Sumarkjóla- og freyðivínshlaupið var haldið í annað sinn í gær en fyrsta hlaupið fór fram í ágúst 2019. Síðastliðin tvö ár þurfti að fresta því út af svolitlu. Konur sem eiga heiðurinn af því að Proseccohlaupið svokallað varð að raunveruleika eru þær Birna Jónsdóttir og Rakel Jóhannsdóttir.

Fyrir utan það að undirbúa Proseccohlaup starfar Birna bæði sem grunnskólakennari og flugfreyja hjá Icelandair. „Ég næ að sameina tvennt sem nærir mig og kætir, þ.e. að kenna og flækjast um heiminn að sinna farþegum. Ég er fædd og uppalin í Árbænum. Foreldrar mínir voru alla tíð virkir þátttakendur í að byggja upp félagsstarf í hverfinu svo það var svolítið smitandi að vera með í að gera hverfið skemmtilegt að búa í.“

„Rakel flutti hliðin á mér fyrir áratug. Það er óhætt að segja að það var uppfærsla frá síðustu grönnum sem voru fín en samskiptin voru engin. Það gustar af Rakel. Hún er ein af þeim sem byrjar daginn að forrita hjá Össur, skellir sér svo á hestbak hinum megin á landinu og endar daginn á því að halda saumaklúbb. Ég man að hún sagði mér að hana langaði til að búa við Elliðaárdalinn til að geta stundað útivist af kappi. Ég svaraði henni að mér þætti einmitt svo þægilegt að henda í lasagna og skella mér svo einn stífluhring og þegar ég kem til baka þá er lasagna tilbúið. Henni fannst þetta svakalega sniðug hugmynd en gerir svo grín að því að hún hafi gert hvorugt og mun líklega aldrei gera.“

Áramótaheitið að halda Proseccohlaup

Aðspurð segir Birna að tilurð þess að Proseccohlaupið hafi orðið til megi rekja til annars viðburðar sem þær stöllur standa að. „Í nokkur ár höfum við haldið Árlaubið. Við hittumst við Árbæjarlaug á gamlársdag ár hvert með krakkana okkar í furðufötum, hlaupum stífluhring og fórum svo í sund. Við stelpurnar fáum okkur svo prosecco og strengjum áramótaheit í Árlaubsbókina okkar. Stelpurnar, þá meina ég þrjár konur því það hefur enginn haft áhuga á að mæta í þetta hlaup. Við skiljum það ekki því það er svo skemmtilegt að enda árið með þessum hætti í hverfinu sínu,“ segir Birna og hlær.

„Áramótaheitið var lengi vel að halda Proseccohlaup og létum við verða að því fyrir þremur árum. Við fengum okkur prosecco eitt fallegt sumarkvöld og buðum á viðburðinn á Facebook, ætluðum svo að enda hlaupið í pottinum hjá Rakel. Við þrættum eitthvað um það hvað margir myndu mæta og ég hafði enga trú á þessu eftir margra ára reynslu með Árlaubið sem engin mætir í nema við. Rakel hafði svo mikla trú á þessu að hún sagði að allavega 200 myndu mæta. Daginn eftir höfðu 200 manns meldað sig og ég var framan af viss um að Rakel hefði ekki hætt fyrr en 200 væru búnir að skrá sig.“

Birna segir að þær hafi þurft að undirbúa viðburðinn enn frekar og gera fleiri ráðstafanir. Þátttakan hafi í raun farið fram úr öllum væntingum. „Við tókum út að við myndum enda í pottinum hjá Rakel. Óhætt er að segja að viðburðinn hafi slegið rækilega í gegn því nokkur hundruð mættu og gerðu sér glaðan dag. Við hefðum aldrei getað haldið þetta án styrktaraðila og svo eru vinir og vandamenn í bakvarðarsveit.“ Í ár voru styrktaraðilar víninnflytjendurnir Ölgerðin, Mekka wines and spirits, Globus og Tösti. Rent a party hélt uppi stemningunni eins og þeim er einum lagið og Mathöllin Höfða sá um að sækja freyðivínshlauparana í rútu eftir að hlaupararnir höfðu skálað í prosecco að hlaupi loknu.

Aðgangseyri ein ísköld freyðivínsflaska

Aðspurð segir Birna að forsagan af þessu hlaupi sé sú að þeim fannst vanta stemningshlaup sem auðvelt væri að taka þátt í. „Okkur fannst vanta hlaup þar sem ekki þarf að undirbúa sig eða kosta miklu til. Hver á ekki ískalda freyðivínsflösku í ísskápnum, sumarkjól og er stemningskona eins og við? Enga púlsmæla og spandex heldur bara samvera í dalnum okkar.“

Aðgangseyrir í hlaupið var ísköld freyðivínsflaska sem afhendist í starti. Bakvarðarsveitin sá síðan um það að skenkja í glös og hafa þetta huggulegt. „Hver og einn þurfti að mæta með sitt eigið glas enda hver vill drekka freyðivín úr pappamáli? Hlaupið byrjaði og endaði í nýuppgerðu og fallegu útivistarsvæði við Elliðaárstöð,“ segir Birna og bætir við að hlaupið sé komið til að vera, þetta verði árlegt. Þær sem ekki gátu tekið þátt í ár geti látið sig hlakka til næsta árs og mætt í Sumarkjóla- og freyðivínshlaupið að ári.

Hlauparnir skörtuðu litskrúðugum og fallegum sumarkjólum í hlaupinu í gær þar sem gleðin var við völd.