færð til baka það sem þú gefur
  3. Einu mistökin, sem er hægt að gera, er að gefast upp
  4. Vertu breytingin sem þú vilt sjá í heiminum
  5. Heilsa er ekki átak heldur lífsstíll
  6. Árangur er niðurstaða sem kemur frá litlum skrefum sem þú tekur daglega
  7.  Matur er meðalið og meðalið er matur
  8. Ef þú trúir ekki á neitt muntu falla fyrir öllu.

Hægt er að fylgjast með Antoni á Instagram og á TikTok. .

________

Í þessari grein er minnst á þunglyndi og sjálfsvíg. Ef þú ert að glíma við sjálfsvígshugsanir þá er hjálp að fá. Við bendum á Hjálp­arsíma Rauða kross­ins 1717 og netspjall Rauða krossins 1717.is. Þar er opið allan sólarhringinn. . Píeta-sam­tök­in veita ókeypis ráðgjöf í síma 552-2218, allan sólarhringinn og svo er bent á að Netspjall Heilsuveru, þar sem hægt er að ræða við  hjúkrunarfræðingur, er líka opið frá kl.8-22 alla daga.Fyrir þau sem misst hafa ástvin í sjálfsvígi má fá stuðning í sorg hjá hjá Sorgarmiðstöð og hjá Pieta samtökunum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Eva Ruza tók áskorun – ,,Maður er alveg kominn með bakverk yfir þessu“

Eva Ruza tók áskorun – ,,Maður er alveg kominn með bakverk yfir þessu“
Fókus
Fyrir 3 dögum

Maðurinn sem borðaði heila flugvél – Svona fór hann að því

Maðurinn sem borðaði heila flugvél – Svona fór hann að því
Fókus
Fyrir 3 dögum

Ozzy er kominn með nóg af myndböndum Britney – „Hvern einasta helvítis dag“

Ozzy er kominn með nóg af myndböndum Britney – „Hvern einasta helvítis dag“
Fókus
Fyrir 3 dögum

Falska söngkonan biðst afsökunar á að hafa slátrað þjóðsöngnum – „Ég ætla ekkert að skafa utan af því, ég var full“

Falska söngkonan biðst afsökunar á að hafa slátrað þjóðsöngnum – „Ég ætla ekkert að skafa utan af því, ég var full“
Fókus
Fyrir 5 dögum

Guðbjörg bjó ein 12 ára gömul og allir vissu það en enginn gerði neitt – „Þetta var auðvitað mikil höfnun“

Guðbjörg bjó ein 12 ára gömul og allir vissu það en enginn gerði neitt – „Þetta var auðvitað mikil höfnun“
Fókus
Fyrir 5 dögum

„Hawk Tuah“ stelpan segir að karlmenn séu bara á höttunum eftir einu þegar þeir senda henni skilaboð

„Hawk Tuah“ stelpan segir að karlmenn séu bara á höttunum eftir einu þegar þeir senda henni skilaboð
Fókus
Fyrir 6 dögum

50 stærstu stjörnur YouTube berjast um 1 milljón dala -„Þú ert vondur maður, herra Beast“

50 stærstu stjörnur YouTube berjast um 1 milljón dala -„Þú ert vondur maður, herra Beast“
Fókus
Fyrir 6 dögum

Shannon Doherty látin aðeins 53 ára að aldri

Shannon Doherty látin aðeins 53 ára að aldri