

Heiða B. Heiðarsdóttir, eigandi vefverslunarinnar með Pompi og prakt, var ættleidd aðeins sex daga gömul, árið 1964. Þetta kemur fram í spjalli hennar við Viktoríu Hermannsdóttur, í viðtalsþættinum Segðu mér á Rás 1. Tíu árum síðar komst hún að því að auglýst hafi verið eftir kjörforeldrum fyrir hana í Morgunblaðinu en slíkt var ekki óþekkt á þessum árum enda ekkert opinbert kerfi sem hélt utan um ættleiðingar. Blóðmóðir hennar var íslensk en blóðfaðirinn bandarískur.
Hún segist ekki hafa verið sátt þegar hún fann auglýsinguna en blessunarlega fór allt vel því að hún eignaðist yndislega foreldra að eigin sögn.
„Það var ýmist verið að auglýsa eftir foreldrum eða börnum. Ég var ekki sátt þegar ég fann þetta tíu ára gömul,“ rifjar hún upp í viðtalinu. Hún fann auglýsinguna í fórum foreldra sinna og var illa brugðið. „Þessi litla auglýsing hafði verið klippt út og einhvern veginn fauk hún úr kassanum þegar ég var að gramsa. Ég flutti að heiman í alveg tvo tíma, alveg brjáluð, þangað til mér var bent á að þarna stæði kjörbarn, alveg sérstaklega valið,“ segir hún glettin.
Auglýsingin sem birtist í Morgunblaðinu á sínum tíma var svo hljóðandi: Við óskum eftir að komast í kynni við ung hjón sem vilja taka kjörbarn. Svör sendist afgr. Mbl. fyrir föstudag merkt: Kjörbarn 9203.
Þau sem svöruðu auglýsingunni voru Guðfinna Jóhannesdóttir og Heiðar Georgsson en Heiða segist vera fegin að þau hafi rekið augun í auglýsinguna.
„Ég segi oft að ég hefði ekki getað fengið betri foreldra þó ég hefði fengið að velja þau sjálf. Ég elst upp sem einkabarn og einhvern veginn fékk ég allt sem mig vantaði, hélt mig vantaði, allt sem ég heimtaði, ég fékk það í einhverri mynd og mér var svolítið kennt að ég væri bara nafli alheimsins.“
Í viðtalinu við Viktoríu lýsir Heiða leit sinni að líffræðilegum foreldrum sinnum og hvernig sú leit endaði með því að henni barst fallegasta bréf sem hún hefur fengið og lesið.
Hér má lesa og hlýða á viðtalið við Heiðu í fullri lengd.