fbpx
Laugardagur 01.apríl 2023
Fókus

Ævintýraleg samgöngusaga Norður Kóreu – Stærsti bílaþjófnaður sögunnar, heimsins versta flugfélag og kynþokkafyllsta umferðastjórnunin

Guðrún Gyða Eyþórs Árnadóttir
Laugardaginn 4. febrúar 2023 14:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Lokaðasta land heims, Norður Kóreu, er ríki engu öðru líkt. Það á til að mynda heiðurinn af stærsta bílaþjófnaði sögunnar.

Margt og mikið hefur verið ritað og rætt um ríkið, einangrun íbúa þess og grimmilega og spillta stjórn Kim ættarinnar sem hefur lagt ofuráherslu á að loka landið algjörlega af og hindra allt upplýsingaflæði erlendis frá. 

Flest það sem við heyrum af Norður Kóreu er sorglegt en annað en furðulegt og jafnvel bráðfyndið.

Eitt af því furðulegra er einkar sérkennilegt ástarsamband Kim ættarinnar við farartæki, ekki síst bifreiðar. 

Kim á nóg af bílum.

Fölsk velmegun

Upp úr 1970 hófu Svíar að leita nýrra markaða fyrir bíla sína og sáu mikla möguleika í sölu til Norður Kóreu. 

Þótt merkilegt megi virðast, þá var Norður Kórea lengi vel mun efnahagslega betur statt en granni sinn í suðri. Ríkið var stofnað árið 1948 og það var ekki fyrr en 1965 sem landsframleiðsla Suður Kóreu náði norðrinu. 

Í orði var það að þakka  juche, kenningum stofnanda landsins, Kim Il- sung, sem í gríðarlegri einföldun, byggir á að ríkið skuli vera fullkomlega sjálfbært og óháð alþjóðasamfélaginu.

En í raun og sann keyptu kommúnistaríki austurblokkarinnar, svo og Kína, mestalla þjóðarframleiðslu Norður Kóreu langt yfir markaðsverði auk þess sem Sovétríkin sálugu lögðu fram ríkulegt fjármagn og héldu landinu að stórum hluta uppi. 

Með Volvostjörnur í augum

Á pappírunum var Norður Kórea í verulega góðum málum efnahagslega og fengu Svíar stjörnur í augum þegar að Norður Kórea fór fram á kaup á eitt þúsund Volvo 144s bifreiðum voru frændur vorir alsælir.

Volvo 144s. árgerð 1974. Norður Kórea stal þúsnd slíkum af Svíum.

Ekki síst þegar þeir fréttu að skipunin um kaupin hafði komið frá toppnum, sjálfum Kim Il-sung, og það með vilyrði að langtum stærri pantanir kæmu í kjölfarið. 

Árið 1974 voru því eitt þúsund Volvobifreiðar sendar til Kóreu, beint úr verksmiðjunni. 

En enginn barst greiðslan. Og þar sem Svíarnir höfðu haft slíka tröllatrú á sínum nýja viðskiptavini, höfðu þeir ekki farið fram á neina fyrirframgreiðslu. 

Síðan eru liðin 49 ár og hafa Svíar ekki gefist upp á að fá bílana greidda. Þeir senda enn reglulega innheimtubréf til Norður Kóreu, sem aldrei er svarað.

Volvosalan er oft kallað stærsti bílaþjófnaður sögunnar. 

Mercedes Benz á Benz ofan

Allir þrir einræðisherrar Kim ættarinnar hafa verið bílaáhugamenn og er ást þeirra á bifreiðum af gerðinni Mercedes Benz algjörlega einstök. Allir þrír hafa verið það elskir að hinum þýsku sjálfrennireiðum að talið er að hvergi í heiminum sé að finna annað eins magn af Mercedes Benz bifreiðum í einkaeign.

Bílar einræðisherrana eru ekkert slor.

Enginn veit nákvæma tölu, hugsanlega er um tugi að ræða en mun sennilegra að fjöldinn sé mun meiri. . 

Þeir létu því byggja hraðbrautir og í landinu er að finna 600 kílómetra af fyrsta flokks hraðbrautum, sem allar eru fjögurra akreina. Auk þess er fjöldi annarra minni þjððvega og var engu til sparað við gerð þeirra.  

Aftur á móti eru aðeins 30 þúsund bílar í landi með 26 milljónir íbúa. 

Það sjást sjalndast bílar á þessum líka ágætis hraðbrautum.

Bílaframleiðsla Norður Kóreu

Sjálfur á Kim Jong-un fjölda lúxusbíla sem metnir eru á 20 milljónir dollara, eða um þrjá milljarða íslenskra. 

Leið bifreiðanna inn í landið er flókin enda innflutningurinn ólöglegur. 

Junma er lúxusbifreið, framleidd í Norður Kóreu. En það er ólíklegt að Vesturlandabúar fái að njóta bíla á Junma.

Þegar að kemur að hinum 29.999 bíleigendum Norður Kóreu eru það aðeins útvaldir sem fá að aka, valdamestu flokksgæðingarnir eru auðvitað á Benz en lægra settir aka um á norður-kóreskum bílum.

Já, Norður-Kórea framleiðir bíla og er hvorki meira né minna en númer 82 á heimslista í útflutningi á slíkum græjum. Kaupendur eru aðallega Togo, Grenada, Nígera, Grænhöfðaeyjar og Norður-Makedónía, allt lönd sem ekki taka viðskiptatakmarkanir sérlega alvarlega. 

Og merkilegt nokk, þá munu gæði bíla Norður Kóreu vera á pari við japanskra bíla. 

Hópur fólks við dagleg þrif á vegum.

Ofurást á vegakerfi

En stjórnendur landsins er afspyrnu stoltir af vegakerfi sínu, þótt sjaldnast sjáist bifreið aka um. Þeim þykir það vænt um vegi sína, að gríðarlegur fjöldi fólks hefur þann starfa að þrífa þá dagleg.

Engin er tækjabúnaðurinn annað en sópur og flestir eru einfaldlega á hnjánum, tínandi upp laufblöð, smásteina eða annað slíkt sem gæti stungið í augun.

Í höfuðborginni Pyongyang er aftur á móti að sjá fleiri bíla á götunum, enda fá aðeins þeir sem njóta sérstakrar velvildar yfirvalda að búa í höfuðstaðnum.

Og jafnvel afnot af bifreið. 

En það sem gerir umferðina í borgina ólíka öllum öðrum í heiminum eru „umferðarstúlkurnar“ sem stjórna umferðinni af einstakri nákvæmni. Og þokka.

Heimsins svölustu Instamyndir

Þegar að umferðarstúlkurnar komu fyrst til sögunnar voru engin umferðarljós í borginni, og þær því fengar til að stjórna umferð. 

Og þrátt fyrir uppsetningu umferðarljósa, sem aðeins er að finna í höfuðborginni og það í takmörkuð mæli, hefur staða umferðastúlknanna haldið sér. Á tímabili var þeim fækkað en snarlega hætt við það eftir kvartanir fóru að berast frá ferðamönnum. Yfirvöld í Norðu Kóreu hafa í auknum mæli leyft heimsóknir ferðamanna. Og þeir gjörsamlega elska umferðarstúlkunar. 

Það er fátt svalara og fágætara á Insta en að birta mynd af sér með umferðastúlku í Pyongyang.

Lúxuslíf

Það er ekki til virðulegri staða fyrir unga stúlku en að vera valin umferðarstúlka. Sérstakir útsendarar fara í skóla og velja stúlkurnar sem hefja þjálfun 17 ára gamlar.

Þær þurfa að uppfylla ströng skilyrði, vera áberandi laglegar, hávaxnanr og vel vaxnar,  Þær ganga í gegnum stífa þjálfun og þurfa að standast fjölda erfiðra prófa sem reyna bæði á líkamlegan og andlegan styrk. 

Stúlkunar fá hæstu laun sem konum bjóðast í landinu, 500 grömmum meiri matarskammt en almennir borgarar auk þess sem starfinu fylgir íbúð. 

Þær mega ekki gifta sig né eignast börn á meðan starfinu stendur auk þess sem þær eru reglulega viktaðar og mældar. Bæti þær á sig fá þær sparkið. 

Það er ævintýralegt að fylgjast með umferðastúlkunum, aga þeirra og öryggi við að stjórna umferð sem oft er ekki til staðar. En það breytir engu og þær halda sínu striki hvort sem bifreið er að sjá eða ekki.

En starfsævin er stutt, aðeins til 26 ára aldurs. En þær fá að halda húsnæðinu og hafa þá aflað sér þeirrar fágætu virðingarstöðu að hafa verið umferðarstúlku sem gefur færi á efnameiri mannsefnum.

Heimsins versta flugfélag

Og fyrst annað borð er verið að fjalla um samgöngur verður hreinlega að minnast á eina flugfélag Norður Kóreu, hið ríkisrekna Air Koryo.

Air-Koryo

Það var stofnað árið 1950 í samvinnu við Sovétríkin, sem ljáðu hinu nýstofnaða flugfélagi flugvélar. Einungis var flogið milli höfuðstaðar Norður Kóreu, Pyongyang og Moskvu og farþegar aðeins útvaldir meðlimir hástéttarinnar. 

Var flugfélagið stolt og gleði Kim Il-Sung. 

Air Koryo hóf farþegaflug árið 1975 og þa´til  Moskvu, Prag og austurhluta Berlín en hefur fleiri áfangastaði í dag.

Maturinn um borð í Air-Koryo þykir ekki sérlega geðslegur.

Flugfélagið hefur yfir 21 flugvél að ráða í dag og flestar það gamlar að telst kraftaverk að þær komist á loft. Hvað þá haldiðst á lofti. Því hefur fjöldi landa  bannað flugfélaginu að koma inn i lofthelgi sína. Til að mynda má aðeins ein af þessum 21 vélum fljúga yfir lofthelgi landa Evrópusambandsins.

Air Koryo er nánast áskrifandi að titilinum Versta flugfélag heims og hefur aldrei hlotið meira en eina stjörnu, sama á hvaða lista er litið. 

Merkilegt nokk, þá hefur engin vél Air Koryo nokkurn tíma lent í slysi og hafa allir farþegar komist heilir á höldnu milli staða öll þessi ár.

Það fer vel um þriðja Kim í lestunum sem faðir hans hóf að láta gera.

Heimsins flottustu járnbrautir

Sonur Kim Il-Sung og næsti einræðisherra Norður Kóreu, Kim Jong-il, var aftur á móti afspyrnu flughrædddur og steig aldrei upp í flugvél alla sína ævi, svo vitað sé til. 

Hann lét því leggja lestarteina þvers og kruss um landið, aðeins ætlaða honum og hans fylgdarliði. Hann lét einnig byggja einhverja dýrustu lestarvagna sem vitað er um. Engu var til sparað. Þeir munu vera skotheldari en jafnvel bifreið forseta Bandaríkjanna og var engu til sparað í lúxus. 

Núverandi einræðisherra, Kim Jong-un, erfði aftur á móti ekki lofthræðslu föður síns en ku afar elskur að einkalestum sínum og hefur enn bætt í lúxusinn.

Hver á flottara gullkló?

Jafnvel salernin munu vera úr skiragulli en slíkt er svosem ekki einsdæmi enda gerði Trump þarfir sínar á migildi úr gulli.

Kannski þeir hafi rætt gullnáðhúsin á fundi sínum árið 2018?

Það er aldrei að vita.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Edda Falak braut lög

Nýlegt

Fókus
Í gær

Hödd og Andri Freyr nýtt ofurpar

Hödd og Andri Freyr nýtt ofurpar
Fókus
Í gær

Þessu hvíslaði Gwyneth Paltrow að lækninum sem kærði hana eftir að hún vann málið

Þessu hvíslaði Gwyneth Paltrow að lækninum sem kærði hana eftir að hún vann málið
Fókus
Í gær

Jake Paul og „kynþokkafyllsti skautahlaupari í heimi“ stinga saman nefjum

Jake Paul og „kynþokkafyllsti skautahlaupari í heimi“ stinga saman nefjum
Fókus
Í gær

Jeremy Renner stígur fram í fyrsta viðtalinu síðan hann lenti í slysinu – „Ég var með meðvitund allan tímann“ 

Jeremy Renner stígur fram í fyrsta viðtalinu síðan hann lenti í slysinu – „Ég var með meðvitund allan tímann“