fbpx
Fimmtudagur 08.desember 2022
Fókus

Ritdómur: Ungt fólk í ólgusjó lífsins

Ágúst Borgþór Sverrisson
Þriðjudaginn 11. október 2022 15:29

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Smásagan lifir prýðilegu lífi í íslenskum bókmenntum án þess að berast mikið á. Árlega má finna allmörg nýútgefin smásagnasöfn, ýmist eftir landskunna höfunda eða unga nýgræðinga. Þeir síðarnefndu eiga oftar en ekki að baki nám í ritlist við Háskóla Íslands og óhætt er að fullyrða að sú ágæta námsbraut hafi breitt út fagnaðarboðskap smásagnaformsins og aflað því margra góðra fylgjenda.

Áskrifendur Tímarits Máls og menningar uppskera síðan í hverju hefti að minnsta kosti eina ferska og spennandi smásögu eftir lítt þekkta höfunda, stundum fleiri.

Berglind Ósk fellur klárlega undir ofannefnt. Hún er rúmlega þrítug kona sem starfar við textasmíði og á að baki nám við ritlist í HÍ. Smásagnasafnið Breytt ástand, sem er nýútkomið, markar fyrstu kynni mín sem lesanda af þessum höfundi og óhætt er að segja að þau kynni hafi verið ánægjuleg.

Bókin inniheldur 19 stuttar sögur og fjalla þær flestar um ungar konur að glíma við þau viðfangsefni sem marka oft líf ungs fólks: Ástarsambönd, skemmtanalíf, samskipti við fjölskyldu og vini, fíkn. Margar sagnanna fjalla um fíkniefnaneyslu og í káputexta aftan á bókinni er réttilega bent á að leiðin út í jaðar samfélagsins þarf ekki að vera löng. Sumar persónurnar fara þarna á milli og utangarðsheimurinn rennur saman við hversdagslífið.

Berglind er markviss og beittur stílisti sem lætur vel að draga upp lifandi myndir af sögusviði og samskiptum. Hún er líka fyndin og neyðarleg í lýsingum á mislukkuðum samdrætti, þar sem ólíkar væntingar skapa árekstra. Þessar 150 blaðsíður af raunsæislegum svipmyndum úr samtímanum eru ólgandi af lífi og í bókinni eru oft dregnar upp aðstæður sem flestir lesendur ættu að geta speglað sig í. Oft bregður höfundur spaugilegu ljósi á persónur og aðstæður en óhikað má segja að Berglindi takist víða í bókinni að draga upp bráðlifandi persónur í fáum dráttum. Veruleiki sagnanna er vissulega oft mjög nöturlegur en við fáum líka að samgleðjast persónum sem finna leiðina út úr öngstræti og vinna litla en mikilvæga sigra.

Breytt ástand er einkar ánægjuleg lesning. Hér er spennandi höfundur í mótun.

 

Berglind Ósk: Breytt ástand (smásögur)

Útgefandi: Sögur

150 bls.

Reykjavík 2022

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Edda Falak og Þórdís Elva senda hlýjar kveðjur sín á milli – „Takk fyrir allt sem þú gerir“

Edda Falak og Þórdís Elva senda hlýjar kveðjur sín á milli – „Takk fyrir allt sem þú gerir“
Fókus
Fyrir 2 dögum

Kristján Einar sakaður um lygar – „Hvað sem þjóðin vill kalla það… Athyglissýki?“

Kristján Einar sakaður um lygar – „Hvað sem þjóðin vill kalla það… Athyglissýki?“