Neytendasamtökin hvetja neytendur til að hafa varann á við kaup á gjafabréfum. Í grein sem birtist á vefsíðu samtakanna í dag undir fyrirsögninni „Eru gjafabréf glapræði?“ er rakið hvað beri að hafa í huga ef til stendur að kaupa gjafabréf.
Neytendasamtökin segja að oftast sé kvartað yfir því að seljendur gjafabréfa leyfi viðskiptavinum ekki að nýta gjafabréf sem eru útrunnin.
„Slíkir viðskiptahættir verða að teljast mjög sérstakir enda hefur seljandi ekki orðið fyrir neinum búsifjum, þvert á móti. Búið er að greiða fyrir ákveðna vöru eða þjónustu og eðlilegt að seljandi veiti hana óháð því hvenær greiðsla fór fram.“
Að mati Neytendasamtakanna ættu fyrirtæki sem treysti sér ekki til að hafa eðlilegan gildistíma á gjafabréfum að hreinlega sleppa því að selja þau og ættu neytendur að forðast gjafabréf með stuttum gildistíma.
Hvergi sé fjallað um gildistíma gjafabréfa í lögum en Neytendasamtökin telja þó eðlilegt að slík bréf gildi í fjögur ár – sem er sami tími og almennur fyrningarfrestur á kröfum. Helst ættu gjafabréf þó ekki að renna út frekar en peningaseðlar.
Neytendasamtökunum er ekki kunnugt um hversu háar upphæðir tapist vegna gjafabréfa sem ekki eru notuð en ætla þó að sú upphæð sé umtalsverð. Dönsku neytendasamtökin hafi látið gera könnum fyrir nokkrum árum og þá fundið út að á fimm ára tímabili hefðu 40 prósent aðspurðra lent í því að sitja uppi með útrunnið gjafabréf.
„Neytendasamtökin vilja ekki ganga svo langt að segja að gjafabréf séu í öllum tilvikum glapræði eða ráða fólki frá því að kaupa gjafabréf yfirhöfuð en í ljósi þess hversu mörg gjafabréf fyrnast eða týnast er rétt að hafa varann á. Stundum gæti reynst farsælla að gefa einfaldlega reiðufé.“
Neytendasamtökin gefa eftirfarandi ráð þegar kemur að kaupum á gjafabréfum: